Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 21:23:54 (6314)

1996-05-20 21:23:54# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, KHG
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[21:23]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Að þessu sinni er verið að ræða mjög óreglubundna endurskoðun á vegáætlun sem samþykkt var á sl. ári fyrir síðustu alþingiskosningar. Eins og þingheimi er kunnugt er vegáætlun gerð til fjögurra ára senn og er síðan endurskoðuð annað hvort ár. Það er því ekki fyrr en á næsta vetri, veturinn 1996--1997, sem endurskoða á vegáætlunina með reglubundnum hætti og endurákvarða framlög fyrir 1997 og 1998 og bæta svo við framlögum og skiptingum þeirra framlaga á einstök verkefni fyrir árið 1998 og 1999.

Þessi óreglubundna endurskoðun sem nú er eftir einungis eitt ár er tilkomin vegna þess að ríkisstjórnin stendur ekki við áætlun eða ákvörðun þingsins frá sl. vetri, m.a. með því að skera niður sérstaklega á þessu ári, 1996, verulegan hluta af því fé sem menn höfðu annars ætlað til framkvæmda. En eins og fram kemur í þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir og brtt. meiri hluta samgn. á að færa í ríkissjóð á sjöunda hundrað millj. kr. af því fé sem annars hefði verið ráðstafað til vegamála. Tekjur af umferðinni eru árlega nú um 19 þús. millj. kr. og af þeim tekjum rennur einungis u.þ.b. 1/3 til vegamála undir formerkjum svokallaðra markaðra tekjustofna. U.þ.b. 2/3 af öllum tekjum af umferðinni renna beint í ríkissjóð til almennra útgjalda hans. Það er því einungis um 1/3 hluti af sköttum á umferðina sem varið er til þess að halda við samgönguvegakerfi landsins og bæta það jafnt og þétt. Það er að mínu viti afar óskynsamleg leið að draga mjög við sig að koma á góðu samgöngukerfi um allt land. Þess sér stað á margan hátt þar sem komnar eru góðar og greiðar samgöngur á milli staða og svæða í minni kostnaði á mörgum öðrum sviðum sem ríkið sér um rekstur á. Það hygg ég að megi segja að sé almenn samgöngustefna annarra þjóða, t.d. í Evrópu, að leggja mjög mikið upp úr góðum samgöngum. Má þar t.d. vísa til Noregs þar sem varið er árlega miklu hærri fjárhæðum til samgöngubóta jafnvel þótt tekið sé tillit til þess að Norðmenn eru fleiri að tölunni til. Það er vegna þess að menn hafa komið auga á það hversu mjög það dregur úr kostnaði á öðrum sviðum að búa við gott samgöngukerfi. Hér á landi eigum við enn nokkuð langt í land með það að vegakerfið geti talist viðunandi á stórum hluta landsins þótt rétt sé að taka fram að verulega mikið hefur áunnist á síðustu 20 árum eða svo. Ef við horfum á það tímabil og berum saman ástandið nú miðað við það sem var þá fyrir u.þ.b. tveimur áratugum er orðin gríðarleg breyting á. Engu að síður er mjög mikið eftir og má telja í mörgum milljörðum króna þær framkvæmdir, stofnframkvæmdir, sem á eftir að ráðast í til þess að við getum sagt að komið sé viðunandi ástand á þjóðvegum landsins og helstu tengivegum. Það er því mjög óskynsamlegt að draga úr því knappa fé sem við höfum ætlað okkur til uppbyggingar á þessu vegakerfi með þeirri leið sem ríkisstjórnin hefur gripið til nú að skerða þann litla hluta sem við höfum og taka af honum fé í ríkissjóð eins og lagt er til í þessari þáltill. Miklu fremur eiga menn að standa við þau framlög sem ætluð eru til samgöngumála með mörkuðum tekjustofnum og glíma við vanda ríkissjóðs með því að taka á honum sjálfum í stað þess að draga inn í þann vanda tekjur sem ætlaðar eru til annarra mála eins og markaða tekjustofna til vegamála. Líka má nefna til markaðar tekjur til flugmála og fleiri dæmi eru um sjálfstæðar tekjur til afmarkaðra verkefna sem menn hafa lagt til hliðar og ætlað sér að byggja upp viðkomandi mannvirki á einhverjum tilteknum tíma sem þingið hefur sett sér.

[21:30]

Ég tel það almennt skynsamlega stefnu sem menn eiga að standa við. Menn eiga að standa við það en vandi ríkissjóðs er hins vegar annað verkefni sem menn eiga að glíma við þar en ekki með því að taka inn í ríkissjóð þær tekjur sem við höfum þannig eins og ég hef rakið ætlað til annarra verkefna. Með því móti erum við einfaldlega að flytja vandann á milli verkefna en vinnum ekkert á því í reynd. Ég legg því mikla áherslu á að menn haldi þessum málum aðskildum því við erum einfaldlega að skapa nýjan vanda á öðrum stað eins og ég rakti.

Ég vil svo segja um þær tillögur sem meiri hlutinn hefur lagt fram um hvernig eigi að útdeila þessum niðurskurði að auðvitað er ekki óeðlilegt að horft sé til þess að láta þennan niðurskurð koma niður að mestu leyti á svonefndu framkvæmdaátaki, ekki þegar við horfum til aðdraganda málsins. Við skulum minnast umræðna sem hér voru í haust um framkvæmdir á öðrum sviðum. Þar á ég við framkvæmdir í stóriðjumálum, álver á suðvesturhorni landsins. Þá voru býsna margir þingmenn á þeirri skoðun og héldu henni fram m.a. í þessum ræðustól að á móti miklum framkvæmdum og því sem þeim fylgdi á höfuðborgarsvæðinu ættu menn til þess að gæta samræmis og jafnræðis við aðra hluta landsins að draga úr öðrum framkvæmdum ríkisins hér á þessu svæði en hlífa þeim fremur annars staðar eins og úti á landi þar sem ekki er um að ræða sambærilega stórar framkvæmdir og hér eru með stækkun álversins í Straumsvík. Þannig að miðað við þennan málflutning sem átti sér talsmenn í flestum flokkum ef ekki öllum, þá er eðlilegt að draga meira úr þessum framkvæmdum hér á þessu svæði en á landsbyggðinni. Í öðru lagi er það líka ekki óeðlilegt að menn láti framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu sæta meiri niðurskurði en annars staðar í ljósi þess hvernig framkvæmdaátakið var búið til. Það var búið til á þann hátt að tekinn var hluti af því fé sem annars hefði runnið í framkvæmdir um allt land eftir hefðbundinni skiptingu fjárins milli einstakra kjördæma, og því skipt öðruvísi. Því var skipt ekki eftir þörf og ástandi vega heldur eftir höfðatölu. En það er alveg nýtt hugtak í samgöngumálum að menn dreifi ekki peningunum á verkefni eftir þörf heldur eftir öðrum mælikvörðum eins og höfðatölu. Þessi breyting sem knúin var hér í gegn í andstöðu við alla þáverandi stjórnarandstöðu þýddi að það var verið að skerða hlut landsbyggðakjördæma sérstaklega, alveg sérstaklega til þess að það væri hægt að auka framkvæmdir í fólksfleiri kjördæmunum, Reykv. og Norðurl. e. þannig að það var alveg sérstakur niðurskurður á framkvæmdagetu fjárins annars staðar á landsbyggðinni. (GÁS: Sérstaklega á Vestfjörðum, í göngunum.) Þegar þetta er haft í huga þá er ekki óeðlilegt að þegar þarf að skerða peningana til framkvæmda að einhverju leyti þá skerði menn þetta fyrst. Það er ekki óeðlilegt því þá kemur í heildina jafnari dreifing á niðurskurðinum en annars hefði orðið. Og ég vil nú segja við hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson sem hér er órólegur undir þessum útskýringum, sem út af fyrir sig er ekkert undarlegt af því hann átti þátt í að búa til þessa vitlausu reglu að taka sérstaklega peninga frá strjálbýlli kjördæmunum og flytja í þéttbýliskjördæmin, að við sem vorum þá á móti þessu máli erum enn andvíg þessari leið að dreifa peningum eftir höfðatölu. Við erum andvíg því. (GÁS: Ert þú að tala um göngin hjá þér? Er það ekki?) Þingmaðurinn spyr um jarðgöngin á Vestfjörðum. Þá vil ég segja við þingmanninn að það er dæmi um þá stefnu okkar að það eigi að ráðast í verkefni eftir þörf en ekki eftir höfðatölu. Ef sjónarmið hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar hefðu ráðið á þeim tíma sem jarðgöngin voru ákveðin þá hefði aldrei verið ráðist í það verkefni og það kemur mér svo sem ekki á óvart að ef þau sjónarmið sem hv. þm. Guðmundur Árni talar hér fyrir úr ræðustól og með frammíköllum þá er það alveg greinilegt að hann er á móti því að ráðast í stórframkvæmdir í dreifbýlli kjördæmunum. (Gripið fram í: Hefur ekki verið gaman að grafa göng í kjördæmi hv. þm.?) Það kemur mér kannski ekki svo mikið á óvart en ég tel að hann ætti að tala fyrir þessari stefnu sinni skýrt og greinilega þannig að flokksbræður hans annars staðar en hér á höfuðborgarsvæðinu megi vita alveg hvar þeir hafa flokkinn sem hann talar fyrir í þessum málaflokki.

Ég vil nú segja um þennan niðurskurð sem ég auðvitað gagnrýni að skuli verða ráðist í eins og ég rakti í upphafi, að ég tel ekki óeðlilegt að menn láti hann koma meira niður á framkvæmdaátakinu en öðrum þáttum framkvæmdanna eins og hér er lagt til. Það er í fullu samræmi við þann málflutning sem við alþýðubandalagsmenn höfum haft uppi í samgöngumálum og í þeim málflutningi sem við höfðum uppi þegar rætt var hér í þingsölum um stækkun álversins í Straumsvík þannig að ég vænti þess að engum komi á óvart þessi afstaða né heldur að mönnum þyki nokkuð hafa verið sveigt af leið frá fyrri málflutningi. Þvert á móti, þetta er í fullu samræmi við okkar fyrri áherslur.

Ég vil svo, virðulegi forseti, víkja örlítið að framkvæmdum í Vestfjarðakjördæmi og vil þar fyrst leggja áherslu á að þingmenn kjördæmisins urðu sammála í öllum meginatriðum um hvernig ætti að dreifa niðurskurðinum á einstakar framkvæmdir í kjördæminu. Það ber auðvitað ekki að skilja sem svo að þingmenn hafi verið sammála því að ætla að skera niður --- það var einfaldlega ákvörðun sem við stóðum frammi fyrir. Hún hafði verið tekin --- heldur urðum við í meginatriðum sammála um hvernig við létum niðurskurðinn koma niður á einstökum framkvæmdum. Við urðum einnig sammála um að ráðast í framkvæmdir við þverun Gilsfjarðar að höfðu samráði við þingmenn í Vesturl. sem einnig komu að þessu máli. Við ákváðum að láta það verkefni hafa forgang yfir önnur verkefni í fjórðungnum þannig að við vörðum það verkefni fyrir niðurskurði. (ÖS: Það var bara af því að það var svo góður umhvrh.) Við vörðum það verkefni fyrir niðurskurði. Ég er nú ekki viss um það, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að það hafi verið vegna þess að það hafi verið sérstaklega góður umhvrh. En við kvörtum ekkert undan þeim umhvrh. sem var í síðustu ríkisstjórn varðandi þetta verkefni. Við vitum að hann bar góðan hug til verkefnisins og hjálpaði okkur við það að reyna að koma því áfram og er síður svo að við löstum hans þátt í því máli.

Ein ástæðan fyrir því að við ákváðum að taka þetta dýra verkefni fram yfir önnur er auðvitað sú --- og það er kannski sá þáttur sem vegur hvað þyngst þegar við erum að reyna að raða framkvæmdum innbyrðis í kjördæminu þar sem þær eru margar fjárfrekar en ekki mikið fé til skiptanna --- að íbúum sveitarfélagsins sem þessi framkvæmd á fyrst að gagnast og síðar auðvitað öðrum sem búa lengra frá, var í reynd lofað við sameiningu sveitarfélaga í Austur-Barðastrandasýslu árið 1987 að ráðist yrði strax í að búa brúa Gilsfjörð. Ég hygg, þó ég segi lofað, að orðalag yfirlýsingar þáv. ráðherra, en þá sat ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl., hafi verið á þá lund að það var ekki hægt að segja að þeir hefðu beinlínis lofað því. En íbúarnir skildu orð þeirra þannig og þau bréf sem lögð voru fram að þeir töldu sig hafa loforð fyrir framkvæmdunum og hafa gengið mjög stíft eftir efndum og verið ákaflega sárir í garð stjórnmálamanna fyrir það að þetta loforð sem þeir töldu vera frá þessum tíma skyldi ekki verða efnt. Það var því að okkar mati ekki verjandi að draga málið lengur úr því að það var orðið samstaða um, bæði við þingmenn Vesturl. og eins var áhugi hjá því hjá hæstv. samgrh., að ráðast í þetta verkefni. Við ákváðum því að láta til skarar skríða jafnvel þótt að það þýddi að öðrum framkvæmdum miðaði eitthvað hægar fyrir vikið. Þetta vildi ég leggja áherslu á, virðulegi forseti, þannig að það lægi fyrir a.m.k. af minni hálfu hvernig ég lít á aðdraganda þessa máls.

Að öðru leyti vil ég nefna aðra framkvæmd sem ákveðin var á vegáætlun í fyrra og var þá ákveðið að ráðast í en það er svonefndur Djúpvegur. Ákveðið var að leggja á hilluna öll áform um að þjóna umferð frá norðanverðum Vestfjörðum til Strandasýslu og þar með talið í tengingu við aðalakvegakerfi landsins með bílferju en í staðinn leggja alla áherslu á að byggja upp veginn sem fyrir er og hefur verið til í u.þ.b. 20 ár og reyna að ljúka þeirri framkvæmd á skaplegum tíma. Til að ná þessu fram var gert samkomulag við hæstv. samgrh. um afdrif Djúpbátsins og ætla ég ekki að rekja það mál í einstökum atriðum enda hefur því verið gerð skil á öðrum vettvangi. Í því samkomulagi fylgdi að fé sem annars hefði farið til þess að styrkja bílaferjurekstur og byggja upp bryggjur fyrir hana mundi renna til vegagerðar í svonefndan Djúpveg til viðbótar því fjármagni sem er í vegáætlun, u.þ.b. 320 millj. á þessu áætlunartímabili.

Ég vil láta koma fram þá skoðun mína vegna þess að þetta mál hefur verið nokkuð í deiglunni á undanförnum mánuðum, að ég tel að þær óskir eða þau áform sem uppi hafa verið um að halda úti bílferju í Djúpinu jafnhliða því sem byggður yrði upp vegur vera draumóra sem ekki eigi að styðja við bakið á. Í sem stystu máli þýða þessi áform að það er verið að gera Djúpveginn dýrari sem nemur um 300 millj. kr. því það er sá kostnaður sem verja þarf til þess að byggja viðunandi bryggju og reka ferjuna í u.þ.b. þau tíu ár sem væntanlega mun þá taka að byggja upp veginn. En við mundum spara okkur fé ef við stæðum við það samkomulag sem er í gildi og við mundum þá líka vera mun fljótari að koma Djúpveginum í viðunandi horf og nokkuð gott horf á stærstum hluta þess vegakafla. Það að reka bílferjuna þýðir að mínu mati að menn verða u.þ.b. tíu ár að byggja upp þennan veg í stað þess að gera það á u.þ.b. fimm árum og verkefnið verður um 300 millj. kr. dýrara. Séð frá hagsmunum þeirra sem borga veginn, skattgreiðendanna er óverjandi af hálfu Vestfirðinga að gera kröfu um að vegagerð sé þetta miklu dýrari en hún þarf að vera. Við getum hvorki varið það fyrir almennum skattgreiðendum né heldur fyrir íbúum í öðrum kjördæmum sem bíða með sínar vegaframkvæmdir að við gerum kröfu til þess að vegagerð verði þetta miklu dýrari en nauðsyn krefur. Þannig að ég óttast að verði farið út í það að reka bílaferju í Djúpinu þá muni niðurstaðan einfaldlega verða sú að það verður hætt við að byggja upp Djúpveginn. Í mínum huga er valið bara um annað af tvennu, hvort það eigi að byggja upp veginn eða hvort það eigi ekki að gera það. Ég er í engum vafa um afstöðu mína í því máli. Ég tel það eigi að byggja upp veginn. Það þjónar hagsmunum tveggja þriðju hluta Vestfirðinga, þeirra sem búa á norðanverðum Vestfjörðum og tengir þá örugglega við aðalakvegakerfi landsins þannig að það verða daglega öruggar samgöngur við það akvegakerfi. Við getum ekki boðið neinum landsfjórðungi eða landshluta upp á annað en öruggar samgöngur við aðalakvegakerfi landsins. Hraðinn í flutningum er orðinn það mikill. Það eru vöruflutningar daglega til og frá þessu svæði og til þess að byggja upp ferðamannaþjónustu þarf að vera fyrir hendi örugg leið til svæðisins og frá svæðinu líka þegar flugið bregst eins og stundum vill verða á þessu svæði. Almenn afstaða mín til málsins er því á þessum nótum. Ég tel að hagsmunum Vestfirðinga sé best borgið með því að leggja alla áherslu á uppbyggingu Djúpvegar og ég tel að það séu hagsmunir þjóðarinnar í heild sem gera þá kröfu líka að festa verði valin eins og ég lagði til.

[21:45]

Ég vil svo í lokin, virðulegi forseti, aðeins árétta og færa rök fyrir því hvers vegna ég segi að valið standi um að ljúka þessum vegi að mestu á fimm árum eða kannski tíu árum með þeirri áhættu sem ég gat um að menn gætu einfaldlega fallið frá framkvæmdinni. Í vegáætluninni eru nú um 300 millj. kr. til þessara framkvæmda sem eru að mestu á þessu ári og tveimur næstu. Til viðbótar eiga síðan að renna í þessar framkvæmdir það fé sem annars fer í að styrkja rekstur Djúpbátsins og koma upp ferjubryggjum sem eru í dag um 75 millj. kr. Velji menn þá leiðina að taka strikið á uppbyggingu vegarins eiga menn að hafa u.þ.b. 375 millj. kr. til framkvæmda á þessu ári og næstu tveimur. Ef við gefum okkur síðan það að við næstu endurskoðun á vegáætlun þegar bætt er við tveimur árum verði á þeim tveimur árum varið svipaðri fjárhæð hvort ár um sig til framkvæmdanna og er á árunum næstu tveimur 1997 og 1998, má ætla að við séum með 600 millj. kr. til framkvæmda á þessum vegi sem talið er að kosti milli 800 og 1.000 millj. kr. Með því að geyma dýrasta kaflann sem er tiltölulega stuttur í km talið og taka hann kannski á 2--3 árum þar á eftir erum við í lok ársins 2000 búnir með um 80--85% af Djúpveginum. Það er gríðarlega mikil framför. Það er nákvæmlega það sem þarf á þessu svæði. Menn þurfa að hafa vissu fyrir því að það verði mjög hraðar úrbætur í vegamálum. Það sem fer verst í fólk á þessu svæði, norðanverðum Vestfjörðum, er öryggisleysið. Menn telja sig ekki geta treyst því að staðið verði við það að gera veginn sómasamlegan á næstu árum. Það ríður því mikið á því að þingmenn kjördæmisins og ráðherra standi við þá stefnumörkun sem menn tóku í fyrra.

Með þessum orðum, virðulegi forseti, vil ég ljúka ræðu minni. Ég vænti þess að þingmenn kjördæmisins og hæstv. ráðherra standi við þá stefnu sem var mörkuð í þessu máli á síðasta ári.