Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 20:42:13 (6301)

1996-05-20 20:42:13# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[20:42]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það mundi gleðja geð mitt snöggtum meira ef hv. þm. Einar K. Guðfinnsson mundi hlýða á mál mitt. En nú sé ég að hann hefur þegar komið hér inn í salinn.

Herra forseti. Hv. þm. sagði að ef málin væru skoðuð af mikilli sanngirni þá kæmi í ljós að ekki væri hægt að fetta fingur út í þá hraksmánarlegu meðferð sem mér sýnist höfuðborgarsvæðið fá í þeim tillögum sem hv. þm. hefur leyft sér að kynna hér í kvöld.

Herra forseti. Nú veit þingheimur að ég er fullur sanngirni, sér í lagi til þessa hv. þm. En ég get samt sem áður ekki fallist á að framlögin til höfuðborgarsvæðisins séu slík að það sé hægt að koma hingað og hrósa sér af þeim eins og hv. þm. gerði. Ég fæ ekki betur séð, herra forseti, en að sú staðhæfing þingmanns að framlög til þjóðvegagerðar á höfuðborgarsvæðinu séu óvenjuhá, standist alls ekki þá skoðun sem hlýtur að fara fram á þessu máli. Ég veit ekki betur en að sá niðurskurður sem hv. þm. hefur verið að kynna hér valdi því að dregið er úr framlögum til þjóðvegagerðar á höfuðborgarsvæðinu um 36% en aðeins 17% annars staðar á landinu. Ég spyr hv. þm.: Er þetta rétt eða rangt? Er það rétt að verið sé að draga allverulega mikið meira úr framlögum til þjóðvegagerðar á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar? Það er nauðsynlegt að þetta komi fram, herra forseti.