Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 21:16:28 (6311)

1996-05-20 21:16:28# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[21:16]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyndi ekki eitt andartak að halda því fram að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafi verið tiltakanlega kátur í ræðustól í framsögu sinni. Ég sagði að hann hefði reynt að vera það og reynt að sýnast harla brattur með tilvísan til samanburðar við fyrri ár. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. um að vissulega má finna samanburðarár sem sýna mun lægri framlög til vegamála en yfirstandandi ár. Ég spurði einfaldlega: Er þessu átaki í vegamálum, sem enginn deilir um, stórhækkuðum framlögum til vegamála sem við höfum séð sl. fjögur ár og vegáætlun, gildandi vegáætlun, lokið? Er að renna upp ný tíð sem á sér frekar samsvörun fyrr á tímum? Það var mín lykilspurning. Hvað varðar síðan tekjustofna og framlög til vegamála og breytingar á bensínverði í því sambandi held ég að enginn deili um þá tengingu sem auðvitað er þrauthugsuð og skynsamleg að mínu áliti að tekjur af bensíni og framlög til vegamála eigi eðlilega að haldast í hendur. Þar er auðvitað rík og klár samsvörun á milli. Þess vegna köllum við þetta markaðan tekjustofn. Hér er því um siðferðilega og pólitíska spurningu að ræða þegar ljóst er að þrátt fyrir lækkun hæstv. fjmrh. á bensíngjaldinu þá munu tekjur af bensíngjaldinu verða hærri en forsendur fjárlaga sögðu fyrir um. Þá er það einfaldlega pólitískt álitamál og pólitísk spurning sem ég varpa fram á þessum tímapunkti hvort hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sé sáttur við það, jafnvel kátur með það, að þeir fjármunir renni til almenns rekstrar í ríkiskerfinu og fari með öðrum orðum í hendur hæstv. fjmrh. en ekki hæstv. samgrh. Hér er því fyrst og fremst um að ræða pólitíska spurningu og siðferðilega spurningu og að því marki lúta mínar spurningar.