Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 17:20:04 (6282)

1996-05-20 17:20:04# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[17:20]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Það er ljóst af þeirri umræðu sem fram hefur farið um þetta mikla vandamál sem fíkniefnaneyslan er að áherslur fara mjög saman hjá þingmönnum sem hafa talað í þessu máli um hvað beri að gera til þess að hægt sé að sporna eins og hægt er við innflutningi, sölu, dreifingu og neyslu fíkniefna. Markmiðið hjá okkur tíu þingmönnum úr þremur flokkum stjórnarandstöðunnar sem lögðu fram þessa skýrslu var einmitt að fá heildaryfirlit um stöðu og þróun þessara mála til þess að geta auðveldað ákvarðanatöku um það hvernig er best að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir þennan vágest. Ég hygg að slík samantekt eins og hér er þar sem bæði er fjallað um fíkniefnavandann sem slíkan og eins sérstakur kafli um ofbeldi eigi eftir að gagnast okkur í umræðunni áfram. Ég get vissulega tekið undir það sem fram kom áðan og reyndar hjá nokkrum þingmönnum að þessi skýrsla sýnir nokkuð vel að rannsóknarþættinum og könnunum ýmiss konar sem nauðsynlegt er að geta framkvæmd er í nokkru ábótavant. Sérstaklega kemur þetta í ljós í kaflanum um þróun ofbeldis og er mjög brýnt að bæta þar úr.

Ég vil líka segja að mér finnst hafa verið til fyrirmyndar í þessari umræðu að þeir ráðherrar sem þessi málaflokkur fellur undir með einum eða öðrum hætti hafa setið undir mestallri þessari umræðu. Það sýnir náttúrlega vel þá samstöðu sem er á Alþingi um að taka á þessum málum.

Ég hefði talið mjög æskilegt ef niðurstaðan af þeirri vinnu sem er í gangi hjá ráðuneytinum hefði getað birst áður en þingi lýkur. Hæstv. forsrh. upplýsti það að niðurstöðu væri að vænta í lok maí. Mér fannst góð sú hugmynd sem hv. 5. þm. Reykn., Rannveig Guðmundsdóttir, var með um að þær nefndir sem þetta mál fellur undir ættu að hittast og fara yfir stöðu þessara mála. Það er ekki nægjanlegt að við ræðum þetta í þingsölum. Ég tek undir að það er nauðsynlegt að ræða þetta í nefndum einnig. Því vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort hann sé reiðubúinn til að beita sér fyrir því þegar þessi skýrsla kemur fram að hún verði sérstaklega kynnt og þá af þeim sem best þekkja til fyrir þeim nefndum sem um þetta mál fjalla þannig að við fáum þá betra yfirlit yfir hvaða aðgerða er að vænta frá ríkisstjórninni heldur en að hlusta á það einungis í fjölmiðlum. Ég vil spyrja sérstaklega um það.

Ég held að ýmislegt af því sem hefur verið gert af hálfu þessarar ríkisstjórnar og reyndar fyrri ríkiststjórnar líka hafi vissulega skilað okkur eitthvað áleiðis í að uppræta þennan vanda, en það er margt ógert. Það sjáum við á þessari svörtu skýrslu. Ég held að það sé mjög mikilvægt sem hæstv. menntmrh. hefur beitt sér fyrir sem er mikil fræðsla í sambandi við vímuefnavarnir. Vímuvarnaskólinn sem er líka á vegum Reykjavíkurborgar er kannski eitt öflugasta tæki sem við höfum til forvarnaaðgerða vegna þess að könnun lögregluyfirvalda sem gerð var sýnir að 90% aðspurðra sem viðriðnir voru fíkniefnaneyslu á einhvern hátt höfðu ekki lokið grunnskólaprófi eða höfðu eingöngu grunnskólamenntun.

Ég vil ítreka í lokin fyrirspurnir mínar til hæstv. ráðherra varðandi tollgæslu og löggæslu. Upplýst er að fíkniefni koma einkum til landsins með skipum. Hvernig telur hann að við séum í stakk búin til að mæta því ef svo er? Það kemur ekki fram í þessari skýrslu. Ég vil einnig ítreka hvort ekki sé eitthvað fyrirhugað af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er ljóst að öryggismálum tollgæslumanna og fíkniefnalögreglu er verulega áfátt þegar tekið er af hörku á þessum vanda. Það þarf að vinna vel að skipulagningu og samræmingu aðgerða einmitt hjá tollgæslunni og fíkniefnalögreglunni. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi þess fólks sem vinnur að því að koma í veg fyrir innflutning og dreifingu á fíkniefnum.

Ég vænti þess að í lok þessarar umræðu fáum við svör frá hæstv. ráðherra varðandi það sem hér hefur verið fram borið og ég þakka fyrir þessa umræðu.