Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 11:53:14 (6236)

1996-05-18 11:53:14# 120. lþ. 141.1 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[11:53]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér velja menn sér auðvitað þau sjónarhorn sem henta og ég get svo sem skilið hv. þm. að hann reyni með þessum hætti að verja það frv. sem hér er komið fram eða þessi ákvæði sem ég hef verið að gagnrýna. En það má allt eins segja og það má allt eins túlka það sem hefur verið að gerast í úthafsveiðunum sem framhald af því sem þessi sömu skip hafa verið að gera innan lögsögu. Það eru skip með reynslu í rækjuveiði innan lögsögu sem hafa farið á Flæmska hattinn. Það eru sömuleiðis bolfiskveiðiskip sem hafa haft veiðireynslu innan lögsögu sem hafa farið í Smuguna eða Barentshafið þannig að það má allt eins líta svo á að hér séu skip að bæta við sig, að auka við sig í þeim veiðum sem þau eru vön að stunda, rétt eins og rækjuskipin sem hafa verið að veiða innan lögsögunnar undanfarin ár og hafa verið að bæta við sig ár frá ári vegna þess að rækjuaflinn hefur verið að aukast. Það hefur ekki komið fram á hinu háa Alþingi hugmynd þess efnis að þau væru skert nú á síðari árum, enda hefur þessari reglu ekki verið beitt á síðari árum, ekki fyrr en nú er komin fram hugmynd um að gera það. (Gripið fram í.) En það má líta á þetta svona, hv. þm. Það fer eftir því hvaða sjónarhorn menn velja sér. Ég lít ekki svo á að hér sé verið að kvótasetja nýjar tegundir, enda kemur ekkert fram um að það sé verið að kvótasetja nýjar tegundir. Það má allt eins líta svo á að hér sé um framhaldsveiðar eða viðbótarveiðar þeirra skipa að ræða sem hafa verið að veiða nákvæmlega sömu tegundir fyrir.