Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 13:16:41 (6248)

1996-05-18 13:16:41# 120. lþ. 141.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[13:16]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst það sem hæstv. ráðherra sagði, að ekki hefði verið unnið að málum eftir áföllin í Neskaupstað og þar til nú með varnarvirkjum. Ég fór yfir þessa sögu líklega á 118. þingi nokkuð rækilega og nefndi í því sambandi m.a. þá hnökra sem orðið höfðu í meðferð þessara mála, m.a. það að félmrh. þeirrar ríkisstjórnar sem tók við á árinu 1983, sló striki yfir vinnu sem þá hafi farið fram að þessum málum, það seinkaði málsmeðferð verulega, en einnig þann fjárskort sem síðan var í ofanflóðasjóði fram undir þetta og það háa hlutfall sem sveitarfélögum var ætlað að greiða til að standa skil á sínum hlut.

Tilefni þess að ég bið um orðið í andsvari er þó sérstaklega að spyrja hæstv. ráðherra --- það kom nú reyndar fram undir lok hans máls --- að því hvort það væri í rauninni nokkuð við þá málsmeðferð að athuga að fjárheimildin yrði veitt, sem gert er ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða, en efnisþættir frv. að öðru leyti biðu vinnu að hausti þegar e.t.v. lægi fyrir skýrari heildarmynd. Ég segi þetta einfaldlega til að það gæti orðið ljóst fyrir þingnefndina hvort hæstv. ráðherra mundi sætta sig við slíka málsmeðferð ef athugun mála í þingnefndinni leiddi til þess að þær spurningar kæmu.