Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 23:45:32 (6326)

1996-05-20 23:45:32# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[23:45]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. flutti hér prýðisræðu að vanda og fór nokkuð yfir sviðið. Rifjaðist þá upp fyrir mér að hann á sinni tíð lét skrifa lærðan texta um lífæðar lands og þjóðar sem hann einmitt fjallaði hér um og velti fyrir sér að ýmislegt væri nú ógert í vegamálum. Hann vakti athygli á þeirri breytingu sem hefur orðið og gæti m.a. stafað af þeim línum sem lagðar voru með því rauða kveri, Lífæðar lands og þjóðar, þar sem reynt var að spá fyrir um á hvaða hátt ætti að skipuleggja samgöngukerfi landsins og leggja meiri áherslu á uppbyggingu hafna á einum stað og vega á öðrum stöðum. Ég held að vilji hans og e.t.v. vilji þeirra sem síðar tóku völdin í samgöngumálum hafi að ýmsu leyti gengið saman að mínu mati. En það hefur auðvitað gerst að dregið hefur úr flutningum á sjó á tilteknum svæðum en landflutningar aukist. Þá kemur að því sem ég vildi nefna við hv. þm. Kemur til greina að hans mati að þar sem mjög hefur dregið úr sjóflutningum en landflutningar aukist að það sé þá talið eðlilegt að tilflutningur verði milli kjördæma svo hægt sé að leggja meiri áherslu á vegagerð? Er mér þá sérstaklega hugsað til Vesturl. þar sem sjóflutningar hafa næstum því lagst af, t.d. á Snæfellsnesi. Er eðlilegt að þar með séu þess vegna aukin framlög til samgöngumála í Vesturl.? Það væri fróðlegt að heyra afstöðu þingmannsins til þessa sjónarmiðs.