Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 16:02:49 (6274)

1996-05-20 16:02:49# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[16:02]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra þá skýrslu sem hér er til umræðu. Og einnig þeim hv. þm. sem báðu um skýrsluna. 12. des. sl. fór fram hér á Alþingi utandagskrárumræða sem bar svipaða yfirskrift og skýrsla hæstv. forsrh. sem hér er til umræðu, þ.e. fíkniefna- og ofbeldisvandinn. Það má segja að skýrslan staðfesti allt sem fram kom í þeirri umræðu. Þar vitnuðu flestir ræðumenn í skýrslu sem unnin var á vegum lögregluembættisins í Reykjavík. Það er heldur lítið um nýjar upplýsingar í skýrslu hæstv. forsrh. Þar er frekar staðfest að lítið er um rannsóknir á orsökum og afleiðingum stóraukinnar fíkniefnaneyslu og þá sérstaklega hjá unglingum. Það vekur óneitanlega athygli og vekur mann til umhugsunar að það eru ansi margir kaflar eða svör við spurningum sem settar voru fram í skýrslubeiðninni sem byrja á þessa leið:

Því miður er erfitt að gera nákvæma úttekt á heildarstærð fíkniefnamarkaðar á Íslandi. Mjög erfitt er að segja til um magn þeirra fíkniefna sem flutt hafa verið til landsins. Í raun er ekki hægt að áætla hve margir hafa beðið varanlegt heilsutjón af völdum áfengis- og fíkniefnaneyslu sl. tíu ár. Því miður liggja ekki fyrir nægjanlegar rannsóknir á þessum málum til að geta sagt til um heildarkostnað samfélagsins vegna fíkniefnaneyslu. Mjög eru skiptar skoðanir. Ekki liggur fyrir nein áætlun um starfsmannafjölda við ávana- og fíkniefnarannsóknir. Það hafa alltaf heyrst raddir um ... Telja má að þessar tölur ... Ekki liggja fyrir traustar upplýsingar ... Telja verður frekar ólíklegt ... Þannig er hægt að halda áfram út í gegnum skýrsluna. Engar rannsóknir liggja fyrir um þetta atriði ... Þar er átt við það hvort afbrot séu hlutfallslega tíðari í þéttbýli eða dreifbýli og hvort það liggi fyrir einhverjar rannsóknir þar um. Síðan er spurning sem er á bls. 21, spurning nr. 6: Hefur verið gerð rannsókna á því hvort aukið atvinnuleysi hér á landi undanfarin ár hafi tengst fjölgun afbrota? Ef svo er, hvaða afbrotum helst? Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á þessum málum? Svarið við því byrjar þannig: Ekki er vitað um að neinar rannsóknir hafi verið gerðar hérlendis sem beinlínis hafi tekið á þessu máli.

Áttunda spurningin er: Hver er tíðni ofbeldisverka hér á landi og samanburður við önnur lönd? Svarið er: Lítið fer fyrir rannsóknum af þessu tagi hér á landi. Því miður byrja flest svörin á þessa leið. Skýrslan er í raun sorgleg staðreynd en sýnir svo ekki verður um villst hversu lítið við vitum um þróun og afleiðingar aukinnar fíkniefnaneyslu í þjóðfélaginu. Þrátt fyrr alla þá umræðu sem fram hefur farið hér á Alþingi og kröfur um aukið fjármagn til að sinna forvarnastarfi og meðferðarúrræðum ýmiss konar og þótt öllum sé fullljóst að neysla fíkniefna hefur stóraukist sýnir hún að stefnumörkun vantar. Forvarnastarf er ekki samræmt undir einni yfirstjórn, störf og sameiginleg stefnumörkun þeirra ráðuneyta sem koma að þessum málaflokki er ekki fyrir hendi. Þetta sýnir okkur að við höfum í mörg ár sofið á verðinum og ekki viljað viðurkenna þær staðreyndir sem hafa blasað við. Þótt fjöldi foreldra um allt land standi ráðþrota frammi fyrir því að barn hefur ánetjast eiturlyfjum hefur í raun sáralítið gerst frá því að málin voru rædd á Alþingi síðast og reyndar þar áður líka.

Umræðan á Alþingi hefur verið málefnaleg og það hafa allir lýst vilja sínum til að taka á vandanum en það hefur sáralítið gerst. Nýjar nefndir hafa verið settar á laggirnar. Þar sitja hinir ýmsu sérfræðingar sem sumir hverjir hafa starfað við forvarnafræðslu eða við meðferð fíkniefnaneytenda. Það vekur athygli að á bls. 18 er sagt frá nýrri nefnd, hæstv. forsrh. gat líka um hana í skýslu sinni, sem hefur verið sett á laggirnar núna en hana skipa fulltrúar dómsmrn., menntmrn., félmrn. og heilbr.- og trmrn. Hlutverk þessarar nefndar er að samræma aðgerðir vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum og jafnframt var ákveðið að stofna nefnd ráðuneyta í ávana- og fíkniefnavörnum. Síðan er farið yfir verkefni nefndarinnar. En á bls. 24 í þessari skýrslu stendur, með leyfi forseta:

,,Eins og áður er getið sætir heildarskipulag í forvarna\-málum nú endurskoðun af nefnd sem ríkisstjórnin ákvað að skipa að tillögu dóms- og kirkjumálaráðherra og starfar á vegum þess ráðuneytis. Bent er á að um áratug og þar til á síðasta ári starfaði á vegum forsætisráðuneysti sérstök samstarfsnefnd ráðuneyta um fíkniefni, en í þeirri nefnd áttu sæti fulltrúar félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Hlutverk nefndarinnar var m.a. að samræma störf ráðuneyta og stofnana að fíkniefnavörnum.``

Hvað skyldi nú hafa komið út úr þessu áratugastarfi og hvar er skýrslan sem þessi nefnd hlýtur að hafa skilað um sitt starf? Munurinn á verkefni þeirrar nefndar og þeirrar sem getið er um í skýrslunni að hafi verði stofnuð núna á þessu ári virðist vera sá að fjmrn., sem vissulega hlýtur að koma að þessum málum í umræðunni þegar ákveðnar eru fjárveitingar, er tekið út. Það væri líka fróðlegt að vita hvort sú nefnd sem starfaði þarna um áratuga skeið hefur haft samvinnu eða samráð við þá sem málið snertir hvað helst. En það er oft heldur lítið leitað til þeirra sem fást við vandamálið í návígi. Það eru foreldrar og aðstandendur fíkniefnaneytenda sem aftur og aftur hafa vitnað um það í samtölum og fjölmiðlum að þegar leitað er á náðir yfirvalda vegna fíkniefnaneyslu ungs fólks þá reki foreldrar sig á veggi. Verst er ástandið hjá foreldrum ungra fíkniefnaneytenda. Þar eru úrræðin fá og smá. Ljóst er að við þá endurskipulagningu og þær breytingar sem gerðar voru á málaflokki barna og unglinga þegar ákveðið var að leggja niður nokkrar stofnanir sem áður sinntu meðferðarmálum og ráðgjöf vegna ungs fólks hefur ástandið ekki batnað, e.t.v. vegna þess að þær stofnanir sem ákveðið var að setja á fót hafa enn ekki tekið að fullu til starfa.

Yfirlýst markmið þeirra breytinga var að laga þjónustuna sem best að eftirspurninni og styrkja stjórnsýslueftirlit og ráðgjöf í barnaverndarmálum. Enn fremur að aðskilja rekstur meðferðarheimila og eftirlit og ná fram betri nýtingu á meðferðarrýmum og auka hagræðingu í rekstrinum yfirleitt. Loka átti móttökudeildinni í Efstasundi 86, meðferðarheimilinu Sólheimum 7, Tindum og unglingaráðgjöfin var lögð niður í ársbyrjun 1995. Þessar deildir á síðan að sameina í meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga sem hefur fengið nafnið Stuðlar. Aðrar deildir yrðu gerðar að sjálfstæðum rekstrareiningum undir eftirliti Barnaverndarstofu. Þessar skipulagsbreytingar eiga að spara okkur u.þ.b. 40--45 millj. kr. á ári. Tindum hefur verið lokað og meðferðarstarfinu var haldið áfram á dagdeild. Upphaflega var jafnvel reiknað með að dagdeildin yrði rekin áfram eftir að nýja stofnunin, Stuðlar, yrði tekin í notkun í sumar. Nú hefur hins vegar verið ákveðið eftir því sem mér er sagt að dagdeildinni verði lokað 1. júlí nk. án þess að séð verði hvað kemur í staðinn. Meðferðarrými á Stuðlum verða tíu auk neyðarvistunar. Þar á einnig að vera viðamikil eftirmeðferð. Það verður ekki séð annað en að þessar breytingar hafi í för með sér enn færri meðferðarrými en verið hefur og auk þess er mjög hæpið að stærð húsnæðisins og staðsetning geti komið að fullu í stað þeirrar meðferðar sem í dag er rekin á dagdeildinni. Eftir því sem ég best veit er ekki enn komin heimild frá hæstv. félmrh. til að ganga frá ráðningu starfsfólks að Stuðlum þannig að lítið er hægt að segja um það hvert umfang starfseminnar verður.

Ég hefði viljað sá í skýrslu hæstv. forsrh. að í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar voru kæmi framsækin og djörf stefnumörkun út frá því sjónarmiði að hér er um að ræða nauðsynlega þjónustu við fjölskyldur og þá vitneskju okkar að sá hópur barna og unglinga sem ánetjast fíkniefnum er því miður orðinn mjög stór. En mörgum spurningum er enn ósvarað þrátt fyrir þessa skýrslu sem opinberar svo illilega að við höfum enga heildarsýn yfir vandamálið og að stefnumörkunin er engin. Ég beini spurningum mínum, virðulegi forseti, e.t.v. fyrst og fremst til hæstv. félmrh. og vil þá gjarnan fá að vita hver er niðurstaða þeirrar endurskoðunar og þeirra breytinga á málefnum barna og unglinga sem staðið hefur yfir undanfarin ár og hvaða breytingar hafa átt sér stað í þjónustu hins opinbera varðandi þá starfsemi sem áður heyrði undir Unglingaheimili ríkisins. Hvaða aðrar breytingar eru fyrirhugaðar og hvenær er áætlað að starfsemi hefjist í meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga á Stuðlum í Grafarvogi? Hve mörg vistunarrými verða í þessari nýju byggingu? Hve mörg vistunarrými leggjast niður á öðrum heimilum? Hversu mörg verða stöðugildin á meðferðarstöðinni? Er það mat hæstv. ráðherra að Stuðlar komi að fullu í stað Tinda og þeirra stofnana sem voru lagðar af? Hve mörg pláss verða þá í heildina fyrir börn og unglinga sem hafa ánetjast vímuefnum? Jafnframt væri fróðlegt að fá að vita það hjá hæstv. ráðherra hvort ráðgert er að starfrækja dagdeildarþjónustu fyrir unglinga í vímuefnavanda. Hvar verður þá sú starfsemi og hvað verður um það fé sem sparaðist við þessa breytingu, þessar 40--45 millj. kr.? Mun það verða notað í þágu barna og unglinga og þá með hvaða hætti?

[16:15]

Það er, svo ekki sé meira sagt, löngu tímabært að tekið sé á þessum málum í heild sinni og samræmd verði starfsemi allra þeirra ráðuneyta sem koma að þeim. Það er löngu tímabært að við beitum sérstökum úrræðum varðandi refsingu ungra fíkniefnaneytenda sem leiðst hafa út á braut afbrota. Það er vitað að þeir sem eru í harðri neyslu lenda flestir í því að brjóta af sér þó að í skýrslunni séu ekki tekin af öll tvímæli um það. Þar segir á bls. 11 við spurningunni sem beint var til hæstv. ráðherra í skýrslunni: ,,Eru fíkniefnaneytendur líklegri en aðrir til að frema afbrot? Ef svo er, hvaða afbrot helst?`` Í svarinu segir, með leyfi forseta: ,,Með neyslu sinni á fíkniefnum brjóta menn lög landsins. Hvort fíkniefnaneytendur séu líklegri en almennir borgarar til að brjóta aðrar reglur samfélagsins er erfitt að svara. Það er ljóst að mikið fjármagn þarf til að neyta fíkniefna. Sumir sem neyta þessara efna hafa ekki launaða vinnu og má því spyrja hvernig hægt sé að vera í neyslu dýrra efna og hafa ekki neina launaða vinnu. Af þeim ástæðum hefur verið bent á að neytendur fíkniefna neyðast til að fremja afbrot til að fullnægja fíkn sinni.`` Síðar segir í þessu sama svari: ,,Ef tekið er mið af þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið virðist sem neysla fíkniefna sé hvati að frekari brotastarfsemi. Rétt er að geta þess að aukning hefur einnig verið á framboði fíkniefna sem oft tengjast ofbeldisverkum. Er hér einkum átt við amfetamín.`` Það eru ekki tekin af öll tvímæli þess efnis að aukin neysla fíkniefna leiði til aukinna afbrota en þó segir á bls. 25 og það kemur fyrir að maður rekst á mótsagnir í þessari skýrslu þar sem spurningarnar eru, með leyfi forseta: ,,Hvernig hefur ofbeldi breyst á undanförnum árum með tilliti til alvarleika og þess hvar því er beitt?`` Og: ,,Hvaða aðferðum er algengast að beitt sé við ofbeldisverk og hverjar eru helstu orsakir ofbeldis?``

Hér byrjar auðvitað svarið á því að það liggi fáar rannsóknir til grundvallar því sem á eftir kemur. En það er samt sem áður bent á að önnur fíkniefni en áfengi eru ekki eingöngu ofbeldishvetjandi heldur verða neytendur oft haldnir ofsóknarbrjálæði. Það segir okkur það og bendir okkur á að það eykur verulega líkurnar á því að afbrot aukist frá því sem áður var hjá þeim sem neyta fíkniefna. En unglingar sem hafa leiðst inn á þessa braut afbrota eiga margir hverjir ekkert erindi inn í fangelsi landsins þrátt fyrir þær skipulagsbreytingar sem þar er verið að gera. Þeir þurfa í sérstaka meðferð og möguleiki til slíkrar starfsemi er fyrir hendi. Það á ekki einungis að refsa þessum unglingum. Það þarf að aðstoða þá við að byrja lífið að nýju. Ríkið á fasteignir sem gætu hentað til slíkrar starfsemi. Ég nefni t.d. Gunnarsholt í Rangárvallasýslu þar sem aðstaða er til vistunar, til meðferðar, til skólastarfs og til vinnu. En það er einnig vitað og það vita allir sem eitthvað hafa fylgst með þessum málum að neysla fíkniefna hefur veruleg áhrif á fjölskyldulíf og verður jafnvel til þess að splundra fjölskyldum. En um það segir hins vegar í skýrslu hæstv. forsrh. á bls. 17 þegar eftirfarandi spurningu er beint til ráðherrans: ,,Hafa verið gerðar athuganir á áhrifum fíkniefnaneyslu á fjölskyldur fíkniefnaneytenda? Ef svo er, hverjar voru niðurstöður og hvernig á að bregðast við þeim?`` Og þá kemur svarið, með leyfi forseta: ,,Ein rannsókn er í gangi á vegum lögreglustjórans í Reykjavík þar sem þessi mál eru könnuð. Vænta má niðurstaðna úr henni á árinu 1996. Erlendar rannsóknir eru margar og flestar komast að þeirri niðurstöðu að neysla fíkniefna hafi mjög slæm áhrif á allt fjölskyldulíf. Á það jafnt við hvort heldur er neysla hjá foreldrum eða börnum. Oft ríkir mikil upplausn á heimilum þar sem foreldrar eru í neyslu fíkniefna og eru dæmi þessa mjög mörg. Sömu sögu er að segja um áhrif þess á fjölskyldulíf ef börn hefja neyslu fíkniefna. Foreldrar standa ráðþrota frammi fyrir vanda sem þeir þekkja lítið til og eiga oft erfitt með að bregðast við.`` Og síðan kemur það sem maður gæti ætlað að væri svarið við spurningunni um áhrif á fjölskyldulíf eftir að einstaklingurinn hefur hafið neyslu, en þá kemur niðurlag svarsins: ,,Þegar metið er hvað skynsamlegt sé að gera í forvörnum í fíkniefnamálum verður að taka mið af því að fræðslan má ekki vera bundin við börnin og unglingana heldur þarf einnig að miðla fræðslu til foreldra.`` Þarna er verið að spyrja um allt aðra hluti og biðja um svör við því hvernig við viljum bregðast við og aðstoða þær fjölskyldur þar sem fíkniefnaneysla er til staðar á heimilum nú þegar. En vægara getur svarið ekki verið. Staðreyndirnar blasa við og allir sem hafa kynnt sér þessi mál vita hver áhrifin eru á fjölskyldulíf.

En það er heldur ekki úr vegi að spyrja hæstv. heilbrrh., úr því að forvarnastarfið var nú nefnt í þessu svari, um úthlutun úr svokölluðum Forvarnasjóði þar sem munu vera um 29 millj. kr. til úthlutunar. Hefur hæstv. ráðherra haft í huga við þá ákvarðanatöku að samræma þarf alla forvarnastarfsemi svo fari saman góð nýting fjármuna og árangursríkt starf? Nú þegar er búið að úthluta úr þessum sjóði. Ég held að það hafi verið um 50 millj. sem voru áætlaðar á fjárlögum og við þá úthlutun, þegar tekin var ákvörðun um það hér á Alþingi í vetur, fannst mér skorta mikið á að það væri lögð áhersla á að samræma forvarnastarfið og beina fjármagninu þannig að það hefði áhrif til þessara samræmingar. Og ég spyr einnig hvort fjármunum þessa sjóðs hafi eingöngu verið úthlutað til forvarnastarfsemi vegna áfengisneyslu, eins og reyndar segir í lögum um sjóðinn, eða var úthlutað til forvarna vegna aukinnar neyslu annarra vímuefna? Hvar er þá lagaheimildin fyrir þeirri úthlutun ef svo hefur verið? Við getum ekki setið aðgerðalaus eða aðgerðalítil í þessum málum og það gengur ekki að tala um vandann. Hann er einfaldlega af þeirri stærðargráðu að grípa verður til aðgerða strax.

Á hverju ári og jafnvel oftar en einu sinni á ári höfum við ákveðið aukafjárveitingar til ýmissa verkefna sem hafa verið talin bráðaðkallandi eins og dæmin sanna. Ef fjárvöntun er það sem kemur í veg fyrir að á þessum málum verði tekið þá legg ég til að Alþingi verði gerð grein fyrir því um hvaða upphæðir er að ræða á sviði löggæslu, tollgæslu, forvarna, meðferðarstarfsemi og til meðferðarstarfsemi vegna ungra fíkniefnaneytenda sem sitja í fangelsum landsins. Það verði síðan lagt í hendur alþingismanna að taka á þeim málum. Að öðru leyti hlýtur það að vera krafa okkar að hæstv. ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum þess nefndarstarfs sem í gangi er sem og starfi þeirrar nefndar sem hefur starfað undanfarinn áratug eins og ég nefndi hér áður.