Spilliefnagjald

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 18:08:41 (6292)

1996-05-20 18:08:41# 120. lþ. 142.4 fundur 252. mál: #A spilliefnagjald# frv. 56/1996, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[18:08]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð til þess að fullvissa hv. þm. Hjörleif Guttormsson og þingheim um það að mér finnst þetta ekki vera svo stórt mál og síður en svo að það sé erfitt eða ég hafi af því miklar áhyggjur eins og hv. þm. reyndi þó að draga fram, þ.e. að málið væri afar erfitt í stjórnarsamstarfinu. Ég fullvissa hann um að svo er ekki. Það ríkir alger samstaða um það í meiri hlutanum, um þær breytingartillögur sem hér hafa verið lagðar fram, hvernig þær líta út. Hitt veit hv. þm. auðvitað að ráðherrann er alla jafnan bæði bljúgur og hógvær þannig að hann reynir að fara fram með mál á þann hátt að leita samkomulags um efni sem kann að vera ágreiningur um. En hafi svo verið í þessu tilfelli, þá held ég að um málið sé fullkomin samstaða orðin og sátt.

Oft er það að ráðherra er fengið vald til þess að tilnefna fulltrúa í stjórnir og oftar en ekki fleiri en tvo. Ég minnist t.d. þess að nýlega er landbrh. búinn að tilnefna í stjórn Áburðarverksmiðjunnar sem er hlutafélag þar sem landbrh. fer með öll hlutabréfin. Þar þarf hann að tilnefna fimm menn í stjórn og það er án nokkurra tilnefninga og hann tilnefnir þá alla. Nú man ég auðvitað ekki hvernig sú umræða fór fram í hv. þingi þegar verið var að afgreiða það frv., hvort þar var tilskilið að stjórnin skyldi skipuð með einhverjum ákveðnum hætti og að ráðherra hafi gefið einhverjar yfirlýsingar um það fyrir fram. En ég er þess alveg fullviss að það eru fjölmörg dæmi um það að ráðherrar hafa þurft að taka það á sig að leita að mönnum í stjórnir og nefndir og ráð án þess að þinginu hafi verið gerð ítarleg grein fyrir því fyrir fram.