Tóbaksvarnir

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 14:32:06 (6261)

1996-05-18 14:32:06# 120. lþ. 141.6 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[14:32]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil satt að segja þakka hv. heilbr.- og trn. fyrir það hvernig hún hefur fjallað um þetta mál. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál og um margra ára skeið hafa satt að segja verið nokkuð deildar meiningar um það hversu langt ætti að ganga í tóbaksvörnum. Við fluttum um þetta frv. í þinginu fyrst fyrir líklega einum 13--14 árum. Það varð að lögum veturinn 1983--1984 og þá starfaði tóbaksvarnanefnd á grundvelli þeirra laga undir forustu Árna Johnsens alþingismanns. Hún stóð sig vel og náði miklum árangri og satt best að segja varð veruleg minnkun á notkun reyktóbaks á fyrstu árum þeirra laga. Það er talað um að tóbaksnotkun hafi farið úr því að vera hjá um 60% landsmanna sem komnir eru til þeirra ára að þeir á annað borð geti fengist við þessa íþrótt niður í um 30%. Veruleikinn er hins vegar sá að á seinni árum hefur tóbaksnotkun ekki minnkað neitt og það er dálítið umhugsunarefni að tilteknum botni virðist hafa verið náð þarna miðað við þær aðferðir í kynningu, fræðslu og áróðri sem við kunnum. Ég held að það þurfi í tengslum við þetta frv. ef það verður að lögum, að fara í þessi mál að nýju og reyna að skoða aðeins betur hvernig hægt er að ná þessu enn þá frekar niður úr 30% sem notkun á reyktóbaki og sígarettum virðist vera nokkurn veginn föst í nú.

Ég vil einnig þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Össuri Skarphéðinssyni fyrir athyglisverða tillögu um munntóbak. Mér sýnist að þar ætli þeir að leggja á það áherslu að ekki sé verið að hefta umdeildan en þjóðlegan sið í landinu. Ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar hvernig hann sæi hins vegar framkvæmd þessa lagaákvæðis ef þetta yrði að lögum, ef þeim tækist ekki þeim félögum að stöðva það sem hér er uppi. Hvað er munntóbak? Er munntóbak það tóbak sem er sérstaklega framleitt til að setja upp í sig? Eða er munntóbak í öðru lagi rjól t.d. sem er framleitt í skömmtum og menn skera niður upp í sig í bútum? Eða í þriðja lagi sem er einnig umhugsunarvert, er munntóbak neftóbak sem menn láta upp í sig? En eins og menn þekkja til sem hafa alist upp til sveita á Íslandi a.m.k. og reyndar víðar í þessu landi, þá er það þannig að menn gerðu engan mun á þessu tvennu, neftóbaki og munntóbaki og úðuðu upp í sig neftóbakinu í stórum stíl, auðvitað við litla hrifningu sumra. En því verður ekki haldið fram hins vegar að sú íþrótt mengi umhverfið eða trufli það á neinn hátt ef menn bara líta undan og horfa ekki á ósköpin á meðan þau ganga yfir. Ég vil því spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson hvernig hann ímyndar sér sem formaður heilbrn. að þetta bann verði framkvæmt. Yrði maður með neftóbak uppi í sér óðara handtekinn og settur í ,,fængsel`` eða hvað? Hvernig sér hv. þm. þetta fyrir sér? Ég ætlast ekki til að hann kunni þetta í einstökum atriðum því að ég lít ekki á hann sem brautryðjanda í þessu máli heldur virðast það vera aðrir. En það væri fróðlegt að vita hvort hann hefur hugsað út í þennan augljósa vanda sem uppi er ef menn reyna að framkvæma þessi furðulegu lagaákvæði.

Ég vænti þess líka og sakna auðvitað margra vina í stað í þessum sal einmitt núna sem hefði kannski verið gaman að ræða við alveg sérstaklega um þetta mál, menn sem hafa ekki alltaf talið það gott sem kemur frá þeim frændum í Brussel en virðast vilja ganga býsna langt í því núna. Ég beini sem sagt þessari fyrirspurn til hv. þm. bæði í gamni og alvöru en í alvöru vil ég þakka nefndinni fyrir skörulega meðferð á þessu máli.