Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 13:01:53 (6247)

1996-05-18 13:01:53# 120. lþ. 141.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[13:01]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram um frv. og ítreka það sem kom fram í máli mínu í framsöguræðu í gær. Reyndar vannst ekki tími til að klára umræðuna, en það skiptir kannski ekki öllu máli. Ég vil ítreka að hér er um að ræða afar brýnt mál sem nauðsynlegt er að taka á þótt vissulega megi taka undir gagnrýni hv. þingmanna tveggja sem tekið hafa þátt í umræðunni. Málið hefði mátt vera fyrr fram komið og e.t.v. betur unnið. Í því sambandi langar mig þó að minna á að það er ekki fyrr en um sl. áramót sem málaflokknum er í raun stjórnskipulega komið undir umhvrn. með lögum sem við samþykktum rétt fyrir jól á hinu háa Alþingi. Þá var umhvrn. fengið það verkefni að fjalla um þessi mál.

Auðvitað hafði ráðuneytið fylgst með því áður og ráðuneytisstjóri í umhvrn. er einn af fulltrúum í svokallaðri ráðuneytisstjóranefnd sem hefur meira og minna fjallað um þetta mál allt sl. ár, alveg frá því að áföllin urðu í Súðavík.

Síðan um áramót hefur verið unnið mikið starf í þessum málum af hálfu ráðuneytisins og hinnar svokölluðu ofanflóðanefndar, sem hefur hlotið það nafn þótt hún heiti ekki svo í löggjöfinni. Og því verður auðvitað haldið áfram, því starfi er ekki nándar nærri lokið. Í greinargerðinni segir m.a., með leyfi forseta, en hún svarar að hluta til spurningum hv. þm.:

,,Á vegum umhvrn. og í samráði við viðkomandi sveitarfélög er nú að hefjast heildarúttekt á mögulegum varnarvirkjum í byggðarlögum á snjóflóðasvæðum. Áætlað er að þessari úttekt ljúki í byrjun ágúst þar sem fram komi tillögur um varnaraðgerðir í einstökum byggðarlögum ásamt mati á kostnaði.``

Þessi vinna er nú í fullum gangi. Við höfum ráðið til þess verkfræðiskrifstofur og fengið til þess tilstyrk erlendra aðila vegna þess að því miður er þekkingin ekki nægjanleg hjá okkur Íslendingum á því hvernig bregðast skuli við þessari vá og hvernig varnarvirki skuli sem best úr garði gerð. Við höfum átt góða samvinnu við bæði Norðmenn og Svisslendinga í þessu sambandi og þessi vinna er í fullum gangi. Við vonumst til þess að þá verði síðla sumars komin betri heildarmynd á málið en nú er. Hins vegar hafa mál verið, ef svo má segja, fyrst unnin á Flateyri og á Ísafirði þar sem tillögur liggja þegar fyrir. Hv. 15. þm. Reykv. spurði hvenær þessar ákvarðanir gætu legið fyrir. Reyndar spurði hv. 4. þm. Austurl. líka hvernig forgangsröðun ætti að fara fram og hvenær ákvarðanir yrðu teknar um einstaka staði og gerð hinna ýmsu varnarvirkja. Ég get aðeins svarað því til að á þessum tveimur stöðum, á Flateyri og Ísafirði, hafa verið unnar tillögur sem væri hægt að ráðast í. Það er þegar ákveðið að halda áfram þessum undirbúningsframkvæmdum á Flateyri svo hægt verði að bjóða verkið út og það verður vonandi hægt að hefjast handa við það í sumar og þá a.m.k. er þessi vinna hafin.

Forgangsröðun er alltaf erfitt verkefni. Undirbúningsvinnan verður að vinnast í ofanflóðanefndinni. Þar liggja síðan endanlegar tillögur fyrir á komandi sumri og þá verður að fara yfir það með sveitarstjórnarmönnum og fulltrúum sveitarfélaganna hversu fljótt er hægt að fara í þessi verkefni og ræða það síðan í ríkisstjórn hvernig hægt sé að ákveða forgangsröðunina.

Ég nefndi í gær í framsögu minni sem hugsanlegan framkvæmdatíma fimm ár. Það er þó sett fram með öllum fyrirvörum og það er erfitt að segja við aðila sem þurfa að bíða allt að fimm árum að þeir eigi einhverra hluta vegna að bíða lengur en aðrir. En þetta eru gríðarlega miklar framkvæmdir. Þetta eru gríðarlega kostnaðarsöm verkefni og þess vegna þurfa menn einnig að átta sig á því hversu hratt við getum farið í verkið.

Við höfum ekki tölur eða upplýsingar um það hvað þetta gæti kostað nákvæmlega en ég vona að það skýrist á sumrinu eða á næstu vikum og mánuðum. Auðvitað er talan sem nefnd var í framsöguræðu minni í gær ónákvæm, 5--10 milljarðar. Auðvitað er þar um að ræða stórt bil og skiptir miklu hvort hér er um að ræða 5 milljarða eða 10 milljarða. Þetta eru gríðarlega háar tölur. Gerðar hafa verið grófar kostnaðar\-áætlanir um að byggja varnargarða á Flateyri fyrir 400 millj. og hugsanlega Ísafirði fyrir 300 millj. Þetta er fljótt að hlaupa á stórum upphæðum fyrir svo utan þær upphæðir sem við þurfum að nota til þess að bæta það tjón sem þegar er orðið. Við skulum vona að það þurfi ekki að verða meira af slíkum áföllum.

Það er sem sagt verið að taka fyrstu skrefin. Þegar hv. þingmenn spyrja hvort hefði ekki mátt liggja fyrir betri niðurstöður og upplýsingar vil ég undirstrika að auðvitað hefði verið hægt að fara bara fram með heimild um lántöku upp á þessar 800 millj. og láta annað bíða. Það sem skiptir máli núna er að gera upp þær skuldbindingar sem þegar hafa verið gerðar varðandi bætur á fasteignum og hefja framkvæmdir við þau varnarvirki sem bíða nú nokkurn veginn hönnuð og tilbúin til að hefjast megi handa.

Niðurstaða ríkisstjórnarinnar varð sú að leggja til að fjárhagur sjóðsins yrði styrktur. Það er ljóst að þær upphæðir sem til sjóðsins renna sem hluti af viðlagatryggingariðgjaldinu eru hvergi nærri nógar til að standa undir þeim miklu framkvæmdum sem fram undan eru. Auðvitað getur ýmislegt komið til á framkvæmdartímanum við gerð varnarvirkjanna, hvort sem hann verður eitt, þrjú eða fimm ár. Hann hlýtur að verða lengri en eitt ár því að við höfum ekki möguleika á að framkvæma það sem þarf að gera á svo skömmum tíma. Auk þess veit ég ekki hversu vel tillögurnar eru undirbúnar þó svo það kæmi fram í máli hv. 4. þm. Austurl. að á Neskaupstað hefðu verið settar fram tillögur 1976. Því máli hefði þurft að fylgja betur eftir. En það er þá kannski auðveldara að hraða skoðunum og athugunum á þeim varnarvirkjum sem þar þarf að byggja.

Aðalmálið var sem sagt að fá lántökuheimildina til að geta brugðist við því sem nú liggur fyrir hjá sjóðnum og síðan að vinna af fullum krafti áfram að málunum á næstu vikum og mánuðum. Ég leyfi mér að fullvissa hv. þm. um að þar verður ekki slegið slöku við. Menn halda áfram þeirri vinnu sem nú þegar er í gangi og það verður lögð á það áhersla að hægt verði að leggja tillögur og hugmyndir fyrir hv. Alþingi á hausti komanda. Ég minni á það og það kemur líka fram í greinargerðinni að talað er um að endurskoða bæði lögin um ofanflóðasjóð eða forvarnasjóðinn ef frv. þetta verður að lögum. Eins og það lítur út í dag verða lögin um þetta mál endurskoðuð og koma aftur til umfjöllunar á þinginu í haust ásamt lögum um viðlagatryggingu sem nú þegar er hafin vinna við endurskoðun á í viðskrn. Hér er því fyrst og fremst um bráðabirgða- eða neyðaraðgerð að ræða og menn geta haft sína skoðun á því hvort það hefði þurft að vera fyrr á ferðinni. Það má vissulega til sanns vegar færa. En við erum ekki að tala um heildarmyndina, það munum við gera næsta haust. Á næsta þingi verða þessi mál lögð fyrir hv. þing aftur með nýju frv. þar sem tekið er á heildarendurskoðun laganna.

Aðeins ein setning um forvarnasjóðinn, þ.e. orðið eða heitið. Það skiptir kannski ekki öllu máli en það er rétt ábending hjá hv. 4. þm. Austurl. að við ræðum gjarna um forvarnir í sambandi við heilbrigðismál, ekki síst mál sem tengjast ávana- og fíkniefnum. Þess vegna fer kannski ekki vel á því að nota þetta orð um þennan sjóð eða þær breytingar sem hér er verið að gera á lögunum. Ég er tilbúinn til að hlusta á tillögur, hugmyndir eða ábendingar í því efni. En hér var sem sagt verið að taka á því eða undirstrika að sjóður þessi nær ekki eingöngu yfir ofanflóð eða snjóflóð. Það er gert ráð fyrir því að hann taki á fleiri áhættuþáttum.

Hv. 4. þm. Austurl. spurði líka hvort ég sæi það svo að það þyrfti að sjá áfram fyrir fjárþörf sjóðsins með lánveitingum. Ég ímynda mér að þess þurfi. Ég ímynda mér að eftir að þetta frv. verður að lögum, verði það samþykkt nú á hv. þingi, muni áfram þurfa að mæta stórum og kostnaðarsömum framkvæmdum sem blasa við okkur á næstu missirum með tímabundnum lántökum. Sjóðnum er þá gert mögulegt með föstum tekjustofni að standa undir þeirri greiðslubyrði á eitthvað lengri tíma. Það ætti þá líka að geta leitt til þess að við þyrftum ekki að safna upp í biðröð þeim framkvæmdum sem úttekt í sumar gerir ráð fyrir að liggi fyrir. Við getum þá fjallað um málið í heilsteyptari mynd.

Ég ítreka, hæstv. forseti. að hér er fyrst og fremst verið að fjalla um að styrkja tekjugrunn sjóðsins, fá honum fastan tekjustofn. Í öðru lagi, sem var kannski það sem vakti umræðuna núna og gerði nauðsynlegt að fá þetta mál afgreitt á þessu þingi en ekki í haust, er brýnt að fá heimild til lántöku. Hv. þingmönnum finnst kannski ástæða til að skoða aðra þætti betur, en þetta er nauðsynlegt að fá afgreitt núna. Ég tel að það eigi líka að leggja áherslu á að styrkja tekjur sjóðsins.

Þá langar mig aðeins að lokum að segja fáein orð um þá þætti sem komu fram í máli hv. 16. þm. Reykv. Hér er vissulega verið að leggja nýjar álögur á húseigendur. Það má auðvitað hugsa sér aðra skattstofna en þetta er sá skattstofn sem ofanflóðasjóðurinn hefur haft í gegnum viðlagatrygginguna. Það er einfaldasta aðferðin til þessarar tekjuöflunar. Sá farvegur er fyrir hendi og það er m.a. ástæðan fyrir því að það er líka nauðsynlegt, ef menn ætla að halda sig við þann tekjustofn að fá þetta frv. samþykkt núna, þ.e. hækkunina á gjaldinu til sjóðsins eða fastan tekjustofn til sjóðsins vegna þess að tryggingaiðgjöldin eru lögð á á haustin. 1. október er a.m.k. gjalddagi iðgjalda hjá einhverjum tryggingafélögunum og þess vegna er nauðsynlegt að fá þessa breytingu inn núna. Við getum svo alltaf velt fyrir okkur hvenær á að hækka skatta og hvort það er réttlætanlegt í þessu tilfelli eða öðrum. Ég held að það sé nauðsynlegt í þessu tilfelli. Ég minni á að við erum þar að auki að glíma við að ná niður ríkissjóðshallanum með ýmiss konar öðrum aðgerðum. En sú umræða verður að bíða betri tíma. En í viðbót við þá glímu alla var mjög erfitt að takast á við þessar kostnaðarsömu framkvæmdir öðruvísi en að fá til þess viðbótartekjur.

Allra seinast vil ég nefna að í endurskoðun laganna um viðlagatryggingu kemur auðvitað til greina eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf., að endurskoða tekjuöflun til viðlagatryggingar þegar okkur hefur tekist að byggja upp varnarvirki á þann hátt að það megi gera ráð fyrir að þau dragi úr áföllum og helst þannig að hægt sé að koma í veg fyrir svipleg og stóralvarleg áföll eins og við urðum fyrir á seinasta ári.