Tóbaksvarnir

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 14:25:51 (6260)

1996-05-18 14:25:51# 120. lþ. 141.6 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[14:25]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég kem hingað í ræðustól til að vekja athygli á fjórum atriðum í tengslum við þetta frv. og þær brtt. sem hér hefur verið talað fyrir. Í fyrsta lagi vil ég segja að heilbr.- og trn. hefur unnið mjög vel að þessu máli að mínu mati undir mjög góðri verkstjórn hv. þm. sem hér talaði, Össurar Skarphéðinssonar, og þær breytingar sem hér hefur verið talað fyrir eru að mínum dómi til þess fallnar að gera lögin í senn sanngjörn, skýr og auðveldlega framkvæmanleg. Það á ekki síst við um reglur sem kaupmönnum eru settar varðandi auglýsingar.

Í annan stað langar mig til að vekja athygli á því sem einnig kom fram í framsöguræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að ég tel það vera mjög mikilvæga nýjung sem hér er lagt til að allar opinberar stofnanir skulu gerðar reyklausar fyrir lok ársins 2000. Lagt er til að forstöðumenn opinberra stofnana í samráði við starfsfólk geri áætlun um hvernig útrýma eigi reykingum innan opinberra stofnana fyrir lok ársins 2000. Þó skal í áætlunum þessum heimilt að gera ráð fyrir afdrepi innan hverrar stofnunar þar sem reykingar eru heimilar.

Þá má geta þess að sú breyting er mikilvæg sem hér er lögð til varðandi skatt á tóbak sem á að fara í forvarnastarf. Í frv. var gert ráð fyrir 0,4% en hér er lögð til breyting um að þessi hlutfallstala verði færð upp í 0,7%. Hvert prósentubrot er ávísun á 5 millj. kr. og mér finnst ástæða til þess að fram komi að í nefndinni komu fram tillögur um að þessi upphæð yrði hærri. Við vildum sum hver færa þessa prósentu upp í 1% a.m.k. en ekki reyndist meiri hluti í nefndinni fyrir þeirri tillögu þótt formaður nefndarinnar og sá sem hér stendur vildu gjarnan hafa farið þá leið og reyndar fleiri fulltrúar í nefndinni.

Annað sem ég hefði viljað að væri á annan veg í frv. snertir bann á munntóbaki. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að bann verði lagt við sölu á munntóbaki á Íslandi. Ég hef trú á því að ástæðan fyrir þessu sé sú að einhvern renni í grun að þetta sé ekki að skapi miðstjórnarvaldsins í Evrópu, að Brusselbúar hafi eitthvað út á þetta að setja. Ég þekki ekki þær reglur, skal ég játa, innan EES hversu víðtækt þetta bann við munntóbaki er, hversu algilt það er. Mér er kunnugt um að Svíar fengu einhverja undanþágu í þessu efni. En það kom fram í gögnum sem nefndinni bárust að neysla á munntóbaki hefur stórminnkað á síðustu árum. Hún mun hafa verið um 50 kg að ég held fyrir einum 10 árum en er komin niður í helminginn af þeirri tölu, 25 kg, ef ég man það rétt þannig að þetta er neysluvenja sem er greinilega á útleið. Mér finnst þarna gæta nokkurs ósamræmis í því að leggja sérstakt bann við munntóbaki og hefði talið að það ætti að falla frá þeirri tillögu og reyndar höfum við sett fram breytingartillögu um þetta efni, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Að öðru leyti vil ég lýsa stuðningi við þetta frv. Ég tel hér vera stigin stór og mikilvæg framfaraskref.