Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 20:46:01 (6303)

1996-05-20 20:46:01# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[20:46]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er svo ærlegur og vel gerður að hann getur ekki komið í þennan stól og farið með fals og svik. Þess vegna mátti finna í máli hans staðfestingu á því sem ég var að segja hér rétt áðan. Það er einfaldlega staðreynd að það er verið að skera niður framlög til þjóðvegagerðar á höfuðborgarsvæðinu og það nemur einhvers staðar á bilinu 33%--36%, þ.e. miklu meiri niðurskurður heldur en annars staðar á landinu. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort það geti stafað af því að aðeins einn af níu nefndarmönnum í samgn. kemur úr Reykjavíkurkjördæmi. Svo kemur hv. þm. og kvartar undan því að ég standi hér í kjördæmapoti vegna þess að ég legg fram þá sanngjörnu tillögu ásamt ýmsum öðrum hv. þm. að stórhækkun á bensíngjaldi renni ekki fortakslaust í hít fjmrn. heldur verði varið til þeirrar réttmætu framkvæmdar sem felst í því að tvöfalda akbrautir í Ártúnsbrekku.

Herra forseti. Ég er viss um að hinn ágæti formaður samgn. gerir sér grein fyrir því að niðurskurðurinn sem felst í þessu bitnar ekki aðeins á Reykvíkingum heldur öllum þeim sem þurfa að sækja til Reykjavíkur. Hann veit auðvitað að vegna þessa niðurskurðar sem hann illu heilli hefur lagt sína blessun yfir treystir Vegagerðin sér ekki til að ljúka framkvæmdum í Ártúnsbrekku í einum áfanga. Það myndast því flöskuháls í brekkunni sem felur í sér slysahættu því þarna fara tugir þúsunda bíla um á hverjum einasta degi.

Herra forseti. Ég held að það sé með engum móti hægt að kalla það kjördæmapot af einum vesælum þingmanni Reykjavíkurkjördæmis þó hann komi hingað og velti því fyrir sér hvort ekki sé rétt að taka þessar 200--300 millj. kr. sem eru aukalega tekjur til ríkissjóðs vegna hækkunar bensíngjalds til að fjármagna þessa framkvæmd. Er ekki hv. þm. Einar K. Guðfinnsson mér sammála um að það væri sanngjarnt að þetta fjármagn sem kemur af hækkun bensíngjalds færi í þessa arðbæru framkvæmd? Þá mundi hann eiga miklu auðveldara með að komast til og frá höfuðstaðnum á tíðum ferðalögum sínum til síns eigin kjördæmis vestast og nyrst á landinu.