Umgengni um nytjastofna sjávar

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 13:41:31 (6252)

1996-05-18 13:41:31# 120. lþ. 141.3 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, Frsm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[13:41]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Á þskj. 1002 er brtt. frá þeim sem hér stendur. Hún varðar 26. gr. frv., nú eftir atkvæðagreiðslu í lok 2. umr. Þá var felld brott 3. gr. frv. og röð annarra greina breyttist í samræmi við það þannig að 27. gr. frv. er orðin 26. gr. Við hana flyt ég brtt. sem er afleiðing af breytingum sem gerðar voru á frv., þ.e. að frv. skuli heita: Frumvarp til laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Því miður láðist í breytingartillöguskjalinu við 2. umr. að taka alls staðar inn sambærilega lagfæringu og í 26. gr., sem er reyndar breyting á lögum um stjórn fiskveiða, og er hluti af efni þessa frv. sem þar með er í reynd bandormur að eðli eða uppbyggingu því það setur hvort tveggja, þessa löggjöf um umgengni um nytjastofna sjávar en breytir í leiðinni ýmsum ákvæðum um stjórn fiskveiða sem þurfa að breytast til samræmis við þær reglur sem ætlunin er að lögfesta.

Eins og fram kom í umræðum við 2. umr. málsins var lögð til og síðan samþykkt sú breyting á heiti frv. að tala um nytjastofna sjávar alls staðar þar sem áður var talað um auðlindir sjávar. Það heiti þótti of víðtækt og þess vegna þarf að gera þessa lagfæringu á 26. gr. þar sem vísað er úr lögunum um stjórn fiskveiða yfir í lög um umgengni við nytjastofna sjávar að þar sé rétt heiti fært inn. Um það fjallar þessi litla brtt. á þskj. 1002 sem ég hef leyft mér að flytja og hlýtur að flokkast undir sjálfsagða lagfæringu á málinu í ljósi afgreiðslunnar við 2. umr.