Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 21:52:26 (6316)

1996-05-20 21:52:26# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[21:52]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Frammíkall hv. þm. áðan um jarðgöngin bentu til þess að hann væri að nefna þá framkvæmd sem dæmi um framkvæmd sem honum þætti kannski ekki vera á réttum tíma eða réttum stað. Það var mín ályktun og ég fagna því ef það hefur verið röng ályktun, en ég skildi andsvar þingmannsins þannig að hann styddi þá framkvæmd. Ég vil minna hann á, eins og hann kom inn á að nokkru leyti í sínu andsvari, að skipting vegafjár hefur ekki farið eftir höfðatölu heldur eftir mati á þremur þáttum sem er ástand vega, kostnaður framkvæmda og arðsemi. Það er því ekki bara arðsemin ein sem hefur ráðið skiptingunni. Því er það breyting frá ríkjandi ástandi þegar á tímabili síðustu ríkisstjórnar er ákveðið að taka stóran hluta af framkvæmdafénu og skipta því öðruvísi, skipta því einvörðungu eftir höfðatölu þannig að menn taka alveg út fyrir sviga þörfina og kostnaðinn. Það er bara höfðatalan sem er notuð sem skiptiregla. Það er fullkomlega óeðlileg aðferð og ætti að vera jafnaðarmönnum alveg sérstaklega ógeðfelld. Eins og kunnugt er hafa þeir það að stefnu að það eigi að skipta eftir þörf en ekki eftir hæð eða fjölda. Ég vænti þess að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson geti verið sammála mér í því að þetta er alveg sérstaklega óviðfelldin skipting á peningum.