Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 13:57:11 (6344)

1996-05-21 13:57:11# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[13:57]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þau skilaboð hafa verið send til þjóðarinnar að búið sé að lagfæra þetta frv. á þann veg að það sé harla gott og að ekki sé lengur ástæða til ótta fyrir launþega. En þetta er rangt. Að vísu hefur vinna okkar og málflutningur skilað árangri inn í félmn. og tennurnar hafa verið dregnar úr frv. svo að þar ríkir reyndar engin stefna lengur. En eftir stendur að þessi lagasetning sem hér er áformuð er íhlutun og ríkisstjórn hefur hrakist undan staðreyndum, m.a. þeim að hér hafi verið um brot á alþjóðasamþykktum að ræða.

Virðulegi forseti. Við 2. umr. um frv. ríkisstjórnarinnar um stéttarfélög og vinnudeilur er mér efst í huga gjörbreytt viðhorf ríkisstjórnar til samskiptahátta við launþegasamtök og hún er áleitin spurningin um hvert ríkisstjórnin stefnir með hinni nýju stefnu í vinnumarkaðsmálum. Bæði frv. sem hér hafa verið til umræðu hafa vakið hörð viðbrögð allra þeirra sem valdir hafa verið til forsvars í stéttarfélögum og samtökum launafólks og furðu reyndar flestra sem gefið hafa sér tíma til að skyggnast inn í þann heim valdatafls sem stjórnmálin virðast fyrir augliti venjulegs fólks. Sjálfri býður mér ekki í grun hvað fær ríkisstjórn til að fara þá leið valdboðs og yfirgangs sem birst hefur í framlagningu og allri meðferð frumvarpanna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og stéttarfélög og vinnudeilur, né heldur geri ég mér grein fyrir hvaða dilk þessi vinnubrögð eiga eftir að draga á eftir sér. Ég þykist vita að ríkisstjórnin fari svona fram í skjóli þess að þetta líði hjá, að sumarið breiði yfir ósætti og óánægju og þegar frá líði verði samtök launafólks bara fegin að málum er ráðið á þennan hátt og ráðið með lögum fyrir þau, að þegar haustar verði eitthvað annað sem vegi þyngra svo að þessi lagasetning lukkist.

[14:00]

Í mörg ár hefur þróast þríhliða samstarf á vinnumarkaði og skilað ágætum árangri, a.m.k. hvað varðar samninga og sátt. Ég undanskil samstarf samstarfsnefndar félmrn. um vinnumarkaðsmál því mér finnst það ekki góður árangur að samþykktir ILO hafa aldrei fengið afgreiðslu út úr þeirri nefnd og það hefur bundið hendur margra félmrh. með að leggja til staðfestingu þeirra. Ég get vísað til ILO-samþykkta svokallaðra, nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, ILO-samþykkt nr. 158, um uppsögn af hálfu atvinnurekenda, sem reyndar hafa báðar verið fluttar inn á þingið sem þingmannamál í trausti þess að hægt sé að vekja þingmenn til umhugsunar um mikilvægi þess að þessar samþykktir séu staðfestar hér og vegna þeirra áhrifa sem staðfesting þeirra mundi hafa varðandi samvinnu á vinnumarkaði og rétt launþega gagnvart atvinnurekendum. En því miður, hvað varðar réttindi launþega er hvergi farið með valdi, það er ekki brotið gegn vilja VSÍ sem ekki hefur viljað sættast á að þessar samþykktir væru staðfestar t.d. út af 8. gr. ILO-samþykktar nr. 156, þar sem tryggður er réttur fólks með fjölskylduábyrgð gagnvart uppsögnum. Ég hef reyndar nefnt hér í þessum ræðustól og ætla að gera það aftur, virðulegi forseti, hvernig það virkaði á mig þegar ég fyrr á árinu sótti fund jafnaðarmannaflokka Norðurlanda þar sem verið var að fjalla um samstarf þeirra. Eitt aðalmál á dagskránni var með hvaða hætti þessir flokkar mundu beita sér fyrir því að inn í alla viðskiptasamninga sem þeir stæðu að sem forráðamenn sinna ríkisstjórna á evrópskum vettvangi yrði sett ákvæði um rétt launþega í löndum þar sem engin réttindi eru svo sem í löndum Eystrasaltsríkjanna, austantjaldslöndum og öðrum sem eru að undirbjóða gagnvart vinnumarkaði hérlendis. Samhliða því sem slík ákvæði mundu skapa réttindi launþega þar sem engin eru fyrir mundi það líka skapa jafnvægi gagnvart okkur sem erum að stuðla að því að uppbygging verði fyrir austan hið gamla fyrrverandi járntjald.

Það var undarlegt að koma frá Íslandi, þessu lýðræðisríki og verða að horfast í augu við og viðurkenna fyrir þeim sem þennan fund sátu að hér á Íslandi hefur ekki verið staðfest ILO-samþykkt af þessum toga sem tryggir réttindi launþega vegna þess að hér er borin svo mikil virðing fyrir þríhliða samstarfi aðila vinnumarkaðarins og ráðuneytis að ekki má taka nokkurn hlut út úr þeirri samvinnu sem VSÍ eða annar aðili beitir sér gegn.

Virðulegi forseti. Það verður fróðlegt að vita hvernig verður brugðist við í framtíðinni í samskiptum við launþegahreyfingar. Ég hef leyft mér að halda því fram að með framlagningu þessara frv. og vinnubragðanna varðandi þau sem eru í svo mikilli ósátt við launþegasamtökin sé verið að brjóta í blað hvað varðar hefðbundið vinnulag á Norðurlöndunum. Ég minnist þess á Norðurlandaráðsþingi fyrir tveimur árum þegar verðlaunahafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs sagði svo skemmtilega: ,,Norden er i orden.`` Verði það niðurstaðan að þau lýðræðislegu vinnubrögð og samvinna ríkisvalds og þegnanna í þjóðfélaginu, sem hafa verið aðalsmerki þjóðfélagsgerðarinnar á öllum Norðurlöndum, verði brotin upp verð ég að segja að þá höfum við gert þær breytingar sem e.t.v. verða til þess að Norden er ekki í orden.

Það er söguleg staðreynd að árangursríkt samstarf aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins var forsenda þeirrar jákvæðu þróunar í efnahagsmálum sem margir eru nú farnir að líta á sem sjálfsagðan hlut en kostaði mikla þrautseigju allra sem að málinu komu og unnu slíku átaki fylgi meðal umbjóðenda sinna. Það er ekki hægt að ræða samskiptareglur á vinnumarkaði öðruvísi en að rifja það upp hverju gott samstarf á jafnréttisgrundvelli skilaði á mjög erfiðum tímum. Það var ekki verið að semja um stöðugleika og svo til óbreytt ástand launalega af því að mikið væri aflögu. Nei, það var ekkert aflögu en þó náðist sú þjóðarsátt sem nú er greinilega stefnt í voða. Menn féllust á að búa áfram við lág laun og rýr kjör til að vinna bug á verðbólgu. Þannig tóku launþegar höndum saman við ríkisvaldið og VSÍ og hörð og erfið varnarbarátta hefur skilað þjóðfélaginu bættri afkomu og dágóðum efnahagshorfum. Loks rofar til í efnahagsmálum en það er þá sem menn virðast fá þær hugmyndir að nú þurfi að koma böndum á hina frjálsu samvinnu aðila vinnumarkaðarins. Það er mikill munur á því að koma á nefndarstarfi til að stuðla að samkomulagi aðila um breytingar á samskiptareglum á vinnumarkaði í sátt og samlyndi og innbyrðis og því að taka mál sem ekki er útrætt hvað þá fullþroskað, skella því í frumvarpsform og senda það inn á Alþingi í fullkomnu ósætti þeirra sem hlut eiga að máli. Þegar frv. kom fram var gefin yfirlýsing af hálfu stjórnvalda aftur og aftur í fjölmiðlum um að frv. væri sett inn til Alþingis til þess að Alþingi hefði málið undir höndum af því að áköf þjóðfélagsumræða væri komin í gang, m.a. vegna umfjöllunar fjölmiðla. Það væri því eðlilegt að Alþingi gæti séð þau mál sjálft sem þarna væru til umfjöllunar. Og þá var fullvissað um að vinna ætti áfram að því að ná sátt um á hvern hátt þessi frv. mundu breytast og yrði áfram unnið með þau en á engan veg gefið til kynna að nú yrði keyrt áfram hverju sem tautaði og raulaði til þess að keyra þessi mál í lög í fullkominni ósátt við verkalýðshreyfinguna.

Frv. sem flutt var á Alþingi fyrir nokkrum vikum er gjör\-ólíkt þeim lögum sem lagður er grunnur að með brtt. nú við 2. umr. Það er út af fyrir sig mjög gott mál því flestar breytingarnar eru til batnaðar og breytingarnar eru ótrúlega miklar frá því fyrstu drög voru sett fram. Það er þýðingarmikið að það komi fram hvernig stjórnarandstaðan kom að málinu, bað um álit Lagastofnunar, kallaði eftir umsögnum frá ótrúlegum fjölda aðila út um allt land þannig að umsagnirnar sem hafa borist félmn. fylla möppu. Sjálfsagt er bunkinn ekki minni en 10 sm hár og sjálfsagt nokkuð mörg kíló. Hún kallaði eftir sjónarmiðum með viðræðum og tók málefnalega umræðu sem knúði það fram að meiri hlutinn varð að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem þarna komu fram, varð að hlusta á Lagastofnun háskólans og horfast í augu við að þetta var illa unnið frv. sem var skelfilegt að fram var komið. En þráinn var svo mikill að ekki var fallist á að gera það sem lagt var til, þ.e. að draga frv. til baka. Eftir stendur afstaðan til íhlutunar. Þótt við höfum fengið því áorkað að málið hefur lagast, að verstu tennurnar eru dregnar úr þessu að mínu mati ljóta frv., þá er íhlutun í málefni verkalýðshreyfingarinnar það sem gerir það óframkvæmanlegt fyrir stjórnarandstöðuna að standa að þessu máli.

Ég get ekki stillt mig um það að þessum orðum töluðum að nefna skoðanakönnunina um viðhorf fólks til breytinga við samningagerð. Félmrh. kannaði hug þjóðarinnar til frv. og vinnubragða, og vinnubragða verkalýðshreyfingarinnar. Þegar ég heyrði hvaða spurning var lögð fyrir í skoðanakönnun Gallups varð mér að orði: Ósköp var þetta eitthvað leiðandi spurning. Ætli nokkur taki mark á því svari sem kemur fram í Gallup við henni? Vissulega var tekið mark á henni, henni var veifað og því haldið fram að þarna væri vilji þjóðarinnar og viðurkenning þjóðarinnar á því að það væri bara rétt af ríkisstjórninni að setja lög á launþega og að öll vinnubrögð verkalýðshreyfingarinnar hefðu verið vond, þess vegna væru launin svona lág. Það var túlkunin eins og ég hef skilið hana. En í gærkveldi hlustaði ég svo á kvöldfréttir sjónvarps. Þá ber svo við að þar er viðtal við formann Rafiðnaðarsambandsins sem hefur óskað eftir því við Gallup að fá að nota sömu spurningu og félmrh. en snúa meiningunni við. Honum var synjað. Þetta var mjög athyglisverð frétt og ástæða til að skoða þetta mál nánar en mér gafst ekki tími til þess á þessum morgni.

Virðulegi forseti. Þetta er búinn að vera undarlegur vetur. Ágreiningsmálin hafa verið mörg og meiri hlutinn á Alþingi hefur farið í umfjöllun mála á sérstaklega yfirlætislegan hátt. Ég hef verið að velta fyrir mér stöðunni aftur og aftur. Og aftur og aftur hefur sótt á mig næstum ljóðrænn texti sem ég hef einhvern tíma heyrt þótt hann hafi þá átt við annað. Ég get ekki munað hvað en hann er eitthvað á þessa leið:

  • Litla Framsókn,
  • litla, litla Framsókn,
  • litla, litla, litla Framsókn,
  • litla, litla, litla, litla Framsókn ...
  • o.s.frv., o.s.frv. Ég veit ekki af hverju mér finnst Framsfl. orðinn svona undursmár í atferli og hugsun. Það skorti ekkert á atyrðingarnar af Framsfl. hálfu þegar Alþfl. var í ríkisstjórn og spyrja má hvort þetta sé þá sama staðan. Aldeilis ekki. Pólitísku málin sem Alþfl. stóð í voru allt annars eðlis. Breytingar í alþjóðasamskiptum, breytingar í viðskiptaháttum, kerfisbreytingar, m.a. í heilbrigðiskerfinu sem að vísu náðu ekki allar fram að ganga, og ýmsar félagslegar umbætur sem við höfum reyndar ekki séð mikið af hjá Framsfl. En þetta mál er allt annars eðlis. Þetta er grundvallarbreyting í samskiptum við launþega sem enginn hefði átt von á úr þessari átt. Ég hef svo sem aldrei haft miklar væntingar til Framsfl. en ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf haft pólitíska trú á formanni hans og kynni mín af vinnubrögðum hans hafa verið á þann veg að ég ímyndaði mér að hann mundi í flestum tilfellum leita leiða til að vinna mál af þessu tagi til lykta með samkomulagi. Aðallega þess vegna hef ég verið undrandi á Framsfl., litla, litla Framsfl. En í þessu máli ætla ég hins vegar ekki að festa mig við Framsfl. Við höfum í vetur talsvert veist að honum í forundran yfir ýmsu sem hann hefur látið yfir sig ganga í pólitíkinni um leið og hann komst í valdastöðu. En það er full ástæða til að líta til Sjálfstfl.

    Það er reyndar gaman að velta fyrir sér skoðanakönnunum um fylgi flokkanna. Þar tapar Framsfl. samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í morgun en Sjálfstfl. vinnur á. Ef til vill af því að enginn tengir hann við þetta frv. Sjálfstfl. hefur notið mikils stuðnings hjá hinum vinnandi stéttum. Hann hefur átt innan sinnan raða fólk í trúnaðarstörfum í verkalýðshreyfingunni, hann hefur á einhverju skeiði átt innan sinna raða varaformann ASÍ. Hann hefur gefið mynd af því að innan flokksins vinni stétt með stétt. Hann hefur líka ávallt gefið sjálfum sér ákveðna yfirskrift: Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur allra stétta. Og ég spyr: Hvaða stétta? Skrifstofufólksins, verkafólksins, opinberu starfsmannanna? Hvaða viðbrögð fær hann frá trúnaðarmannaliði sínu í dag? Lætur flokkur allra stétta sig það einhverju varða? Ef hægt er að sjá eitthvað gott við vinnumarkaðsfrumvörpin tvö sem við höfum verið að ræða að undanförnu þá er það einmitt sú staðreynd sem á eftir að ná til fjöldans þótt síðar verði að þegar á reynir lætur Sjálfstfl. það lönd og leið að vera flokkur allra stétta. Ef setja þarf bönd á baráttuaðferðir verkalýðsins þá setur maður bara lög. Maður setur lög á liðið sem verður vonandi búið að gleyma því fyrir næstu kosningar. Ég held hins vegar að þessi leikur eigi eftir að draga dilk á eftir sér og það sem lagt er upp með sem markmið, þ.e. að halda utan um samningamálin í haust, eigi fremur eftir að snúast upp í andhverfu sína og að breyting á þessum lögum verði samningskrafa númer eitt þegar kröfur verða settar fram í haust.

    [14:15]

    Sjálfstfl. hefur sýnt af sér talsverða pólitíska slægð í ríkisstjórn. Í forustuhlutverki hefur hann ráðið málum þannig að t.d. við fjárlagagerð eru það aðrir sem verða fullkomlega ábyrgir fyrir niðurskurði. Það verða fagráðherrar í hinum ýmsu ráðuneytum, félmrn., heilbrrn. o.s.frv. sem eru vondu karlarnir eða vondu konurnar og skera niður af því að ramminn er þröngur. Fjmrh. er stikkfrí og það er löngu hætt að leita til fjmrh. með áleitnar kröfur um hvers vegna og hvers vegna. Fjmrh. vísar yfir á fagráðherrana sem eru í fullkominni vörn í þröngum römmum sínum og eiga enga kosti aðra en að skera niður og höggva í velferðarkerfið. Þetta er athyglisvert vegna þess að Sjálfstfl. er hið ráðandi afl í landsstjórninni þegar hann fer með forsrn. Hann er sléttur og felldur. Hann er ósýnilegur meðan samstarfsflokkarnir puða í niðurskurði og nú í máli af þessum toga.

    Nú á greinilega að keyra vondu málin í gegn á fyrsta ári kjörtímabils, kerfisbreytingar til að hafa undirtökin á sínum stað þegar málum vindur fram í haust. Erum við ekki núna virkilega að finna hvað hægri flokkur þýðir? Það þýðir ekki flokkur allra stétta heldur flokkur hagsmuna, í þessu tilfelli atvinnurekenda.

    Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í félmn. hafa reynt að hafa mikil áhrif í umræðunni þar eins og ég hef áður getið. Þeir hafa tekið fullan þátt í allri umfjöllun um frv. félmrh. um stéttarfélög og vinnudeilur og komið með góðar ábendingar samhliða harðri gagnrýni. Við erum sammála um að í frv. felist íhlutun í innri málefni og skipulag stéttarfélaga sem gerir það að verkum að við getum ekki staðið að málinu þó það hafi tekið stakkaskiptum og allar breytingartillögurnar út af fyrir sig séu til bóta. Við erum mjög ósátt við að frv. er flutt í óþökk stéttarfélaganna og að það var tekið út úr vinnuferli sem hefði getað leitt til sameiginlegrar niðurstöðu ef málið hefði fengið að þróast áfram milli aðila. Og það er athyglisvert að samtök atvinnurekenda lýsa fullum stuðningi við málið og eru tilbúin að blessa allar breytingar sem fram hafa komið en það bendir til að þeim sé í mun að lög séu sett um samskiptareglur og samningaferli. Hins vegar leggst hver einasti aðili sem á fund félmn. hefur komið úr röðum launþegasamtaka gegn lagasetningu og hafnar því að eiga hlut í breytingartillögum vegna þess að allir sem einn hafa þeir óskað þess að frv. verði dregið til baka og hafa varað við lagasetningu við þessar kringumstæður. Allir sem einn hafa óskað þess, sama hvar í flokki þeir standa, enda verður hvert einasta félag að breyta félagareglum sínum verði frv. að lögum og ég veit ekki hvað telst íhlutun í innri málefni ef ekki það.

    Virðulegi forseti. Skoðum nú hvaða breytingum frv. hefur tekið. Í fyrsta lagi er lagt til að 1. gr. frv. um heimild til stofnunar vinnustaðarfélaga verði felld brott. Mikil andstaða var við þetta ákvæði eins og fram kemur í áliti meiri hluta og það talið veikja skipulag verkalýðshreyfingarinnar. Í þessu tilfelli var tekið tillit til gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar og einmitt sú gagnrýni um að þessi íhlutun veikti skipulag verkalýðshreyfingarinnar er tekin gild þarna þó hún sé ekki tekin gild á öðrum sviðum þar sem jafnhart var gagnrýnt. Þess ber að geta að við það að þessi grein er felld brott úr frv., þá stendur eftir óbreytt 2. gr. laganna um að stéttarfélög skuli opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félaganna og að félagssvæði megi aldrei verið minna en eitt sveitarfélag. Þetta hefur m.a. verið gagnrýnt og er talið brjóta í bága við ákvæði alþjóðasamþykkta og Lagastofnun lagði áherslu á að þetta yrði skoðað í umsögn sinni um frv. og breytingartillögur þess. Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa eina klausuna sem Lagastofnun setti fram. Hún er á bls. 9 í umsögn þeirra:

    ,,Ekki er hægt að útiloka að ákvæði um að félagssvæði stéttarfélags skuli aldrei vera minna en eitt sveitarfélag kunni að sæta aðfinnslum af hálfu félagafrelsisnefndar ILO ef á reyndi. Einnig er rétt að minna á að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 8. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi mundi reyna sérstaklega á það hvers vegna nauðsyn væri á slíkri takmörkun í ,,lýðræðislegu þjóðfélagi``. Hin athugasemdalausa framkvæmd til þessa, núverandi uppbygging stéttarfélaga og skipulag á vinnumarkaði, þar sem vinnustaðarfélög eru óþekkt, yrðu þar væntanlega færð fram sem rök og telja verður líkur á ...``, þarna er ég reyndar komin út í vinnustaðarfélögin þannig að ekki þarf að lesa lengra.

    Athugasemd kom um ... (Gripið fram í.) Ég geri ekki athugasemd við vinnustaðarfélög sem eru felld út, virðulegi forseti. Það kom ábending frá Lagastofnun um að þetta yrði skoðað þó þetta væri lagaákvæði í upphaflegu lögunum og það er full ástæða til að staldra við og skoða ábendingar vegna þess að það er svo margt sem hefur verið að breytast frá því að þessi lög voru sett. Nýjasta dæmið er sameining sveitarfélaga á norðursvæðum Vestfjarða og við skulum bara horfast í augu við hvað þessi lög kveða á um strax, bara beinlínis gagnvart þeim. Meiri hlutinn gaf sér ekki tíma til að skoða þetta vegna þess að vinnubrögð meiri hlutans snerust um að flýta sér að koma með breytingartillögur og þegar þær voru hraktar, þá var bara breytingartillögunum breytt aftur.

    Varðandi 2. gr. vil ég láta það koma fram eins og meiri hlutinn reyndar tekur fram að með samninganefnd er átt við nefnd sem kemur fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamninga hvort sem hún er fastanefnd eða skipuð í hverju tilviki og ákvæðið getur einnig átt við um stjórn samningsaðila. Fast er haldið við að ákveðið hlutfall þurfi í þátttöku í atkvæðagreiðslu. Kjarasamningur gildir frá undirskriftardegi nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungi atkvæða samkvæmt félagaskrá. Þarna hefur verið fallið frá því að breyta fimmtungi atkvæða í fjórðung atkvæða eins og fólst í breytingartillögum sem fram komu á tímabili í nefndinni. Eftir umfjöllun nefndarinnar var horfið frá því og varðandi leynilega póstatkvæðagreiðslu gildir nú meirihlutaniðurstaða óháð þátttökunni. Fellt er brott ákvæði sem byggði á skilyrði um hærri hlutfallstölur þegar greidd voru atkvæði um samninga eða vinnustöðvanir sem ná til hluta af félagi. Sama regla gildir því um höfnun kjarasamninga og boðun vinnustöðvana. Það eru tekin af tvímæli um heimild aðila til að kveða á um í nýjum kjarasamningi að þeir einir séu atkvæðisbærir sem samningurinn tekur til. Tekið er inn nýtt ákvæði um vinnustaðarsamninga þar sem frumvarpsgreinin um vinnustaðarfélög er felld brott og í því ákvæði felst að vinnustaðarsamningur skuli borinn sameiginlega undir atkvæði allra félagsmanna sem hann nær til og að meiri hluti ráði niðurstöðu.

    Nú skulum við koma að vinnustaðarsamningum. Er þá málið ekki harla gott úr því að búið er að falla frá því að setja lög um vinnustaðarfélög og úr því að nú á að setja lög um vinnustaðarsamninga sem hafa viðgengist? Þeir hafa viðgengist hérlendis í áraraðir og til að þeir gangi upp verður að nást sátt um þá. Hingað til hefur hvert félag yfirleitt greitt atkvæði um vinnustaðarsamning þó það hafi gerst á síðasta ári að gerður var vinnustaðarsamningur í álverinu í Straumsvík þar sem atkvæði voru greidd sameiginlega, en um það, takið eftir, náðist samkomulag milli samningsaðila. Engan veginn er ljóst hvaða afleiðingar það hefur að lögbinda sameiginlega atkvæðagreiðslu, en talið er að lítil stéttarfélög taki ekki áhættu við að fara út í vinnustaðarsamninga og viðmælendur nefndarinnar fleiri en einn tóku þannig til orða að með þessari lögbindingu mundi ekki nokkurt einasta félag þora að gera vinnustaðarsamning með VR. Menn verða bara að horfast í augu við þetta. Stórt félag mun ráða niðurstöðu vinnustaðarsamnings ef það er ráðand afl innan hópsins, hóps félaganna sem er að gera vinnustaðarsamning.

    Í 4. gr. er lögð til sú breyting að sé vinnustöðvun ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eingöngu eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað þurfi einungis fimmtungur atkvæðisbærra manna að taka þátt í atkvæðagreiðslunni í stað helmings áður. Þessar breytingar á hlutföllum eru gerðar eftir kröftuga gagnrýni, m.a. um að mjög ólík atkvæðaform séu búin að gera samningsferli ruglingslegt. Nokkrar tillögur voru búnar að koma fram í nefndinni frá meiri hlutanum til samræmingar eins og sagt var, en tóku breytingum í takt við umræður í nefndinni. Þó þarna sé talsverð tilslökun á skilyrðum frá upphaflegu frv. er það afstaða okkar, alveg eins og ég hef áður sagt og tek af öll tvímæli um, að við erum andvíg afskiptum löggjafans af því hvernig félög greiða atkvæði um vinnustöðvun og teljum að það eigi að vera á valdi félaganna að ákveða slíkt eða semja um það í frjálsum samningum. Ákvæði um að fresta boðaðri vinnustöðvun var óljóst og það var gert skýrara, en heimildin tekur ekki til yfirstandandi vinnustöðvunar hverju sinni heldur eingöngu til vinnustöðvunar sem ekki er hafin. Samninganefnd eða til þess bærum fyrirsvarsmönnum samningsaðila er jafnan heimilt að aflýsa vinnustöðvun samkvæmt frv. Þeim er jafnframt heimilt að fresta boðaðri vinnustöðvun einu sinni eða oftar um allt að 28 sólarhringa samtals án samþykkis gagnaðila, takið eftir, án samþykkis gagnaðila, enda sé það gert með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara. Þarna er búið að breyta 14 sólarhringum í 28 og eins sólarhrings fyrirvara í þriggja sólarhringa fyrirvara.

    Eins og fyrr segir er með frv. búið að gefa samninganefnd eða forsvarsmönnum samningsaðila mikið vald og þarna er komið nýtt ákvæði inn. Þess má geta að ASÍ telur að einmitt þetta ákvæði muni leiða til þess að verkfallsvopninu verði fremur beitt en ella og að um slíkt muni verkalýðsfélögin aldrei semja nema því aðeins að kjarasamningar séu í burðarliðnum og við núverandi aðstæður væri verkfalli ævinlega frestað ef þannig stæði á.

    Virðulegi forseti. Ég hef hug á því, með leyfi forseta, að vísa í athugasemd ASÍ einmitt varðandi þetta mál. En um þetta atriði segir að gert sé ráð fyrir að:

    ,,... settar verði nýjar reglur sem gjörbreyta í raun eðli verkfallsheimilda almennu stéttarfélaganna. Í niðurlags\-ákvæði er lagt til að samninganefnd eða til þess bærum fyrirsvarsmönnum samningsaðila sé jafnan heimilt að aflýsa boðaðri vinnustöðvun eins og ég hef þegar getið um. Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að verkalýðsfélögin semji um það við atvinnurekendasamböndin ef ætlunin er að fresta verkfalli lengur en í 14 sólarhringa, nú 28 sólarhringa. Tillagan lýsir þvílíku þekkingarleysi á eðli samskipta á vinnumarkaði að undrun sætir. Um slíkt munu verkalýðsfélögin aldrei semja nema því aðeins að kjarasamningur sé í burðarliðnum og við núverandi aðstæður er verkfalli ævinlega frestað ef svo stendur á. Með þessu eru félögin einfaldlega neydd til að beita verkfallsvopninu fyrr en hugsanlega hefði orðið.``

    Virðulegi forseti. Til að taka af allan vafa er bætt við nýju ákvæði um að aðilum sé ávallt heimilt sameiginlega að fresta boðaðri eða yfirstandandi vinnustöðvun og það á við það sem þeir eru að gera sameiginlega.

    Brtt. við 5. gr. frv. lýtur að því að fella brott tilvísun til fjöldauppsagna sem áður var að finna í frv. en þar sagði í síðasta málslið:

    ,,Sama gildir um fjöldauppsagnir og aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu atvinnurekenda eða launamanna sem jafna má til vinnustöðvunar.``

    Í umsögnum og af hálfu aðila sem komu á fund nefndarinnar var ítrekað bent á að í 5. gr. væri fjöldauppsögn líkt við vinnustöðvun, en gildar ástæður geta verið fyrir því að hópur starfsmanna ákveður að segja upp störfum. Ekki síst getur slíkt átt við varðandi sjómenn og hefur verið bent á að í lögum um hópuppsagnir er undanþáguákvæði varðandi sjómennina. Meiri hlutinn féllst á að breyta þessari grein, enda væri hægt að leiða rök að því að ákvæðið eins og það var í frv. bryti í bága við 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi.

    [14:30]

    Með 6. gr. er verið að færa sérlög um sáttastörf í vinnudeilum inn í lögin um stéttarfélög og vinnudeilur og felast í kaflanum 18 nýjar greinar. Nokkrar breytingar eru gerðar á upphaflegri tillögu í frv. Gert er ráð fyrir því samkvæmt lögum og samkvæmt frv. að ríkissáttasemjari sé skipaður til fjögurra ára. En í frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem gert er ráð fyrir breytingum á skipunartíma ýmissa opinberra starfsmanna og kveðið er á um fimm ára skipunartíma er lagt til að skipun ríkissáttasemjara sé til fimm ára. Í i-lið sem á við 28. gr. laganna er ákvæði sem gefur ríkissáttasemjara heimild til að leggja fram miðlunartillögu. Hann getur lagt fram eina eða fleiri tillögur í deildum félaga sem saman eiga í kjaradeilum og hann getur ákveðið sameiginlega atkvæðagreiðslu um slíka tillögu en áður en til þess kemur ber honum að hafa samráð við hlutaðeigandi samninganefndir. Haldið er fast við skilyrði frv. sem eru ný ákvæði og þau lúta að framangreindri 28. gr. laganna.

    Ég vel það, virðulegi forseti, að gera grein fyrir þessum tillögum m.a. með eigin athugasemdum vegna þess að ég geri mér grein fyrir hvað það er flókið oft og tíðum fyrir þingmenn og aðra sem á hlýða að heyra nefndarálit meiri hluta og nefndarálit minni hluta án nokkurs samhengis um hvað þetta þýðir í raun. Þess vegna hef ég valið að fara efnislega í hverja einustu grein, gera grein fyrir því hvað tillögur meiri hlutans þýða og koma svo sjálf með þær athugasemdir sem ég tel brýnt að fram komi varðandi þessar greinar. Þetta vil ég gera vegna þess að ég tel það góð vinnubrögð í svo umdeildu máli.

    En aftur til 28. gr. Þar er haldið fast við skilyrði sem eru þessi:

    a. Að viðræður hafi átt sér stað um framlagðar kröfur, þar á meðal sérmál, eða að leitað hafi verið árangurslaust eftir viðræðum í samræmi við viðræðuáætlun.

    b. Að tíma, sem ætlaður er til viðræðna milli aðila án milligöngu sáttasemjara samkvæmt viðræðuáætlun, sé lokið án þess að samningar hafi tekist.

    c. Að sáttasemjari hafi leitað sátta milli allra samningsaðila sem eiga í hlut og telji ekki horfur á samkomulagi þeirra í milli.

    d. Að samningar hafi verið lausir um tíma þannig að samningsaðilum hafi gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar.

    e. Að aðilum vinnudeilu hafi gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hugmyndir sáttasemjara sem þeim hafa verið kynntar beint eða opinberlega um að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu.

    Breytingar eru gerðar á þessari grein í samræmi við gagnrýni Lagastofnunar sem taldi að ákvæði e-liðar frv. bryti í bága við samþykkt ILO nr. 98, þ.e. ákvæði e-liðar um sameiginlega miðlunartillögu. Eftir breytinguna stendur regla núgildandi laga eftir um miðlunartillögur nema hvað kveðið er á um að þau skilyrði sem verða að vera til staðar til að sáttasemjari megi leggja slíka tillögu fram,

    Þá er einnig lögð til breyting á 31. gr. Hún hljóðar svo í frv.:

    Miðlunartillaga telst felld í atkvæðagreiðslu ef meiri hluti greiddra atkvæða, og þá minnst þriðjungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá, er mótatkvæði.

    Þarna er aftur farið í það að láta mótatkvæðin verða ráðandi.

    Í brtt. meiri hlutans felst að minnst fjórðungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá verða að vera mótatkvæði til að tillagan teljist felld í stað þriðjungs samkvæmt frv. Það eru í raun engin frekari rök bak við ákvörðun meiri hlutans um að nú skuli það vera fjórðungur í stað þriðjungs fremur en farin hefði verið sú leið að segja fimmtungur eins og í hinum breytingrtillögunum úr því að verið var að hverfa frá þessari óreglu með fjölda breytilegra atkvæðagreiðslna. Ég gerði sérstaka fyrirspurn um það hvort einhver sérstök rök væru að baki úr því að verið væri að gera þessa samræmingu. Svo er ekki. Það er bara úr þriðjungi í fjórðung. Hitt er komið niður í fimmtung.

    Í þessum sama lið þar sem lagt er til hvaða reglur skuli gilda til að fella miðlunartillögu er gert ráð fyrir að meiri hluti þeirra sem greiða atkvæði verði að vera á móti og að nei-atkvæði verði að vera fleiri en fjórðungur þeirra sem eru á atkvæðaskrá eða félagaskrá í stað þriðjungs áður. Í áliti Lagastofnunar segir um þennan lið eins og hann var í upphaflegu frv.:

    ,,Sú atkvæðaregla, sem þarna er sett, er sérstök að því leyti að miðlunartillaga gildir nema þriðjungur atkvæðisbærra felli hana. Vikið er sem sagt frá einfaldri meirihlutareglu um samþykki. Þetta veldur því að mjög torvelt verður að fella miðlunartillögu og er hætta á að það teljist ekki samrýmast rétti manna til frjálsra samninga samkvæmt alþjóðasáttmálum. Hliðstæð regla gildir í Danmörku þar sem að vísu er áskilið að 35% atkvæðisbærra manna þurfi að fella tillögu, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 599/1971, um sáttastörf í vinnudeilum. Regla þessi hefur sætt nokkuð mikilli gagnrýni í Danmörku og hefur því m.a. verið haldið fram að samkvæmt henni sé nær ógerningur að fella miðlunartillögu.``

    Hver er þá munurinn á 33% og 25% út frá þeirri röksemdafærslu að meiri hlutinn eigi að ráða og virða skuli frjálsan samningsrétt? Hver er þá munurinn með tilliti til athugasemdar Lagastofnunar háskólans? Álit Lagastofnunar var um þriðjung og hver segir að það sé í lagi með fjórðung? Hvenær er í lagi að hverfa frá einföldum meiri hluta? Hvenær er í lagi að mótatkvæði fái þyngra vægi en meðatkvæði?

    Í áliti meiri hluta félmn. er tekið fram að vegna athugasemdar frá Lagastofnun Háskóla Íslands hafi sérstaklega verið rætt um samúðarverkföll og þess vegna þykir rétt að fram komi að ekki sé verið að breyta neinu um skilning Félagsdóms sem lagður er til grundvallar nú um slík verkföll. Þetta eru meginatriði breytingartillagnanna og ótvírætt eru breytingartillögur þessar til bóta og ótvírætt að það var mikils virði að breytingartillögur sem áður komu fram í nefndinni voru dregnar til baka og nýjar breytingartillögur settar fram eftir umfjöllun. Þótt frv. hafi þannig skánað til muna stendur eftir með hvaða hætti það var lagt fram. Það stendur eftir að það er íhlutun í starfsemi stéttarfélaganna og það er eftir sem áður brotið í blað í 60 ára sögu góðra samskipta á vinnumarkaði með lagasetningu settri í blóra við vilja verkalýðsfélaganna.

    Virðulegi forseti. Eftir að hafa farið yfir breytingartillögur meiri hlutans hef ég hug á að víkja nokkuð að athugasemdum þeirra aðila sem komu á fund nefndarinnar. Ég mun á engan hátt gera þeim athugasemdum tæmandi skil heldur miklu fremur stikla á ýmsu sem fram hefur komið sem mér finnst eiga erindi inn í þessa umræðu. Má þar nefna athugasemdir frá Vélstjórafélagi Íslands. Þeim finnst ákvæði um boðun vinnustöðvunar vera mjög slæmt ákvæði og það sé ekki til þess fallið að draga úr verkföllum. Þeir benda á að þeir séu með 2000 félaga og þeir hafi fjórum sinnum boðað vinnustöðvun. Þeir bera sig saman við kennarafélögin sem hafa verið með allt að árleg verkföll eins og þeir orða það, en þau ákvæði sem verið er að setja í lög með þessu frv. eru einmitt ákvæði úr opinbera geiranum sem ekki hafa reynst vel.

    Það kom einnig fram hjá fulltrúum sem mættu á fund félmn. að menn mundu verða með heimild til verkfalls undir koddanum. Þeir bentu á að samninganefnd geti framselt samningsréttinn en það sé ekkert kveðið á um hvernig samninganefndir séu samsettar. Þeir benda á dæmi um að félag gæti verið með 30 kröfur, verið með verkfallsheimild. Þeir fá tvær kröfur sínar uppfylltar og nýta auðvitað heimildina sem þeir liggja með.

    Það er bent á að samningar séu lausir um áramót. Þar með ætti að setja viðræðufundi á um miðjan nóvember miðað við gerð viðræðuáætlana og það mun ekki hvarfla að nokkrum manni að byrja samninga á undan ASÍ.

    Virðulegi forseti. Í nefndaráliti minni hlutans er fjallað um félagafrelsið og ég hef hug á því að fara nokkrum orðum um 5. gr. félagsmálasáttmála Evrópu um rétt til að stofna félög. ,,Í því skyni að tryggja og stuðla að frelsi verkafólks og vinnuveitenda til að stofna staðbundin félög, landsfélög eða fjölþjóðleg sambönd til að gæta hagsmuna þeirra á sviði efnahags- og félagsmála og til að ganga í slík félög skuldbinda samningsaðilar sig til að sjá um að landslög skerði ekki það frelsi né að þeim verði beitt til að skerða það. Í 6. gr. segir um réttinn til að semja sameiginlega að aðilar skuldbindi sig til:

    1. að stuðla að sameiginlegum viðræðum milli verkafólks og vinnuveitenda,

    2. að stuðla að frjálsum samningaumleitunum milli vinnuveitenda eða vinnuveitendafélaga og verkalýðsfélaga, þegar nauðsynlegt er eða við á, í þeim tilgangi að ákvarða laun og vinnuskilyrði með heildarsamningum,

    3. að stuðla að stofnun og notkun viðeigandi sáttafyrirkomulags og gerðardóma eftir samkomulagi við lausn vinnudeilna, og viðurkenna

    4. rétt verkafólks og vinnuveitenda á sameiginlegum aðgerðum, þegar hagsmunaárekstrar verða, þar á meðal verkfallsrétti, með þeim takmörkunum sem til kynnu að koma vegna gerðra heildarsamninga.

    Í samþykktum ILO nr. 87 segir að félög verkamanna skuli eiga rétt á að setja sér lög og reglur og vera algerlega óháð við að skipuleggja stjórn sína og starfsemi og setja sér stefnuskrá. Þar er tekið af skarið um að opinber stjórnvöld skuli forðast alla íhlutun er skerða mundi þennan rétt eða hindra löglega beitingu hans.``

    Virðulegi forseti. Í umræðum um þessa lagasetningu hefur mjög verið vísað til Danmerkur og til umræðu hérlendis um góð kjör í Danmörku. Þess vegna hljóti markmiðið að vera að setja lög samkvæmt þarlendum vinnubrögðum og bæta kjör á Íslandi. Hins vegar setur Alþýðusambandið fram harða gagnrýni á ýmislegt í frv. sem lýtur að svipuðum ákvæðum og gilda í Danmörku. Reyndar er það svo að í Danmörku eru bara lög um sáttasemjara, ekkert annað. En þau lög eru lög vinnumarkaðarins. Menn hafa leitað þar lausna án þess að löggjafinn hafi blandað sér í málin. Umræða í Danmörku er hins vegar á þann veg nú að atkvæðagreiðslur um miðlunartillögur þykja ólýðræðislegar og það er mikil óánægja þar með að 70% meðatkvæðaþátttöku þurfi til að fella.

    Virðulegi forseti. Á sl. hausti var rætt um að færa hlutfall í 40% meðatkvæða, en danska alþýðusambandið gerði þá samþykkt á þingi sínu í október að einfaldur meiri hluti eigi að ráða og var ekki tilbúið til að fallast á breytingar. Hvers vegna treysti danska Alþýðusambandið sér til að standa gegn 40% gólfi sem samningsniðurstöðu? Það er vegna þess að á danska þinginu og í ríkisstjórninni er stuðningur við að einfaldur meiri hluti eigi að ríkja í slíkum atkvæðagreiðslum. Aftur og aftur hefur verið bent á að allt í Danmörku sé byggt á sátt, meira að segja lögin um sáttasemjara og þess vegna sé út í hött að álykta að lagasetning hérlendis geti haft sömu áhrif og þróaðar vinnureglur þar.

    Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu viðhorfum mínum varðandi frv., breytingartillögur og vinnu félmn. við það frv. sem hér er til umræðu. Margt fleira liggur mér á hjarta svo sem eins og fara nánar í ýmsar alþjóðasamþykktir. Ég ætla ekki að gera það að sinni. Ég mun skoða það hvort ég mun koma að þessu máli síðar í umræðunni. En ég vil gera lokaorðin í nefndaráliti okkar að mínum lokaorðum en þau eru þessi:

    ,,Samskipti stéttarfélaga og viðsemjenda þeirra eiga að ráðast í frjálsum samningum og án óþarfrar íhlutunar stjórnvalds. Þar er samráð og samvinna ásamt virðingu við réttindi og skyldur aðila besta leiðin til að tryggja frið, bætt kjör og betri rekstur jafnt almennra fyrirtækja sem ríkisstofnana.``