Tóbaksvarnir

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 15:12:17 (6265)

1996-05-18 15:12:17# 120. lþ. 141.6 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, Frsm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[15:12]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir efnislega jákvæðar undirtektir við þær breytingartillögur sem liggja fyrir af hendi nefndarinnar. Ég vil segja það strax að ég lít alls ekki á það sem meinbægni af hans hálfu þótt hann finni hér að málfari. Ég mundi satt að segja telja að eitthvað væri að ef það gerðist ekki því að ég man í fljótu bragði ekki eftir neinum meiri háttar frv. sem hér hafa farið í gegn öðruvísi en hv. þm. hafi gert slíkar athugasemdir og er nú rétt að það komi fram að það eru eiginlega fastir liðir eins og venjulega að hv. þm. hefur gert athugasemd við málfar hvort heldur það kemur frá einstökum þingmönnum, einstökum ráðherrum, jafnvel þótt það hafi verið lesið yfir af viðurkenndum rithöfundum og jafnvel af Íslenskri málstöð líka. Um það get ég borið vitni. Þannig að það er afskaplega erfitt að gera hv. þm. til hæfis en ég tel að menn eins og hann séu virði þyngdar sinnar í gulli því við þurfum auðvitað alltaf Fjölnismenn uppi á hverjum einasta tíma til að reyna að ryðja brott hnökrum í orðalagi og halda okkur hinum við efnið. Að því leyti til á hann virðingu og þökk skilda.

Ég ætla ekki að fara út í einstakar orðalagsathugasemdir hv. þm. En í breytingartillögu okkar sem merkt er tölul. 3 þar sem rætt er um bann sem á að koma til framkvæmda eigi síðar en fyrir lok ársins 2000 telur hann að í staðinn fyrir orðið ,,fyrir`` eigi að koma ,,í``. Ég er t.d. ekki alveg sammála því, herra forseti, þótt ýmislegt megi undir taka sem hv. þm. færði hér fram. Allt er þetta spurning um smekk og hvernig menn vilja að ástkæra ylhýra málið sé fram sett.

Hv. þm. veltir því fyrir sér hvort ekki hefði mátt af hálfu nefndarinnar taka sterkar á möguleikum til þess að hækka verð á tóbaki. Hann vísaði til þess að upphaflega hefði það verið inni í tillögu tóbaksvarnanefndar að hækka árlega verð fyrir tóbak. Það var sett fram á þeim grundvelli að vitað er að verðlag skiptir mjög miklu máli. Hv. þm. gat þess að þetta hefði verið tekið út úr frv. af hæstv. ráðherra fyrst og fremst fyrir þrýsting af hálfu Sjálfstfl. Ég er þeim hnútum ekki svo kunnugur að ég geti alfarið um það vitnað. En ég hygg að það sé rétt hjá hv. þm. að annar stjórnarflokkurinn hafi óskað eftir allverulegum breytingum. Hæstv. ráðherra getur auðvitað greint frá því sjálf hér á eftir.

[15:15]

Ég vil segja það strax að ég er þeirrar skoðunar að það skipti afar miklu máli að hafa möguleika á að hækka verð á tóbaki. Ég held að verðlagið sé það sem langmestu máli skiptir, sérstaklega þegar verið er að reyna að koma í veg fyrir að ungt fólk, börn og unglingar, hefji tóbaksneyslu. Það hefur verið sýnt fram á að verðlagið skiptir þennan hóp mjög miklu máli. Það hefur verið sýnt fram á það líka að ef það tekst að koma í veg fyrir að börn og unglingar byrji að reykja er um leið verið að verjast því að sami aldurshópur nokkrum árum síðan muni hefja neyslu annarra fíkniefna. Þetta skiptir því miklu máli. Ég er sammála hv. þm. um það. Ég er honum algjörlega sammála um að það á að beita verðlagningu til þess að draga úr neyslu þessa varnings. Ég er reiðubúinn t.d. að fara í það verk að flytja með honum tillögur sem gera það að verkum að það væri hægt. Innan nefndarinnar var þetta rætt og það var bent á að upphaflegar tillögur frá tóbaksvarnanefnd hefðu gert ráð fyrir því að árleg hækkun á tóbaksvarningi ætti að vera 5%--10%. Það er mikil hækkun en ég er samt sammála því. Nú stóð ég, sem formaður nefndarinnar, frammi fyrir því að þurfa annaðhvort að afgreiða þetta frv. eins og það lá fyrir með einhverjum breytingum sem hægt væri að gera á því til að bæta það eða láta það daga uppi þriðja eða fjórða árið í röð. Ég tel að það hefði verði hneisa ef Alþingi hefði ekki tekist að afgreiða þetta frv. og lagði þess vegna ríka áherslu á að hægt væri að afgreiða frv. Það kom alveg skýrt fram í nefndinni að menn töldu að það væri ekki á þessu stigi rétt að nefndin sem slík flytti frv. til breytinga á öðrum lögum sem klipptu á tengsl tóbaksins við vísitölu neysluverðs. Í dag er staðan einfaldlega þannig að ef við hækkum verð á tóbaki þá erum við um leið að hækka skuldabyrði allra landsmanna. Það er viðurhlutamikið. Ég er fyrir mitt leyti tilbúinn til að breyta því, þ.e. að skerða hvernig tóbak kemur inn í vísitölu neysluverðs og fara síðan í hækkanir á tóbaki. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að það eigi að beita verðhækkun á tóbaki til að draga úr neyslu tóbaks, jafnvel þótt það verði til þess að skerða kaupmátt launafólks á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar. Það er langtímaaðgerð og þegar fram í sækir miðar hún að því að bæta heilsu þessa sama launafólks. Hún mun þegar fram líða stundir leiða til þess að þetta sama fólk mun búa að öðruvísi lífsgæðum, betri heilsu og þar af leiðandi hafa meira umleikis af peningum. Ég er reiðubúinn til að gera þetta með hv. þm.

Ég komst hins vegar að þeirri niðurstöðu innan nefndarinnar eftir svolitlar umræður að það væri enginn hljómgrunnur fyrir því að nefndin gæti náð samstöðu um það mál. Segjum að við hefðum farið þá leið að afgreiða þetta án þeirrar samstöðu sem ríkir um frv. Ég er hræddur um, herra forseti, að það hefði leitt til þess eins að hér í þingsalnum hefðu úfar risið með mönnum út af frv. og hér hefðu skapast deilur og langvinnar umræður sem hefðu e.t.v. í því ati sem því miður einkennir oft lyktir þingsins orðið til þess að frv. um málið allt hefði lent í útideyfu og ekki náð samþykkt hér á þinginu. Þess vegna taldi ég að það væri hyggilegast að fara í megindráttum eftir frv. eins og það kom frá hæstv. ráðherra. Það má vel vera að það sé ekki tekið nægilega fast á þessu í nál. en þá skal ég játa það hreinskilnislega og ærlega fyrir hv. þm. að það stóðu líka miklar deilur um það hvernig orðalagið ætti að vera á þessum tengslum tóbaks og vísitölunnar í nál. og þeir voru jafnvel og fleiri en einn innan nefndarinnar sem lögðust alfarið gegn því að með nokkru móti yrði drepið á þessi tengsl.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að tóbaksvarnir á Íslandi séu að mörgu leyti á villigötum. Ég held að sú mikla áhersla sem kemur t.d. fram í lagasetningu af hálfu þeirra samtaka sem vinna að tóbaksvörnum sé röng. Ég er ekki þeirrar skoðunar að lög af þessu tagi skipti verulega miklu máli. Þau skipta einhverju máli en ekki verulega miklu máli. Það sem skiptir langmestu máli er tvennt. Það er verðlag á tóbaksvarningi annars vegar og hins vegar er það áróður og hann kostar fjármagn. Við reyndum að bregðast við því í nefndinni með því að stórhækka það fjármagn sem fer til forvarnastarfa og þá miða ég við hið upphaflega frv. hæstv. ráðherra og þó var í frv. upphæðin tvöfölduð frá því sem er samkvæmt gildandi lögum. Það er því alveg ljóst að við tókum á þessu máli eins og hægt er. Ég held að í framtíðinni ætti að reyna að leita leiða til að ná með betri hætti til ungs fólks á Íslandi. Við sjáum að um árabil hefur forvarnastarf tekist svo vel að dregið hefur úr reykingum hjá Íslendingum og það hefur verið mjög jákvæð þróun meðal yngra fólks, meðal barna og unglinga. En á allra síðustu árum sjáum við að sú þróun hefur verið að snúast við. Við þurfum að reyna að grafast fyrir um orsakir þessa. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að þessi þróun haldi áfram og reyningar aukist hjá ungu fólk, börnum og unglingum? Þetta skiptir verulega miklu máli ekki síst þegar horft er til þess sem ég hef þegar nefnt að það eru mjög augljós tengsl á milli reykinga hjá börnum og unglingum annars vegar og hins vegar neyslu harðari fíkniefna hjá sömu hópum þegar þeir eru orðnir nokkrum árum eldri.

Með öðrum orðum erum við að tala um að það sé nauðsynlegt að kosta fé til þess að draga úr neyslu harðra fíkniefna á Íslandi. En besta forvörnin felst í rauninni í því að veita fjármagn til þess að höggva að rótum tóbaksneyslunnar vegna þess að tengslin þar á milli eru alveg augljós. Hvað hefur farið úrskeiðis? Ég get ekki svarað því en það stakk mig óneitanlega illa þegar á fund nefndarinnar kom prófessor úr Háskóla Íslands, Þórólfur Þórlindsson, sem hefur um þriggja eða fjögurra ára skeið unnið að rannsóknum á tóbaksneyslu á Íslandi og hann sagði okkur frá niðurstöðum sem voru mjög fróðlegar en tilfinning okkar í nefndinni var sú að þessi ágæti fræðimaður starfaði meira og minna einangraður og einn. Hann greindi okkur frá því að honum hefði ekki einu sinni tekist að verða sér úti um fjármagn til að gefa út þessar merku rannsóknir.

Ég held, herra forseti, og læt það verða mín lokaorð, að það sé nauðsynlegt að hæstv. ráðherra og ýmsar stofnanir sem með einhverjum hætti koma að tóbaksvörnum gefi sér tíma til að leggja saman höfuð sín og kanna hvað hefur farið úrskeiðis og hvort ekki þurfi með einhverjum hætti að beita nýjum ráðum og veita fjármagn e.t.v. til öðruvísi aðgerða heldur en menn hafa staðið fyrir á síðustu árum.