Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 23:47:48 (6327)

1996-05-20 23:47:48# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[23:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hreyfir hér ákaflega athyglisverðum þætti þessa máls. Það er alveg hárrétt að menn reyndu að sjá og töldu sig auðvitað sjá að nokkru leyti fyrir breytingar sem væru í farvatninu og út af fyrir sig eðlilegar og óumflýjanlegar varðandi t.d. sjósamgöngurnar. Einfaldlega breytt flutningatækni, gámavæðing, stærri skip og rekstrarsjónarmið og margt fleira kallaði á margt af því sem við höfum séð vera að gerast. Það er vissulega rétt. Sjóflutningar hafa lagst af á Vesturlandi. Er þá skynsamlegt að þarna verði einhver tilfærsla eða áherslubreyting? Ég svara því hiklaust játandi. Ég held að menn eigi að vera opnir fyrir því að það geti verið skynsamlegt, annaðhvort innan landshluta eða beinlínis bara á á landsvísu, að hafa möguleika á ákveðinni tilfærslu fjármuna, á áherslubreytingum getum við kallað það sem tækju jafnvel mið af að einhverju leyti staðbundnum aðstæðum. Ég nefndi einmitt þau svæði þar sem menn voru bara alls ekki í stakk búnir til að taka við þessum breytingum svo ágætar sem þær geta verið og eðlilegar, eins og þær að Akureyri, Ísafjörður, Reyðarfjörður eða Eskifjörður eða hvað það nú verður, verði svona safnhafnir í sínum landshlutum þá verður vegakerfið sem að þeim liggur að vera tilbúið til að taka við því hlutverki að flytja vöruna sem áður fór um hafnir á ströndinni til stærri safnhafna. Það getur vel verið að réttlætanlegt væri að fara í ákveðnar breytingar í þeim efnum. Ég hef oft hugsað hvort við ættum kannski að leysa þetta mál með því að hafa tiltölulega sjálfstæð samgöngufjárlög sem væru með ákveðnum möguleikum til að færa fjármuni á milli þátta, milli hafnamála, flugmála og vegamála þannig að það væri á vissan hátt eftir aðstæðum og í takt við þróun sem væri að verða hægt að draga þar til fjármuni. Þá hefðu t.d. Vestlendingar þegar áætlunarflug lagðist af úr þeim merka fjórðungi ekki misst allt flugfé burt úr kjördæminu og fengið núll eins og nú er ár eftir ár heldur hefðu þeir getað flutt einhverja sambærilega fjármuni yfir í aðra þætti samgöngumálanna sem var þá orðin meiri þörf fyrir að bæta. Það sama gæti að einhverju leyti átt við um hafnirnar. En auðvitað er aðalvandinn sá að við höfum of litla peninga í þetta eiginlega allt saman, herra forseti, og við þyrftum að hafa meira.