Umgengni um nytjastofna sjávar

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 14:01:08 (6258)

1996-05-18 14:01:08# 120. lþ. 141.3 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, Frsm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[14:01]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það sem hér er rætt undir fyrirsögninni hugmyndir hv. þm. Péturs Blöndals og flutt um brtt. af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni er nú reyndar gamalkunnug hugsun. Ég tel hæpið að eigna hv. þm., alls góðs maklegur sem hann er, einhvern höfundarrétt að þessum hlutum þar sem það liggur fyrir og er skjalfest að þetta hefur verið iðulega rætt á Alþingi og víðar í þjóðfélaginu sem og hefur þetta verið efni tillöguflutnings á Alþingi á undanförnum árum þannig að menn hefðu gert rétt í því að kynna sér aðeins fyrri hugmyndir um útfærslu ákvæða af þessu tagi og sögulegt samhengi málsins. Ég ætla ekki að blanda mér neitt í spurningu um það hvort sé við hæfi eða rétt að taka þetta til efnislegrar afgreiðslu hér og nú eða ekki. Út af fyrir sig á Alþingi ætíð að vera óbundið af öðru en eigin sannfæringu fyrir málum og skiptir þá í sjálfu sér engu hvort málin eiga lengri eða skemmri aðdraganda sem slíkan. Hitt er annað mál að hér er á ferðinni viðfangsefni sem er þannig í eðli sínu að það kallar á talsverða tæknivinnu og talsverða útfærslu til þess að framkvæmdin geti farið vel. Ég vil því láta það álit mitt í ljós, herra forseti, að eins og þessi tillaga er úr garði gerð mun ég ekki treysta mér til að greiða henni atkvæði, einfaldlega vegna þess að ég hef haft nokkuð aðrar hugmyndir um það hvernig þessi ákvæði skyldu útfærð og þá fyrst og fremst þannig að ég held að það samrýmist ekki að öðru leyti mjög stífum takmörkunum sem beitt er varðandi sókn í fiskstofnana að meðaflamöguleikar, jafnskynsamlegt og ég tel að það væri að hafa þá fyrir hendi, séu ekki um leið takmarkaðir og afmarkaðir með tilteknum hætti. Í mínum huga hefur það ætíð verið svo að það hlyti að verða um að ræða ákveðna, skilgreinda og takmarkaða möguleika sem væru í eðlilegu samhengi við umfang þeirra veiða sem hver og einn útgerðarmaður væri að stunda. Það er fyrst og fremst það sem ég mundi ekki treysta mér til að standa að að afgreiða. Í þessari tillögu felst, þ.e. í staflið a, að skipstjóri skuli einfaldlega ákveða við löndun hvað af afla skips skuli telja af kvóta þess o.s.frv. Með öðrum orðum, ég legg þann skilning í þetta ákvæði að þetta væri opin heimild til handa skipstjórnarmanni að velja í hverri einstakri veiðiferð hvað af afla skyldi teljast til kvóta og hvað ekki. Að sjálfsögðu gilda þá þau ákvæði um ráðstöfun þess afla sem lendir utan kvóta sem hér er fjallað um í framhaldi tillögunnar. En þá held ég að ástæða væri til þess að hafa áhyggjur og þá mundu eiga við að mínu mati að einhverju leyti þær röksemdir sem fyrst og fremst hafa verið notaðar gegn þessari hugmynd að hún gæti leitt til vissrar keðjuverkunar sem þýddi óhóflega sókn. Ef þetta væri hins vegar úr garði gert eins og þær hugmyndir sem ég hef varpað fram, þ.e. að um væri að ræða tiltekna, skilgreinda og takmarkaða meðaflamöguleika, t.d. í fyrstu tilraun eða fyrstu umferð, 10% álag á aflahlutdeild viðkomandi skips í þorski, þá væri orðið um takmarkaða og skilgreinda möguleika að ræða. Það væri orðið þak á því hvert magnið gæti mest orðið. Það væri hægt að taka ef mönnum sýndist svo í ljósi reynslunnar tillit til slíks við fiskveiðiráðgjöfina o.s.frv. Ég verð því að segja það, herra forseti, þó að ég hafi lengi verið talsmaður þessarar hugsunar og reynt að koma henni á dagskrá í umræðum um fiskveiðistjórnunarmál undanfarin ár liggur það nú samt þannig að ég mundi ekki treysta mér og mun ekki treysta mér til að greiða þeirri útfærslu hugmyndarinnar atkvæði sem liggur fyrir á brtt. á þskj. 1004. Mér hefði þess vegna að mörgu leyti þótt betra að sú tillaga yrði kölluð til baka þannig að hún þyrfti ekki að koma til atkvæða hér og falla og sjálfum er mér óljúft að greiða atkvæði gegn henni.