Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 22:50:09 (6319)

1996-05-20 22:50:09# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[22:50]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins víkja að hugleiðingum hv. 4. þm. Austurl. um öryggismál á vegum úti sem ég held að hafi verið alveg hárréttar. Hann vakti athygli á því sem ljóst er að þungaflutningar um vegina hafa verið að aukast með tilheyrandi breytingum og tilheyrandi röskun sem hefur m.a. haft það í för með sér að hætta úti á þjóðvegunum hefur farið vaxandi og það hefur líka haft áhrif á slitið á vegunum.

Ég vil aðeins í þessu sambandi vekja athygli á því að í meðferð samgn. á vegáætlun var tekin ákvörðun um það að hækka liðinn ,,öryggisaðgerðir`` vegna þess að ljóst er að tekjur af þungaskatti munu aukast og þó að dregið sé frá það bensíngjald sem mun lækka vegna þess að hætt er við sölu á 98 oktana bensíni, þá er það engu að síður svo að nettótekjuaukning Vegasjóðs af þessum tilfæringum er milli 30 og 40 millj. Það gaf tilefni til þess að hækka liðinn ,,öryggisaðgerðir`` í vegáætlun um 50% eða þar um bil. Þar er að því leyti komið til móts við það sjónarmið að núna þurfi að gera eitthvað vegna breyttra aðstæðna og vegna vaxandi umferðar og þessarar hættu sem hefur verið að blasa við m.a. vegna einbreiðra brúa. Það er gert ráð fyrir því við afgreiðslu vegáætlunar að þessi fjárveiting verði síðan kynnt samgn. þannig að það liggi fyrir hvernig henni verður ráðstafað. En af nógu er að taka, ekki bara einbreiðum brúm heldur mörgum öðrum hættumerkjum sem eru úti á þjóðvegunum sem nauðsynlegt er að ráða bót á.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram, virðulegi forseti.