Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 23:12:37 (6325)

1996-05-20 23:12:37# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[23:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er með herkjum að maður hafi sig upp í ræðustólinn til að ræða þessa niðurskurðaráætlun hæstv. samgrh. sem hefur því miður ekkert batnað í meðförum samgn. Til þess hafa væntanlega ekki verið sköpuð nein efni, þ.e. niðurskurðurinn stendur óbreyttur. Þetta er þeim mun hrapallegra sem vonirnar voru glæstari og upp var lagt með metnaðarfyllri vegáætlun, að vísu fyrir kosningar. Þannig háttar til, herra forseti, að hér er verið að skera niður dæmigerða kosningavegáætlun hjá hæstv. ráðherra. Það er auðvitað mjög bagalegt þegar menn ríða um héruð og lofa þjóð sinni gullöld og gleðitíð, t.d. í marsmánuði þegar á að kjósa í byrjun apríl, en svo rennur upp sá kaldi og dimmi veruleiki strax á haustmánuðum eða síðsumars við fjárlagagerðina að þetta voru allt innstæðulaus orð. Það þarf að skera það niður sem lofað var nokkrum mánuðum áður í kosningahitanum um hartnær einn milljarð kr. En þannig eru aðstæðurnar nákvæmlega núna í þessari séráætlun, þessari aukaáætlun hæstv. samgrh. um niðurskurð í vegamálum.

Það er reyndar skemmtilegt að rifja það upp að hæstv. ráðherra fór mikinn þegar hann var að ræða um vegamál á sínum upphafsmánuðum í embætti. Eitt af því sem hann gagnrýndi forvera sinn í starfi fyrir, sem er fyrir tilviljun sá sem hér stendur, var sú ósvinna að hafa afgreitt vegáætlun veturinn 1991 rétt fyrir kosningar, það væri hið mesta siðleysi og ekki við hæfi að binda þannig hendur eftirmanna sinna. Síðan afgreiddi hæstv. samgrh. núverandi sjálfur vegáætlun rétt fyrir kosningar. Það tókst að vísu ekki svo vel til að annar maður tæki við því embætti, en á hinn bóginn svo hrapallega að hæstv. ráðherra tók sig til og samþykkti niðurskurð á sinni eigin áætlun um 800--900 millj. kr. Við þessu var reyndar varað vegna þess að til samgönguframkvæmdanna á síðasta kjörtímabili var að verulegu leyti stofnað með lántökum í gegnum svonefnt framkvæmdaátak og nú er veislunni sem sagt að nokkru leyti lokið. Það er verulega farið að draga af og veisluföngin að mestu þorrin, borðin hroðin og komið að skuldadögunum. Nú hefur hæstv. fjmrh. vinninginn, yfirhúsbóndinn sjálfur, og krefur nú skuldanna. Hæstv. samgrh. er settur í það heldur dapurlega hlutskipti að leggja fram sérstakar millivegáætlanir um niðurskurð í vegamálum.

[23:15]

Það er reyndar einnig, herra forseti, ástæða til að rifja það upp og minna á það að meðferð vegaframkvæmdanna og vegafjárins hefur verið nokkuð sérkennileg og skrautleg í tíð hæstv. núv. ráðherra sem gekk nú úr salnum akkúrat í þessum töluðum orðum og mátti ekki lengur við bindast, eins og segir í einum texta. Þetta hefur í raun verið þannig að hæstv. samgrh. hefur alls ekki farið að vegalögum. Nú vill svo til að óvenju skýr löggjöf ríkir um framkvæmdir í vegamálum, þ.e. vegalögin eins og við köllum þau. Þar er t.d. mjög skýrt kveðið á um það hvernig fjárveitingum skuli skipt og framkvæmdir ákveðnar í vegamálum. Ráðherra skal samkvæmt því sem a.m.k. einu sinni var 10. gr. vegalaga, leggja fram tillögu til þingsályktunar um framkvæmdir í vegamálum til fjögurra ára í senn sem síðan endurskoðast á tveggja ára fresti. Alþingi skiptir síðan vegafé niður á einstakar framkvæmdir og gengur frá þeim í meðhöndlun sinni á áætluninni. Þetta hefur ekki verið virt. Á starfstíma núv. hæstv. ráðherra hefur þetta meira og minna verið hunsað og sú ótrúlega venja upp tekin að ríkisstjórn eða ráðherra skipti vegafé á knjám sér, t.d. strax haustið 1991. Til þess að finna formúlur fyrir þessu var tekið upp nýtt hugtak ,,framkvæmdaáætlun í vegamálum`` og ,,flýting framkvæmda`` og annað því um líkt og það er notað sem afsökun til þess að brjóta vegalög eða framkvæma þau a.m.k. ekki.

Í öðru lagi hefur hæstv. ráðherra t.d. svikist um þá embættisskyldu sína að leggja fyrir langtímastefnumótun í vegamálum. Hæstv. ráðherra hefur nú gegnt embætti í meira en fimm ár og hann hefur aldrei svo mikið sem sýnt í þinginu það plagg sem ber að gera samkvæmt vegalögum, þ.e. langtímaáætlun sem á að liggja fyrir jafnframt vegáætlun til tólf ára í senn og endurskoðast með reglubundnu millibili.

Herra forseti. Af því ég sé að sjálfur aðalforseti er líka að ráðgast við starfandi forseta þá vil ég spyrja hvort að hæstv. samgrh. sé farinn að sofa því ég sá að hann hvarf þreytulegur héðan úr salnum. Ef hæstv. ráðherra hefur tekið á sig náðir þá skal ég gera hlé á ...

(Forseti (GÁS): Ég vænti þess að hæstv. ráðherra sé ekki fjarri og ég mun gera ráðstafanir til að ...)

Ég vona að hann sé ekki sofnaður. Ég held að hæstv. ráðherra verði að leggja það á sig að vaka hérna með okkur eina stund á meðan við ræðum þau málefni sem undir hann heyra. Það er ekki til siðs að ráðherrar leggi sig meðan mál á þeirra málasviði eru til umræðu og afgreiðslu á þinginu.

Ég vil einnig, herra forseti, gera að umtalsefni alveg kostulegan hlut sem er nú að mínu mati bráðfyndinn. Ég veit ekki hvaða húmor aðrir hafa fyrir slíkum hlutum en ég bið menn að líta á breytingartillögur á þskj. 891 og hvernig þungaskattur er orðinn bókfærður þar í þessu merka ríkisbókhaldi sem hér er. En það er þannig að þungaskatturinn er þar orðinn í ekki færri en fimm mismunandi liðum. Það dugar ekki minna en fimm mismunandi flokkar af þungaskatti þegar verið er að tíunda tekjurnar af þessari miklu lind og uppsprettu. Það er þungaskattur, árgjald upp á 685 millj. Það er þungaskattur, km-gjald upp á 1.560 millj. og látum þetta nú vera. Þetta er nú hefðbundin skipting eftir þessum tveimur innheimtuformum eða því hvort menn velja að greiða eftir km-gjaldi eða fastagjaldi. En bíðum nú við, svo kemur í þriðja lagi: Bætt innheimta þungaskatts 100 millj. Það eru alveg sérstakir peningar úr þungaskattinum sem koma af bættri innheimtu þungaskatts í þriðja lagi. Í fjórða lagi: Innheimtuátak í þungaskatti. (Gripið fram í: Er þetta annað?) Það er allt annað, 50 millj. Og í fimmta lagi: Hækkun á þungaskatti 34 millj. Þetta er nú orðið nokkuð sundurliðað og nákvæmt. Nú óska ég eftir því að þetta verði nákvæmlega sundurliðað hér og gefnar skýringar á hverjum einstökum lið. Hver er t.d. munurinn á bættri innheimtu þungaskatts og innheimtuátaki í þungaskatti? Þessi grundvallarmunur sem gerir það að verkum að það er nauðsynlegt að tilgreina tekjurnar sérstaklega undir hvorum lið, 100 millj. í öðru tilvikinu og 50 millj. í hinu. Það var eins gott að það var ekki 51 millj. og 300 þús. eða eitthvað svoleiðis. Þetta er nokkuð skrautlegt, herra forseti.

Hitt sem er athyglisvert við þessar bókhaldsæfingar eru tekjurnar sem fara út og inn úr ríkissjóði í þessu bókhaldi hjá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. samgrh. Ég veit ekki hvaða einkunn hann fengi á prófi í endurskoðunarskóla. Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti: Hvað á þetta að þýða? Í tölul. 1.2. er fært í ríkissjóð 637 millj. en í tölul. 1.3. undirlið 2, er framlag úr ríkissjóði 350 millj. Hvaða rök standa fyrir því að vera með svona æfingar í þessum efnum, að margsundurliða þungaskattinn svona og vera svo með færslur fram og til baka inn og út úr ríkissjóði? Auðvitað er þetta vegna þess að það er búið að grauta þarna saman hlutum þannig að það botnar varla nokkur heilvita maður orðið í því. Þetta er náttúrlega í og með afleiðing af því að ríkissjóður, fjmrh. með frekju sinni, er að seilast til æ stærri hluta af hinum mörkuðu tekjum og þá standa menn í svona hundakúnstum og æfingum til að reyna að fela það og afsaka eða útskýra í staðinn fyrir að hafa þarna hrein skipti milli ríkissjóðs annars vegar og Vegasjóðs hins vegar og alveg afmarkað og skýrt hver hluti skatttekna af umferðinni rennur í Vegasjóð og hver í ríkissjóð en ekki svona fíflalæti ef ég má leyfa mér að orða það svo, herra forseti, með tilliti til þess að klukkan er að verða hálftólf. Ég kann ekki mjög að meta þetta og tel að það sé heldur til vansa hvernig menn eru komnir út í ógöngur í þessum efnum, t.d. þessi skrautlegheit með bókfærslu þungaskattsteknanna.

Að öðru leyti, herra forseti, þá hefur flest verið sagt um þennan niðurskurð sem ég held að segja þurfi í sjálfu sér. Hann liggur fyrir og er auðvitað afar bagalegur upp á 800--900 millj. í vegamálunum og talsvert á annan milljarð kr. þegar niðurskurður til samgönguframkvæmda í heild sinni er tekinn og flugvellir og hafnir eru hafðar þar með. Það sem ég tel einna verst við þetta fyrir utan hin efnislegu áhrif af því að draga úr vegaframkvæmdum sem flestir hafa nú talið að væru með brýnni og þarfari framkvæmdum yfirleitt í þjóðfélaginu, er að þetta skapar leiðindaandrúmsloft og ástand pólitískt séð. Þá á ég við sambúð stjórnvalda og almennings í landinu, fólksins í hinum einstöku kjördæmum og byggðarlögum sem væntir mikils af samgöngubótum og framkvæmdum á þessu sviði. Það er að mínu mati fátt verra og leiðinlegra sem menn gera í þessum efnum en að leggja upp með montáætlanir af því tagi sem greinilega var gert síðast og skera þær svo niður við trog. Af hverju? Það er af því að það skapast væntingar um framkvæmdir og um úrbætur sem menn horfa til og gleðjast yfir að séu nú loksins í sjónmáli og svo er það óðar tekið til baka með niðurskurði af þessu tagi. Það verður með vissum hætti trúnaðarbrestur milli almennings og stjórnvalda og þá á ég ekki við að það bitni á einum frekar en öðrum. Ég held að menn séu í sjálfu sér fljótir að gleyma því hver sat nákvæmlega í ríkisstjórn eða ráðherrastól á hverjum tíma. En almennt talað dregur þetta úr trúnaðartrausti sem ríkir milli stjórnvalda og almennings og sú tilfinning skapast í þjóðfélaginu að það sé ekkert mark takandi á áætlunum af þessu tagi. Það er grafið undan þeim og það er vont vegna þess að skipulögð áætlanagerð um svona framkvæmdir er tvímælalaust mikilvæg og hefur gefist vel þegar menn hafa verið menn til þess að fylgja henni sæmilega eftir. Það eru örg skítverk að standa í niðurskurði af þessu tagi á áður samþykktum áætlunum og ber að reyna að forðast slíkt. Af tvennu illu er þó betra að hafa áætlanirnar sem menn leggja upp með aðeins hógværari en raunsærri þannig að þær standist.

Ég vil svo aðeins nefna hér, herra forseti, þátt sem mér finnst of lítið vera tekinn inn í umræður um þessi mál. Menn eru hér mikið að ræða þetta næstum að segja út frá einstökum vegaspottum og falla í þá gryfju að ræða þetta jafnvel út frá vegamálum á sínum heimaslóðum en horfa fram hjá hinum almennu og stóru grundvallaratriðum í þessum málum sem eru uppbygging samgöngukerfisins í landinu og hvernig okkur er að miða í þeim efnum og hvaða breytingar eru að verða á samgönguháttum sem taka þarf mið af þegar verið er að ræða þessa hluti. Hvað skyldi það nú vera, herra forseti, sem alveg sérstaklega hefur verið að breytast og ástæða er til að gefa gaum þegar við erum að ræða vegamál og áætlanagerð á því sviði og fjárveitingar til vegamála? Það eru m.a. hlutir sem hafa verið að breytast í flutningatækni og samgöngum í landinu í stórfelldum mæli á síðustu árum. Þar á ég t.d. við það að þungaflutningar hafa í stórauknum mæli færst af sjó upp á land þannig að það er orðin gjörbreytt mynd í þeim efnum bara núna á síðustu fimm til tíu árum, gjörbreytt mynd. Það gerist æ algengara að þungaflutningar fari fram með landflutningabílum, jafnvel stórum gámum sem fylltir eru vörum og ekið er milli staða og landshluta í veg fyrir skip sem áður sigldu inn á svo gott sem hverja höfn og tóku þungavörurnar þar. Hluti af þessum breytingum er auðvitað afleiðing pólitískra ákvarðana eins og t.d. að leggja niður Ríkisskip. Það var ákvörðun sem hæstv. samgrh. var a.m.k. í eina tíð ákaflega hreykinn af og hann var gerður að manni ársins hjá Heimdalli eða einhverjum slíkum stórmerkum samtökum fyrir hetjuskapinn fyrir að leggja niður Ríkisskip. Það var svo mikill garpsskapur í því að skera niður opinber umsvif. En það var nú bara ekki þannig að þau mál leystust sisona og það yrðu engar afleiðingar af þessu. Staðreyndin er auðvitað sú að það hefur haft heilmikil áhrif gagnvart vegasamgöngum að leggja niður Ríkisskip sem þjónustuðu hafnirnar hringinn í kringum landið. Það sem eftir er núna eru siglingar skipafélaganna, fyrst og fremst tveggja þeirra, með mjög stopulum viðkomum á öllum nema allra stærstu höfnum landsbyggðarinnar. Í grófum dráttum er það orðið þannig að það er ekki nema ein til tvær hafnir í hverju kjördæmi sem hafa reglulegar viðkomur fraktskipa og þá er vörunni safnað inn á þær hafnir eða jafnvel þær fluttar milli landshluta vegna þess að skipakomurnar eru orðnar svona. Þegar búið er að setja vöru í gám og setja hann upp á bíl þá munar kannski ekki öllu hvort eknir eru með hann 200--300 km til einhverrar safnhafnar á landsbyggðinni eða hvort hann fer alla leið til Reykjavíkur og það er það sem gerist orðið í stórum stíl. Það mætti margt um þetta segja t.d. út frá viðhorfum sem mikið eru skoðuð núna og rædd erlendis um umhverfismál og annað því um líkt þar sem menn ganga jafnvel svo langt að skattleggja mjög harkalega flutninga á bílum til þess að beina þeim yfir á járnbrautir og skip af umhverfisástæðum. Við erum ekki langt komin á veg að ræða slíka hluti hér uppi á Íslandi, því miður. En þó að við lítum ekki til neins annars en þess að þetta hefur haft í för með sér gjörbreytta stöðu hvað varðar álag á vegakerfið og sérstaklega þá hluta þess sem verst eru undir það búnir að taka við þungaflutningum af þessu tagi, þá er þar uppi gjörbreytt mynd sem við verðum að taka mið af í umræðum okkar um vegamál. Ég fullyrði, herra forseti, að það er að skapast nánast neyðarástand á ákveðnum landsvæðum þar sem þungaflutningar hafa lent upp á land á vegakerfi sem ekki er á nokkurn hátt undir það búið að taka við þeim. Það væri gaman fyrir menn að lenda í því t.d. eins og við gerðum, þingmenn Norðurl. e., að vera á ferðinni í rigningartíð á norðausturhorni landsins og mæta sex til tíu stórum þungaflutningabílum í rigningu á malarvegunum í Norður-Þingeyjarsýslu með 30 tonna hleðslu á dráttarvögnunum aftan í. Og í bókstaflegri merkingu að horfa á vegina sprautast svona 50 m á báðar hendur þegar bílarnir aka yfir forarsvaðið. Í hvers konar ástandi halda menn að vegirnir séu til að taka við slíkum flutningum, bráðónýtir malarvegir eða moldarvegir sem eru orðnir lægri en umhverfið í rigningu á haustin? Staðreyndin er sú að það ríkir hreint neyðarástand, svo ekki sé nú rætt t.d. um sex vikurnar á vorin í venjulegu árferði þegar þungatakmarkanir eru á þessum vegum. En hvaða hlutverki eiga þessir vegir að þjóna eftir að Ríkisskip voru lögð niður og ekkert skipafélag hefur lengur reglulega viðkomu að heita má á svæðinu frá Húsavík til Seyðisfjarðar?

[23:30]

Menn eru á svipuðu róli á Raufarhöfn og þeir voru fyrir 50--100 árum hvað skipakomur snertir. Það kemur kannski á mánaðarfresti eða tveggja mánaða fresti skip óreglubundið, tilviljanakennt til þess að taka framleiðsluvörur þegar þær hafa safnast upp. Menn eru komnir í þá stöðu að allir þungaflutningar til og frá svæðinu verða að fara eftir vegunum. Þar á meðal öll framleiðsla frá þessum stöðum. Og það er ekki eins og verið sé að tala um eitthvert smáræði. Nei, þarna eru t.d. framleidd útflutningsverðmæti. Ef við tökum svæðið frá Húsavík til Vopnafjarðar eru þau líklega upp á 4--5 milljarða kr. Hundruð og þúsundir tonna af framleiðsluvörum til útflutnings þurfa að fara eftir þessum vegum ef þær þá komast það. Það er ekki eins og þetta sé mál sem snýr bara að því fólki sem þarna býr. Þetta er spurning um stórkostlega þjóðhagslega hagsmuni. Nákvæmlega sömu sögu má segja t.d. af vegakerfinu á Vestfjörðum. Þar er að verulegu leyti að verða uppi sama staða. Mikilvæg útflutningsframleiðsla þarf að fara eftir landi til þess að komast á markað eftir algjörlega ónýtum vegum. Ég verð að segja þótt mér sé málið að nokkru leyti skylt að ég held að það sé að skapast annars vegar á Vestfjarðakjálkanum og hins vegar á norðausturhorni landsins algjört neyðarástand í þessum efnum sem verði ekki undan vikist að fara að taka á. Þetta eru þau tvö landsvæði sem eru langverst sett hvað það varðar að tengjast með eðlilegum hætti inn á meginþjóðvegakerfi landsins, þann hluta vegakerfisins sem búið er að byggja sæmilega upp t.d. miðað við burðarþol veganna. Ástandið er þannig að þessir vegir eru víðs fjarri því að standast þá evrópsku staðla sem við erum að rembast við að reyna að taka upp í okkar vegakerfi þannig að flutningatæki, bílar og vagnar sem eru byggð miðað við það burðarþol sem þar er séu nýtanleg á Íslandi. Staðreyndin er sú að svo er ekki í dag. Í raun og veru eru ekki forsendur til þess horft frá sjónarhóli vegakerfisins að kaupa hingað til landsins flutningatæki sem eru samkvæmt þeim stöðlum því umtalsverður hluti vegakerfisins í landinu og margar brýr leyfa ekki slíkan þunga.

Þessa hluti, herra forseti, væir gaman að heyra hér einhvern tíma rætt um, t.d. af hæstv. ráðherra. Ef hér væri í landinu metnaðarfullur framsýnn hæstv. samgrh. sem legði sig eitthvað eftir því að reyna að horfa inn í framtíðina í þessum efnum, vera með einhverja vinnu í gangi, einhverja stefnumótun á þessu sviði ætti hann auðvitað að vera að fjalla um þessa hluti og leggja þá upp en ekki flytja hérna þriggja mín. framsöguræðu fyrir niðurskurðaráætlunum af því tagi sem hæstv. ráðherra gerði við 1. umr. þessa máls. Og var ekki hátt á honum risið.

Ég sakna þess alveg sérstaklega í þessu ljósi t.d. að það skuli ekki vera nein vinna í gangi hér eða ekkert hafi verið lagt fyrir þingið sl. rúm fimm ár sem snýr að langtímastefnumótun í þessum efnum. Ég hef þá trú og þá skoðun að það sé eitt af því allra brýnasta í þessum efnum að horfa til heildarmyndarinnar, hvernig viljum við að samgöngukerfið samþætt byggist upp á landi, í lofti og á legi og hvaða áherslur viljum við leggja í einstökum efnum. Er þetta t.d. þjóðhagslega hagkvæmt og æskileg þróun að öllu leyti sem er að gerast að sjósamgöngurnar eru á undanhaldi og eru að taka stórstígum breytingum? Þungaflutningar eru að færast upp á land og á vegi og vegakerfi sem samt er á engan hátt í stakk búið til að taka við þeim. Hefði ekki verið ástæða til þess t.d. þó ekki væri nema að skoða þann möguleika að styðja við bakið á sjósamgöngum í t.d. 5--10 ár í viðbót? Á meðan hefði mátt ljúka bráðnauðsynlegustu uppbyggingu vegakerfisins í þeim landshlutum sem hafa þannig samgöngur að vandi þeirra er ekki á nokkurn hátt leystur með forsvaranlegum hætti í ljósi ástandsins eins og það er í dag.

Þessi hæstv. ríkisstjórn stærir sig stundum mikið af því að hún sé alveg sérstaklega hliðholl og vinveitt atvinnulífinu og hafi gert mikið til þess að bæta starfsskilyrði þess og búa því betri aðstæður og forsendur. Það er allt rétt, segir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hreykinn. Hann er þar sjálfsagt að vísa til Vestfjarðaaðstoðarinnar og svona snilldarbragða sem hann á lengi eftir að minnast með hlýhug að hafa staðið að. En skyldi þetta eiga við t.d. um samgöngusviðið? Ætli það sé hægt að segja að það sé búið vel að atvinnufyrirtækjunum í Norður-Þingeyjarsýslu að þessu leyti til? Hvernig halda menn að sé að reka t.d. fyrirtæki eins og Silfurstjörnuna í Öxarfirði sem þarf reglubundið í hverju einustu viku ársins og helst tvisvar til þrisvar að koma ferskri framleiðslu með takmarkað geymsluþol norðan úr Öxarfirði og suður til Keflavíkurflugvallar í veg fyrir áætlunarflug og á markað innan sólarhrings? Þar sem á kannski að fara að elda laxinn og bleikjuna í veitingahúsum í París eða New York helst ekki mikið lengur en 35 klst. eftir að varan leggur af stað frá Núpsmýrum í Öxarfirði. Hvernig halda menn að sé þá að búa við það að kannski 6--8 vikur á hverju vori séu þannig þungatakmarkanir á leiðinni til Húsavíkur að það þurfi helst að læðast með þetta á skíðum eða ég veit ekki hvað? Eða jeppum á túttudekkjum til þess að þetta megi vera meira en nokkur kíló. Þannig er ástandið. Það þarf þrjár, fjórar ferðir á léttum bílum með vöruna til þess að hægt sé að fylla einn bíl þegar komið er á bundið slitlag á Húsavík með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Hvaða öryggi er þetta? Hvers konar aðstæður eru þetta til að stunda framleiðslustarfsemi af þessu tagi? Nei, ég held að menn geti auðvitað haldið hólræður um sjálfa sig og verið ánægðir með sinn hlut bæði á síðasta kjörtímabili og þessu eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. En hann er vonandi ekki að hrósa frammistöðu okkar allra saman að við séum búin að búa mönnum góð starfsskilyrði hvað samgöngur snertir í atvinnulífinu vítt og breitt um landið. Það er nú ekki svo.

Hér bar líka aðeins á góma, herra forseti, Vestfjarðagöng og ákvarðanatöku í því sambandi. Hér kom til orðaskipta á milli hv. þm., reyndar þess sem var í forsetastóli fyrir skömmu síðan, Guðmundar Árna Stefánssonar annars vegar og hv. 5. þm. Vestf., Kristins H. Gunnarssonar, hins vegar um bakgrunn slíkra ákvarðana eins og þeirra að ráðast í Vestfjarðagöng. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er dálítið undrandi á því ef það er nýtt fyrir einhverjum þingmönum eins og hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að samgöngupólitískar ákvarðanir séu pólitík. Að þetta sé ekki bara eitthvert sjálfvirkt lögmál eftir höfðatölureglu eða öðru slíku, að menn bara fari út og reki puttann upp í loftið og finni hvernig vindurinn blæs eða fari út og telji bíla og þá sé vandinn leystur. Út frá því ráðist þessir hlutir. Auðvitað er það ekki svo. Það er kannski fátt meiri pólitík þegar allt kemur til alls en einmitt ákvarðanataka um uppbyggingu innviða samfélagsins, sem á erlendu máli kallast infrastrúktúr og erfitt er að þýða. Ég nota oftast orðið innviði. Þessar efnislegu undirstöður sem samfélagið í raun og veru byggist upp utan um eins og samgöngur, undirstöðuþættir opinberrar þjónustu og annað því um líkt í landinu. Auðvitað er það pólitík hvernig ákvarðanir eru teknar um ráðstöfun sameiginlegra fjármuna í slíku sambandi. Það eru engin vélræn lögmál sem eiga né geta ráðið þar ein niðurstöðunni. Og þá getum við alveg eins hætt að hugsa ef við förum út á þá braut. Við ætlum ekki að gera það, er það? Við ætlum ekki að hætta að hugsa um það hvernig þjóðfélagi við viljum búa í og hvernig við viljum að það byggist upp og þróist inn í framtíðina. Við höfum einhverja meðvitund um það, er það ekki? Og þá snýst málið um pólitík. Þora menn, geta menn tekið ákvarðanir sem eru pólitísks eðlis hvort sem við köllum það samgöngupólitísks eðlis eða byggðapólitísks eðlis eða bara hreina pólitík og fela í sér einhverjar áherslur um hluti sem við viljum ná fram eða viljum láta gerast og hafa auðvitað áhrif á þróun samfélagsins? Vestfjarðagöngin eru stór samgöngu/byggðapólitísk ákvörðun af þeim toga. Ákvörðun um að gefast ekki upp í baráttunni við erfiðleika í byggðaþróun í þeim landshluta og þora að hafa meðvitund, kjark og hugsun á því að grípa til aðgerða jafnvel þótt þær væru býsna stórar í sniðum og þýddu vissulega, ef menn vilja endilega orða það svo, ákveðna tilfærslu fjármuna í okkar þjóðfélagi o.s.frv. Mér finnst satt best að segja merkilegt ef menn eru að koma hér í ræðustól eða yfirleitt á þessum dögum að undra sig á því að svona sé þetta. Auðvitað er þetta svona og hefur alltaf verið svona. Það er líka mjög stór pólitísk ákvörðun að ákveða að það skuli vera höfuðborg í landi og hvar skuli verða sú sameiginlega uppbygging allra landsmanna sem þangað fer. Íslendingar hafa verið svo gæfusamir að það römbuðu hér á land einhverjar súlur að sögn fyrir 1100 árum eða hvað það nú er og síðan þurfti ekki að hugsa meira um það mál. Við höfum sem sagt átakalítið a.m.k. alveg frá því Skúli kom hér upp innréttingunum í raun og veru vaxið upp við þá hugsun að hér yrði höfuðstaður landsins. Það er ekki svo hjá öllum öðrum þjóðum. Sumar þjóðir hafa gengið svo langt að þær hafa tekið ákvarðanir um að færa sínar höfuðborgar og byggja upp nýjar. Meðal annars með svona pólitískar ákvarðanir í huga að þeir vildu búa til eitthvert annað munstur í samfélaginu en var, byggja upp nýja innviði sem snerust um aðra hluti en þá sem áður voru. Sumir hafa gert þetta út úr vandræðum af því að þeir hafa ekki getað komið sér saman um hvar ætti að vera höfuðborg. Ætli vinir mínir, Ástralíumenn, hafi ekki lent í því að það var erfitt að velja á milli stórborganna í Ástralíu þannig að það var sniðugast að byggja bara nýja. Þetta er ákaflega fallega og vel skipulögð borg eins og hægt er að gera þegar menn byggja heila borg frá grunni, sérstaklega með það í huga að hún skuli verða höfuðborg. Þá geta menn hannað sérstakt svæði fyrir ráðuneytin og annað fyrir sendiráðin og það þriðja fyrir bústaðina o.s.frv., allt mjög snyrtilegt. Hvað sem um það má segja að öðru leyti er það pólitísk ákvörðun um uppbyggingu innviða samfélagsins af því tagi sem samgönguframkvæmdir og samgöngupólitískar ákvarðanir auðvitað eru. Þannig er nú það. Þetta var smá skógarferð um innviðina og ákvarðanatöku í þessum efnum af því að mér finnst nauðsynlegt að menn átti sig á því að við erum ekki að tala um einhverjar þurrar tölur. Sumir eru góðir í formúlum, eins og t.d. hv. þm. Ragnar Arnalds, sem hélt hér mjög fróðlegt erindi um formúlur sem hefðu leitt af sér aðrar formúlur og enn fleiri formúlur og fyrr en varði var allt komið í formúlur nema einhverjar leifar sem ganga til almennra vegaframkvæmda. Þetta var mjög skemmtileg uppsetning en auðvitað eru þetta ekki formúlur heldur pólitískar ákvarðanir sem menn eiga að taka með meðvitund um það hvað þeir eru að gera og ekki að skýla sér á bak við nein vélræn lögmál eða formúlur eða tölur í þeim efnum.

Herra forseti. Þá er ég að hugsa um að fara að draga þetta saman og því miður verður það að vera með svipuðum hætti og við fyrri umræðu þessa máls. Manni verður kannski aðallega hugsað til hæstv. ráðherra og hvernig hann fer út úr þessu, blessaður hæstv. ráðherrann. Honum daprast heldur flugið. Hann er heldur að lækka flugið eins og sagt er og þarf svo sem ekki að vera svo slæmt ef lendingin tekst þokkalega en það er verra ef í vændum er brotlending. Ég hygg að það hafi verið rifjað upp við fyrri umr. að um það leyti var í útvarpinu þáttur grínfréttamannsins Hauks Haukssonar og hann spilaði og endurtók í sífellu ummæli sem hæstv. ráðherra á að hafa haft um það að hann væri að skreyta sig með stolnum fjöðrum Framsóknar. Mér kom þetta í hug þegar ég var að velta fyrir mér þessu lágflugi hæstv. ráðherra að þær reyndust ekki vel til flugsins, hinar stolnu fjaðrir frá Framsókn. Spurning er hvort að fjaðrirnar eða fiðrið frá krötum hefur þá jafnvel verið af tvennu illu skárra en þessar lánsfjaðrir frá Framsókn. Út af fyrir sig var hæstv. ráðherra heldur hærra á lofti á því kjörtímabili þegar hann var að fljúga með fjöðrum frá krötum. Út af þessu öllu saman varð hagyrðingi nokkrum á Norðurlandi það á að yrkja vísu. Og af því hæstv. ráðherra er nú gefinn fyrir vísur og varpar stundum fram kviðlingum þá er ég að hugsa um að enda þetta, herra forseti, með því að fara með vísu þessa eftir hinn ónefnda hagyrðing af Norðurlandi. Hún er sem sagt þannig til komin að hagyrðingurinn var að velta fyrir sér þessari sambúð hæstv. ráðherra fyrst við krata og síðan Framsókn og hvernig flugið er nú mjög að daprast hjá hæstv. ráðherranum. Vísan er svona:

  • Ill með krötum vistin var
  • og vesælt þeirra fiður.
  • Á stolnum fjöðrum Framsóknar
  • flýgur Halldór niður.