Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 20:50:39 (6305)

1996-05-20 20:50:39# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, Frsm. minni hluta GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[20:50]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta samgn. um till. til þál. um breytingu á þingsályktun um vegáætlun fyrir árin 1995--1998. Undir þetta minnihlutaálit rita auk mín hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir og hv. þm. Ragnar Arnalds. Auk þess sat hv. þm. Kristín Halldórsdóttir fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk því áliti sem ég mun nú gera grein fyrir.

Minni hluti nefndarinnar gagnrýnir harðlega þann niðurskurð á fjármagni til vegamála sem gert er ráð fyrir á gildandi vegáætlun fyrir árin 1995--1998. Aðeins ári eftir að samþykkt er vegáætlun til fjögurra ára, 1995--1998, er fjárhagslegum forsendum hennar gjörbreytt. Bæði hefðbundin framlög og framlög til framkvæmdaátaks eru skorin verulega niður með fjárlögum þannig að vegáætlunin er öll úr skorðum.

Áætlunargerð til lengri tíma, samanber vegáætlun sem gildir fjögur ár fram í tímann, er vinnubrögð sem hljóta að teljast skynsamleg. Á þann hátt er unnt að hafa heildaryfirsýn yfir brýnustu verkefni auk þess sem allir hlutaðeigandi aðilar geta lagað sig að þeirri framtíðaráætlun. Hins vegar er grundvallaratriði að slík áætlunargerð standist og sé þannig marktæk. Allar breytingar í niðurskurðarátt á áætlunartímabilinu gera það að verkum að trúverðugleiki áætlunarinnar verður að engu.

Því er ekki eingöngu verið að breyta áætlun yfirstandandi árs heldur er í raun verið að gefa til kynna að vænta megi svipaðra vinnubragða á seinni hluta tímabilsins, á árunum 1997 og 1998. Með öðrum orðum, vegáætlun er ekki lengur marktækt plagg og ljóst að heildarendurskoðunar er þörf.

Minni hlutinn lýsir yfir vonbrigðum með almennan niðurskurð á framlagi til vegamála sem er að meðaltali um 18,2%. Atvinnuleysi er enn mikið um allt land og niðurskurður framkvæmda kemur sér víða mjög illa, ekki síst utan Faxaflóasvæðisins þar sem ekki er um neinar stóriðjuframkvæmdir að ræða, en þar að auki lækka framlög til svokallaðs framkvæmdaátaks um heil 36%. Framkvæmdaátakinu var eins og kunnugt er skipt eftir höfðatölureglunni þannig að loks urðu til fjármunir til brýnna framkvæmda sem skila hámarksarði, m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Niðurskurðurinn mun því seinka verulega að langþráðum markmiðum um vegabætur á suðvesturhorni landsins verði náð. Má þar nefna niðurskurð á löngu tímabæru verkefni í Ártúnsbrekku, en breytt áætlun fyrir það verkefni eykur mjög slysahættu. Einnig verða brýn og hagkvæm verkefni á landsbyggðinni fyrir niðurskurðarhnífnum.

Samanlagt vantar um 800 millj. kr. á þessu ári til að unnt sé að standa við fyrirheit og áform í gildandi vegáætlun. Það eru óþolandi vinnubrögð.

Undirritaðir nefndarmenn gera á hinn bóginn ekki athugasemdir við skiptingu fjármuna til einstakra verkefna enda hafa kjördæmahópar þingmanna fjallað um það mál og náð um það samkomulagi. Í því ljósi munu undirritaðir nefndarmenn greiða þingsályktunartillögu um skiptingu fjármuna á einstök verkefni atkvæði sitt en vísa að öðru leyti allri ábyrgð á hendur þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna sem með afgreiðslu fjárlaga í desember sl. kipptu fjárhagslegum stoðum undan gildandi vegáætlun.

Þannig hljóðaði álit minni hluta samgn., virðulegi forseti. Ég held að hér við upphaf þessarar umræðu verði ekki hjá því komist að fara til viðbótar nokkrum orðum um ræðu hv. framsögumanns, Einars K. Guðfinnssonar og einnig þau tíðindi sem gerst hafa frá því nefndin afgreiddi þetta mál frá sér fyrir einhverjum dögum síðan. Ég hygg að það sé kannski allt að hálfur mánuður. Það er í raun hálfbroslegt að heyra hv. formann nefndarinnar reyna að telja sjálfum sér trú um að allt sé þetta nú býsna gott og blessað þegar á heildina er litið. Hann orðaði það á þann veg að allar helstu forsendur gildandi vegáætlunar stæðust þrátt fyrir að heilar 800 millj. kr. vantar í þessa áætlun. Með öðrum orðum, þær eru léttvægar fundnar þessar 800 millj. kr. sem samkvæmt gildandi þingsályktun átti að ráðstafa á yfirstandandi ári. Það er alveg sama hvernig tölum er velt til og frá og hvort sem fundnir eru einstakir minni háttar liðir sem breytast eitthvað til bóta milli ára, jafnvel frá gildandi vegáætlun. Fram hjá því verður ekki horft að gatið í ár er upp á heilar 800 millj. kr. Það eru tölur sem þarf ekkert að deila um og enginn deilir í raun um. Virðulegur forseti, eftir því var tekið að hæstv. ráðherra kom seint til þessarar umræðu og helst illa við hana. Það er eðlilegt. Honum líður vitaskuld illa undir þessu. Það mátti heyra hér í framsögu hans með þessari þáltill. sem var afskaplega hógvær og allsendis ólík því sem gerist og gengur þegar hæstv. samgrh. á í hlut. Til upprifjunar vil ég með leyfi forseta lesa hér stuttan kafla úr ræðu hæstv. ráðherra frá því hann mælti fyrir þessari tillögu. Þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Ástæðan fyrir því að vegáætlun var skorin niður og sömuleiðis hafnaáætlun og flugmálaáætlun var sú að ríkisstjórnin hafði einsett sér að afgreiða fjárlög svo að halli á þessu ári yrði ekki meiri en 4 milljarðar kr. Þó svo að menn einbeittu sér að því að reyna að ná rekstrargjöldum niður og draga úr eyðslu ríkissjóðs fundu menn ekki ráð til þess umfram það sem í fjárlögum segir og af þeim sökum voru framlög til framkvæmda skorin niður og þar á meðal framlög til vegamála.``

Það er því ljóst að hæstv. ráðherra er tæpast mönnum sinnandi vegna þeirrar meðferðar sem hann hefur orðið fyrir af hálfu hæstv. fjmrh. en það virðist ekki nóg að gert. Ekki eingöngu var hann tekinn á hné hæstv. fjmrh. hér í desember sl. við afgreiðslu fjárlaga heldur liggur það líka fyrir núna á síðustu dögum að hækkun á bensíni eykur tekjur og hefði átt við eðlilegar aðstæður að auka tekjur til vegamála. Hæstv. fjmrh. greip til þess ráðs að lækka hlutfallið í bensíngjaldinu en þrátt fyrir þá lækkun er sýnt að tekjuáætlun sú sem hér er mælt fyrir er ekki raunhæf. Tekjurnar verða með öðrum orðum meiri. Ég hygg að það séu fjármunir í hendi og miklu líklegra að þeir fjármunir muni skila sér og tekjurnar aukast en til að mynda þeir fjármunir sem meiri hluti samgn. telur sér til tekna varðandi herta innheimtu af þungaskattinum upp á 50 millj. kr. sem varið er hér til tiltekinna verkefna en þó með þeim skilyrðum að þeim megi ekki eyða nema peningarnir komi. Ég hlýt því eðlilega að spyrja hæstv. ráðherra og sömuleiðis hv. formann samgn., til þess hefur ekki gefist tóm í nefndinni þar sem þessi tíðindi gerðust ekki fyrr en eftir að málið var þaðan út tekið, hvort þeir séu sammála því ráðslagi hæstv. fjmrh. að fullyrða strax í viðtölum við fjölmiðla að þessar aukatekjur rynnu ekki til vegagerðar eins og lög segja til um því hér er um markaðan tekjustofn að ræða heldur, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það í einhverju sjónvarpsviðtalinu, væri gott að fá þetta í ríkiskassann. Ég undirstrika enn og aftur, virðulegi forseti, að mér er fullkunnugt um að hlutfallið var lækkað á bensíngjaldinu. En eftir sem áður vegna þróunar verðs á bensíni er sýnt og um það þarf ekki að deila að það koma til auknar tekjur.

[21:00]

Ég spyr: Er hæstv. ráðherra sammála því að þessir peningar verði gerðir upptækir af hálfu hæstv. fjmrh. og renni til annarra verkefna en vegamála? Nákvæmlega sömu spurningar hlýt ég að spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formann samgn., og ég tek fram algerlega óháð því í hvaða tilteknu verkefnum þeim yrði ráðstafað. Ég hygg að þrátt fyrir allt mætti ná um það viðunandi samkomulagi í nefndinni og hinum einstöku þingmannahópum. En mikilvægi þess að fjármunirnir renni til þeirra hluta sem tekjustofnarnir segja til er auðvitað óumdeilt að minni hyggju og þess vegna hlýt ég að knýja á um svör við þessari lykilspurningu í málinu.

Ég sagði áðan, virðulegur forseti, og vil árétta það að það var býsna aumlegt fannst mér yfirklórið hjá hv. formanni samgn. þegar hann reyndi að bera því við að þrátt fyrir allt væri hann býsna ánægður ef frá væru talin eins og hann orðaði það sjálfur, síðustu fjögur ár sem vissulega voru mjög framsækin ár í þessu sambandi og menn stigu veigamikil skref í áttina til þess að ráðast í stórverkefni og ljúka þeim. Því hlýt ég að gagnálykta og spyrja: Er þessu átaki þar með lokið? Eru menn að blása af þá sókn sem sannarlega var hafin á síðustu fjórum árum í vegamálum og endurbótum á þeim vettvangi? Ber að líta svo á að nú sé að hefjast ný tíð sem menn eru að marka með þessari breytingu á yfirstandandi ári á gildandi vegáætlun? Jafnframt hljóta spurningar að vakna sem er á engan hátt svarað í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir en minni hluti nefndarinnar kallar mjög ákveðið eftir. Er ekki hægt að álykta sem svo að menn séu í raun ekkert eingöngu að breyta framlagi til vegamála á yfirstandandi ári heldur stefni ýmislegt í það að vegáætlun í tvö ár, þ.e 1997 og 1998 verði sama markinu brennd? Eða er hægt að fá yfirlýsingu hér hjá hæstv. samgrh. í þá veruna að hann hyggist leggja höfuð sitt að veði fyrir því að vegáætlun 1997 og 1998 sem enn þá er ekki hreyft við, standist? Eða megum við eiga von á því, virðulegi forseti, að þurfa að hefja þennan sama leik, þ.e. krukka enn á ný í gildandi vegáætlun eftir að fjárlög fyrir árið 1997 hafa verið afgreidd í desember næstkomandi? Með öðrum orðum, er þessi vegáætlun þá fullkomlega marklaust plagg?

Þetta held ég að sé nauðsynlegt að taka upp. Við í minni hluta samgn. höfðum það á orði að auðvitað væri langheiðarlegast að skoða málin í heild því ég árétta það enn og aftur, virðulegur forseti, að það eru mjög skynsamleg vinnubrögð að reyna að marka stefnu til lengri tíma með þeim hætti sem vegáætlun gerir ráð fyrir. En það er verra en ekki að gera það ef menn ætla síðan um leið og blekið þornar af undirskriftinni að taka slíkar áætlanir upp og gjörbreyta þeim eins og nú hefur verið gert.

Virðulegi forseti. Ég vil hins vegar segja það að minni hluti nefndarinnar telur úr af fyrir sig samstarfið í nefndinni hafa gengið prýðilega og undir sanngjarni forustu formanns hennar. Skiptingin á þeim takmörkuðu fjármunum sem til ráðstöfunar voru gekk býsna vel. Það komu auðvitað þingmannahópar að venju að því máli og minni hluti nefndarinnar gerir í sjálfu sér ekki athugasemdir við þá skiptingu, hvorki milli kjördæma né á einstök verkefni innan kjördæma. Á hinn bóginn verður ekki hjá því komist að undirstrika enn og aftur að niðurskurðurinn er mismunandi eftir flokkum. Hann er langmestur á framkvæmdaátakinu eins og hér hefur fram komið upp á 36% og það þýðir bara eitt sama hvernig menn velta því til og frá að hann verður hvað harðastur hér á þessu svæði sem gerir það að verkum eins og hér hefur verið bent á fyrr í þessari umræðu að stórverkefni sem mikilvægt er einmitt að taka á skömmum tíma og heildstætt verður að brjóta niður í tvær eða fleiri einingar. Það eru vond vinnubrögð, það eru smáskammtalækningar sem ég hygg að flestir hafi bundið vonir við að tilheyrðu liðinni tíð. Þannig var ekki staðið að verki á átaksárunum, síðustu fjórum árum, og ég trúi því ekki að núv. stjórnarflokkar ætli að fara að taka upp gömlu vinnubrögðin. En allar vísbendingar eru auðvitað í þá átt að átakinu í vegamálunum sé lokið og nú hefjist ný tíð í þeim efnum. Þegar góðærið gengur í garð þá fara menn fyrst að skera svo um munar í hinum arðbæru og eftirsóknarverðu framkvæmdum sem vegamálin annars eru.