Spilliefnagjald

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 13:36:50 (6343)

1996-05-21 13:36:50# 120. lþ. 143.1 fundur 252. mál: #A spilliefnagjald# frv. 56/1996, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[13:36]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Á þskj. 1011 flyt ég ásamt þremur öðrum þingmönnum úr jafnmörgum þingflokkum tillögu um breytingu þar sem tiltekið verði að inn í svonefnda spilliefnanefnd komi fulltrúi frá Neytendasamtökunum í stað fulltrúa númer tvö sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að ráðherra skipi. Við umræðu um málið tókst ekki að toga upp úr hæstv. umhvrh. hvernig hann hygðist fara með skipunarvald sitt í þessum efnum, en honum var bannað ásamt öðrum framsóknarmönnum að nefna Vinnumálasamband samvinnufélaganna í þessu sambandi og rákust á skýrar takmarkanir á helmingaskiptareglu sem annars er meginviðmiðun hjá stjórnarflokkunum í flestum málum. Hér blasir því við hin pólitíska spilling í þessu stjórnarsamstarfi. Við leggjum til að Neytendasamtökin fái fulltrúa.