Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 22:53:51 (6321)

1996-05-20 22:53:51# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, GE
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[22:53]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Eins og við fyrri umræðu um vegamál, þá lýsi ég enn yfir því að hann er illásættanlegur sá samdráttur fjármuna til vegamála sem er um það bil 850 millj. kr. frá því sem áður var áætlað. Það er ekki hægt að leyna því að stjórnarliðar reyna að dylja eða hylja aðgerðir sínar með því að vitna aftur í tímann hvað varðar fjármuni til vegamála. Það er auðvitað verið að klóra yfir verkin, en það gera kettirnir líka.

Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hefur komið fram á niðurskurð framkvæmda á Reykjavíkursvæðinu þar sem um er að ræða, eftir því hvernig það er reiknað, allt að 35% niðurskurð frá því sem áætlað var og síðan 17--19% samdráttur í öðrum kjördæmum landsins. Það er auðvitað hægt að teygja og toga þessar prósentutölur til með því að vitna í höfðatölureglur eða með einhverjum öðrum aðferðum.

Ég vil geta þess hér að af minni hálfu er engin ósátt um hvernig skiptingu vegafjár er háttað í Vesturl. En ég harma það auðvitað að það sem áætlað var á tímabilinu 1995--1998 til framkvæmda er a.m.k. á þessu ári um það bil 17% minna en gert var ráð fyrir. Ég hefði viljað gera mér vonir um að þær auknu tekjur sem núna verða til vegna eldsneytisgjalda gætu skilað sér í framkvæmdir sem eru að mínu mati nauðsynlegar frá öryggissjónarmiði og það er nauðsynlegt að flýta þeim svo sem kostur er.

Ég vil þá ræða það sem hv. 4. þm. Austurl. nefndi um einbreiðar brýr á fjölförnum leiðum, t.d. á Norðurl. v. og Vesturl. svo eitthvað sé nefnt til viðbótar við það sem getið var um áðan. Þar hafa orðið mjög alvarleg óhöpp. Á hringveginum einum eru 139 einbreiðar brýr þar sem um fara frá 100 og upp í 2.000 bifreiðar á dag. Á 23 einbreiðum brúm hafa orðið 108 alvarleg slys sem skráð eru.

Ég vil minna á að við þessa umræðu er flutt tillaga um aukið fjárframlag til framkvæmda í Ártúnsbrekku. Ég lýsi því yfir að ég mun styðja þá tillögu vegna þess að frá öryggissjónarmiði tel ég þá framkvæmd hvað besta.

Ég tel að á næsta ári og jafnvel næstu árum þurfi að verja sérstaklega 200--300 millj. kr. til tvöföldunar hættulegustu einbreiðra brúa á landinu. Því tek ég enn undir gagnrýni hv. 4. þm. Austurl. um þessi efni. Ég get að sjálfsögðu hér og nú tekið undir þá gagnrýni sem kom fram í máli hans hvað varðar þungaflutninga um landið og það að færa flutninga á varningi af sjóleiðinni og á landleiðina. Það skapar auðvitað þörf fyrir það að bæta vegakerfið okkar verulega.

Ég vil hér og nú fagna því að áætlað er að breikka brúna yfir Botnsá í Hvalfirði og breyta legu hennar. Það hafa orðið fjölmörg og alvarleg slys sem vonandi heyra með því sögunni til.

Ég vil beina þessari hugmynd um breikkun einbreiðra brúa sérstaklega til hæstv. samgrh. sem ég vona að heyri til mín eða þá fái skilaboð frá hv. formann samgn. um þetta sem ég gat um áðan, þ.e. að gera ráð fyrir auknu fjármagni til þessara verkefna frá því sem nú er um rætt í öryggissjónarmiði, þ.e. sérstakar 35 millj. sem um er talað. Ég er að tala um að það þurfi að gera sérstakt átak til að fækka slysum og auka öryggi. Það þarf að setja 200--300 millj. kr. í þetta verkefni á næsta og þarnæsta ári a.m.k. til að sníða af stærstu agnúana. Ég er sannfærður um að þessar aðgerðir eru líklega þær hagkvæmustu í samgöngumálum hvað varðar vegagerð.

Það er rétt að minna á að það sem e.t.v. bjargar vinnuframkvæmdum, þ.e. verktökum, er sú gífurlega og stóra framkvæmd sem nú er hafin við veggöng undir Hvalfjörð sem reyndar er á vegum Spalar hf. Sú framkvæmd er fjármögnuð að stórum hluta af erlendum aðilum sem hafa séð þessa framkvæmd sem verulega arðbæra aðgerð. Þessi umrædda framkvæmd er sennilega það sem bjargar stórverktökum í landinu frá verkefnaskorti. Ég held að það sé sérstök ástæða til að geta þess að verkefnið Hvalfjarðargöng er unnið samkvæmt ströngustu gæðakröfum og bestu stöðlum sem þekkjast.

[23:00]

Mig langar, herra forseti, að nota þetta tækifæri til þess að fara nokkrum orðum um þáltill. sem undirritaður hefur flutt. Ég hef nokkra vissu um að hún verður afgreidd á þessu þingi, en hún fjallar um notkun steinsteypu til vegagerðar. Án þess að farið sé í sérstakan samanburð á slitlagsefnum á vegi hefur sýnt sig með rannsóknum að steinsteypa er verulega umhverfisvænni og hún er sambærileg eða ódýrari við ákveðnar aðstæður en þau efni sem mest hafa verið notuð.

Í þungri borgarumferð, t.d. í lítt loftræstum veggöngum og þar sem umferð er 3--5 þús. bifreiðar á dag eða meira á steinsteypa rétt á sér frá öryggis-, heilsufars- og hagkvæmnisjónarmiðum. Ég vil, með leyfi forseta, enn vitna til blaðagreinar sem ég vitnaði til við fyrri umræðu. Fyrirsögn greinarinnar hljóðar svo: ,,Ryk fjölgar dauðatilvikum.`` Meginefni þessarar greinar fjallar um þá hættu sem stafar af mengun frá malbiksryki. Hún birtist í norsku blaði, Addressavisen, 25. nóvember 1994 og þar koma fram eftirfarandi efnisatriði:

Asfaltrykið í Þrándheimi er hættulegt heilsu gamalmenna og smábarna að sögn Rannsóknastofnunar norska ríkisins um þjóðarheilbrigði. Í greininni segir: ,,Aldrað og veiklað fólk á að halda sig innan dyra þá daga sem mikið malbiksryk er í lofti.`` Þetta er haft eftir Hans Blystad yfirlækni í Þrándheimi. Rykið veldur alvarlegum erfiðleikum astmasjúklinga og þeirra sem búa við öndunarsjúkdóma. Í þessari grein er einnig vitnað í tölur frá SINTEF Borgteknikk um að a.m.k. 10--11% af malbiki losni úr slitlagi vega Þrándheimi á ári hverju. Það verður að svifryki sem þýðir að um 1.000 tonn af malbiksryki losna á hverju nagladekkjatímabili á þessu svæði í Noregi. Þar er því um að ræða slit sem nemur allt að 10 þúsund tonnum í Þrándheimi. Þetta eru engar smátölur. Að baki þeim liggja vísindalegar rannsóknir svo það fer ekki á milli mála að þær eru réttar. Sérstaklega er t.d. vitnað til þess að í smágöngum sem kölluð eru Væretunellen slitna upp 700 kg af ryki á viku. Lausnin er fyrst og fremst talin sú að leggja niður notkun nagladekkja.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég hef slæma reynslu af öllu því ryki og tjöru sem losnar upp af götum Reykjavíkur. Ég trúi því ekki að menn verði ekki varir við tjöruryksmengun í lofti, t.d. nú á þessum kyrru og heitu vorsólardögum. Ég tel að það þurfi að gera sérstakt átak í þessum efnum, hætta t.d. notkun salts og nagladekkja hér í höfuðborginni. Ég vil minna á að uppfinningamaðurinn Einar S. Einarsson hefur baslað í mörg ár við að finna upp nagla sem valda minna sliti á götum og í gatnakrefi og það virðist núna loksins vera að koma í ljós árangur af hans vinnu. Ég held að það sé ástæða til að beina þeim tilmælum til samgn. og samgrh. að það verði fylgst með og stutt við bakið á þeim aðila enn frekar en verið hefur. Ég held að hann sé í rauninni að nálgast það mark sem við höfum verið að leita eftir, þ.e. að minnka slit á götunum og ryk og mengun í loft.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um minnkað framlag til vegaframkvæmda. En ég held að við verðum að gæta þess að það gerist ekki aftur.

Um framkvæmdir á Vesturlandi vísa ég til þess sem ég sagði áðan um skiptingu framlaga til verkefna, þar er sátt á milli þingmanna. Við beittum okkur sameiginlega fyrir Gilsfjarðarbrú og lausn fékkst í því máli með tilstuðlan hæstv. samgrh. þótt tæpt stæði á tímabili um upphaf og lok framkvæmdanna. Stórverkefnið Búlandshöfði er næsta meginverkefnið á Vesturlandi og ég treysti því að sú framkvæmd verði unnin samvæmt áætlun. Þar er um að ræða einhverja bestu framkvæmd til styrktar byggðarlögunum á utanverðu Snæfellsnesi og atvinnuuppbyggingu. Við Vestlendingar lítum með sanngirni til annarra kjördæma út frá jafnræðisreglu.

Einhver mesta sameining sveitarfélaga átti sér stað á Vesturlandi í upphafi þess ferils þegar sameiningarnar fóru af stað. Íbúar þeirra sveitarfélaga eiga skýlausa kröfu á aðstoð ríkisvaldsins við að koma á samgöngum innan sveitarfélaganna eða koma þeim í viðunandi horf. Ég beini þeim tilmælum til hv. samgn. og hæstv. samgrh. að leggja þessum sveitarfélögum verulegt lið svo þau geti veitt íbúum innan sveitarfélaganna sambærilega aðstöðu og aðgengi að skólum, stjórnsýslubyggingum og öðru sem þeir þurfa að sækja til sveitarfélaganna.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með tilvitnunum í álit frá meiri eða minni hluta samgn. Ég læt þessu lokið, en ég harma að svo mjög hefur verið dregið svo úr fjárframlögum til vegamála. Ég vona að það gerist ekki aftur því þar er um er að ræða einhverja þá bestu og arðbærastu fjárfestingu sem við getum lagt í.