Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 12:55:04 (6246)

1996-05-18 12:55:04# 120. lþ. 141.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[12:55]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að mál þetta er fullseint fram komið. Hins vegar vil ég segja fyrir hönd míns flokks að Alþfl. mun gera það sem hann getur til þess að málið verði afgreitt á þessu þingi. Við teljum að það sé brýnt að farið verði í þessar aðgerðir.

Hins vegar vil ég, sérstaklega vegna orða hv. þm. Péturs H. Blöndals, segja að mér finnst það ekki nægilega gott hjá hv. þm. að koma upp og vera neikvæður út í að menn séu að leggja í auknar skattbyrðar. Hann segir að það eigi frekar að reyna að spara annars staðar og hann nefndi í frammíkalli og í ræðu tvo flokka sérstaklega, landbúnað annars vegar og hins vegar Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég tel ekki að hv. þm. geti komið hingað upp og kastað einhverju svona fram eins og er að verða hans plagsiður. Hv. þm. verður, ef hann er þessarar skoðunar, að fylgja þessu eftir með því að leggja fram einhvers konar þingmál. Mér er kunnugt um að afstaða þingmannsins hefur komið fram til landbúnaðargeirans að einhverju leyti í gegnum þingmál fyrr á þessum vetri. En mér finnst ekki hægt að þingmaður stjórnarliðsins komi hingað og ráðist gegn Atvinnuleysistryggingasjóði og tali eins og hann sé meira og minna óþarfur sjóður eða að þar sé hægt að spara verulegar upphæðir án þess að efndir fylgi slíkum orðum. Ég tel rétt að hv. þm. leggi þá fram þingmál og það komi fram hver er afstaða hans eigin flokks og stjórnarliðsins til slíkra tillagna.

Það sem mig langaði til að reifa lítillega, herra forseti, er að ég er þeirrar skoðunar að þegar menn fara út í svona gríðarlega miklar framkvæmdir, þá þurfi ákveðnir hlutir að liggja fyrir. Heildarumfang þessara framkvæmda þarf t.d. að liggja fyrir. Ég hjó eftir því og brá svolítið þegar hinn varkári hæstv. umhvrh. sagði í framsögu fyrir þessu frv. að kostnaðurinn við allar aðgerðir á sviði snjóflóðavarna mundi hlaupa á 5--10 milljörðum. Ég hefði gjarnan viljað að svo nákvæmur ráðherra hæstv. hefði þetta niðurnjörvaðra.

Maður veltir fyrir sér, hvers vegna þörf er á því að þetta frv. verði samþykkt núna. Ég tek fram að ef það er vilji ríkisstjórnarinnar að það verði gert, þá mun Alþfl. stuðla að því. En þegar ég les þetta í gegn, þá kemur fram að þessi fjárþörf mun vera fast að 1.500 millj. kr. Það skiptist þannig að vegna varna í Súðavík og Hnífsdal sem þegar er búið að taka ákvörðun um, a.m.k. af hálfu ríkisstjórnarinnar, mun heildarkostnaður vegna húsakaupa í Súðavík vera röskar 400 millj. og hálft annað hundrað millj. kr. vegna stuðnings við húsakaup í Hnífsdal. Þetta er frágengið að ég tel og búið að taka ákvarðanir um þetta. Það er alveg ljóst að það þarf fjármagn til þessara hluta. Þetta eru tæpar 600 millj. Síðan eru skuldbindingar ofanflóðasjóðs vegna kostnaðar við rekstur snjóathugunarmanna sem er áætlaður um hálft hundrað millj. En afgangurinn af þeim kostnaði sem vantar upp í þessar 1.500 millj., þ.e. um 800 millj., eru hlutir sem er ekki búið að taka ákvarðanir um.

Ég sé t.d. að það er tekið svo til orða á bls. 3 í greinargerðinni að heildarkostnaður vegna varna á þessu ári gæti numið allt að 1.500 millj. kr. ef farið yrði í gerð varnarvirkja á Flateyri og á Ísafirði. Samtals nema þessar tvær framkvæmdir um 700 millj. kr. Það er talað um að hlutdeild ofanflóðasjóðs t.d. við greiðslu mismunabóta til húseigenda sem ekki fengu fullnægjandi bætur hjá Viðlagatryggingu, gæti numið allt að 100 millj. kr. Ég les út úr þessu að þarna sé um að ræða eitthvað sem ekki er búið að taka ákvarðanir um. Það kemur reyndar líka fram í greinargerðinni að það sé ekki búið að fallast á þátttöku ofanflóðasjóðs við varnarvirki við Seljalandshverfið á Ísafirði.

Ég ætla alls ekki, herra forseti, að leggjast gegn því að farið verði í þessar framkvæmdir. Ég tel þær nauðsynlegar. En ég velti því fyrir mér, af hverju ekki er búið að ganga frá þessum hlutum áður en hæstv. ríkisstjórn leggur fram þetta frv.

Ég tel líka að það sé nauðsynlegt að allir íbúar landsins sem búa við snjóflóðahættu búi við sama rétt. Og ef menn ætla að fara í þessar miklu framkvæmdir á Vestfjörðum, er þá ekki alveg ljóst að því muni fylgja samsvarandi framkvæmdir t.d. á Austfjörðum þar sem snjóflóðahætta er að ég hygg ekki minni?

Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi fram við þessa umræðu. Þótt ég og minn flokkur styðji þetta mál finnst mér það fulllaust í reipunum og of margt sem á eftir að ákvarða. Ég spyr hæstv. umhvrh.: Þær framkvæmdir sem ég taldi upp áðan og ekki virðist samkvæmt greinargerðinni búið að taka ákvarðanir um, hvenær munu þær liggja fullmótaðar og fullákveðnar á borði hæstv. ríkisstjórnar? Hvenær jafnframt mun lokið þeirri heildarúttekt á þeim framkvæmdum sem nauðsynlegt verður að ráðast í til varnar byggðarlögum sem eru á snjóflóðasvæðum? Og hvenær telur hæstv. ráðherra að það muni liggja fyrir?

Síðan vil ég líka segja, þótt ég ætli ekki að inna hæstv. ráðherra eftir skoðunum hans á því, að mér finnst möguleg sameining Viðlagatryggingar og ofanflóðasjóðs vera afgreidd heldur lauslega. Ég hefði viljað sjá betri útskýringu á því hvers vegna það er ekki fýsilegt til frambúðar að sameina þessar tvær stofnanir.