Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 21:06:09 (6306)

1996-05-20 21:06:09# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[21:06]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara við þeim fyrirspurnum sem fram komu. Það er misskilningur hjá hv. þm. að hér sé gert ráð fyrir því að fella niður það sem kallað hefur verið framkvæmdaátak. Eins og honum er jafnkunnugt og mér var gert ráð fyrir því að flýta heldur framkvæmdum vegna atvinnuástandsins þannig að tekjum fjögurra ára yrði ráðstafað einkum á árunum 1995 og 1996 og lítillega á árinu 1997 en tekjur kæmu síðan inn á árinu 1999. Þannig að það yrðu tekin lán á þessum árum til framkvæmda sem yrðu endurgreidd af þessu sérstaka fé á árinu 1999. Nú veit ég að hv. þm. er þetta jafnkunnugt og mér.

Með þeirri þingsályktun sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir því að ekki komi til þessarar 350 millj. kr. lántöku en í staðinn verði unnið fyrir þá fjármuni á árinu 1999. Að því leyti sem þetta snertir höfuðborgina sérstaklega umfram önnur kjördæmi er auðvitað rétt að hér er um frestun að ræða, ekki niðurskurð heldur frestun eins og upplýst var við fyrri umræðu þessa máls og eins og gengið var frá í hinni sérstöku tekjuöflun sem er á bak við framkvæmdaátakið. En það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þm. að Reykjavík fer verst út úr því að þessi háttur var upp tekinn, Norðurland eystra næstverst. Mig minnir raunar að einn af þeim flutningsmönnum sem eru með hv. þm. á sérstakri breytingartillögu um 200 millj. kr. til Reykjavíkur hafi greitt atkvæði gegn framkvæmdaátakinu á síðasta Alþingi, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, og er auðvitað gott til þess að vita ef heldur hefur birt yfir henni í sambandi við það sem ég er að gera í vegamálum.