Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 12:16:05 (6238)

1996-05-18 12:16:05# 120. lþ. 141.1 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[12:16]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki miklu að bæta við mál mitt en þó vil ég segja örfá orð, ekki síst vegna þess að mér tókst ekki að ljúka við ræðu mína áðan. Í fyrsta lagi vil ég taka undir ábendingar sem komu fram frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um að það liggur ekki mjög mikið á að lögfesta þetta frv. núna. Ef á að taka frv. í gegnum þingið núna með hálfgerðri flýtimeðferð finnst mér að það væri merki þess að það eigi að festa hagsmuni þeirra sem fyrir eru í sjávarútvegi. Það er mjög mikilvægt að þetta frv. fái að liggja og þjóðin geti áttað sig á hvað felst í því.

Ég tek undir sjónarmið hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur að það er ekki eðlilegt að þær greiðslur, sem ég er þó sammála henni að eigi að inna af hendi, þ.e. að fólk gjaldi fyrir heimildir til þess að veiða utan lögsögunnar með heimildum innan til þess að koma þeim að sem hafa ekki möguleika á að veiða fyrir utan, að gefa þeim aukna möguleika innan lögsögunnar. Mér finnst alls ekki eðlilegt að það fari til þeirra sem kvótann eiga fyrir, samanber gagnrýni á það að 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna er ekki virt. Ég tel að það sé mjög óeðlilegt að færa þessum aðilum þennan kvóta á silfurfati sem versla síðan með hann sín á milli.

Að öðru leyti tek ég undir það sem ég var að ljúka við að segja fyrr í ræðu minni að ég er mjög ósátt við 5. og 6. gr. eins og þær eru orðaðar núna þó að það sé kannski ekkert skárra að hafa það eins og þetta er núna samkvæmt núgildandi lögum, þ.e. að gefa ráðherra alfarið heimildir til þess að ráða þessu eins og lögin frá 1976 gera ráð fyrir. Ef marka má vinnu hans hingað til þá virðist eilíflega vera passað að særa ekki þá hagsmunaaðila sem eru til staðar eða skerða ekki hagsmuni þeirra á kostnað sameignarákvæðis fiskveiðistjórnunarlaganna. Ég tel að ríkisstjórnin sé að missa sjónar af skóginum fyrir trjánum og það sé mjög mikilvægt að þjóðin fái þetta frv. til umfjöllunar og átti sig á og komi þeirri leiðréttingu á framfæri. Ég fagna því þess vegna að þetta frv. er lagt fram núna en ég vona að það verði ekki afgreitt á þessu þingi.