Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 12:45:19 (6244)

1996-05-18 12:45:19# 120. lþ. 141.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[12:45]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hugleiðingar hv. þm. eru út af fyrir sig allrar athygli verðar. Ég verð þó að vekja athygli á því að sú skattlagning húsnæðis sem hv. þm. nefndi er skattlagning sem fram fer af hálfu sveitarfélaganna almennt, gatnagerðargjöld, fasteignagjöld og gjaldtaka af þeim toga önnur þannig að við erum auðvitað að tala um tvo mismunandi þætti. Þar fyrir utan skulum við ekki gleyma því að þegar kemur til þess að byggja upp þessar forvarnir, varnarvirkin t.d. við Flateyri, uppkaup húsanna í Hnífsdal svo ég taki tvö dæmi, þá munu sveitarfélögin þurfa að koma þar að. Og það er alveg ljóst mál t.d. að hið nýja sveitarfélag Ísafjarðarbær verður fyrir gríðarlegum útgjöldum af þessum ástæðum en við erum ekki farin að sjá endanlega núna hvernig við ætlum að mæta þeim. 400 millj. kr. varnarvirki við Flateyri þýða 40 millj. kr. útgjöld fyrir hið nýja sveitarfélag Ísafjarðarbæ þannig að við verðum auðvitað að horfa á þetta í þessu samhengi.

Ég fagna svo því sem ég veit að er einlæg skoðun hv. þm. að þetta er auðvitað gríðarlega mikið og stórt hagsmunamál, fyrst og síðast vegna öryggis þess fólks sem býr við þá vá sem snjóflóðin eru og hafa verið og við því miður áþreifanlega verið minnt á, en líka vegna þess sem ég sagði áðan að við erum með því að auka forvarnir af einu tagi eða öðru að draga úr framtíðarútgjöldum viðlagatryggingar sem væntanlega getur þýtt það þegar til lengri tíma er litið að hægt verður að lækka iðgjöldin sem standa undir fjármögnun viðlagatryggingar.