Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 16:19:31 (6361)

1996-05-21 16:19:31# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[16:19]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég á við með þessari fullyrðingu, eða þessum getgátum skulum við kannski segja, er að mér finnst margt benda til þess að hinar almennu reglur og hin almennu lög sem eru umgerð vinnumarkaðar og réttindakerfanna verði einsleitari, verði hin sömu yfir vinnumarkaðinn. Þannig hefur það t.d. verið sjónarmið innan samtaka opinberra starfsmanna og á það við bæði um BHMR, BSRB og Kennarasamtökin, að það sé eðlilegt að svipaðar reglur gildi um verkfallsrétt, boðun verkfalla og þar fram eftir götunum í opinbera kerfinu og á opnum launamarkaði. Einnig hafa þessi samtök öll haft það sjónarmið að það eigi að leita leiða til að tryggja að allir landsmenn búi við svipuð réttindi varðandi fæðingarorlof, veikindaréttindi og réttindamál almennt, lífeyrisréttindi, en slagurinn hefur staðið um það á hvern hátt þessi samræming eigi sér stað. Og þar standa menn fast í því ístaðinu að vilja tryggja að þessi samræming verði ekki til þess að skerða réttindi hjá þeim sem hafa þau ívið skárri, heldur bæta þau hjá þeim sem lakar standa.

Hitt vil ég taka undir með hv. þm., Kristínu Ástgeirsdóttur, að það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að þær breytingar sem verið er að gera bæði hér á landi og víðar samkvæmt nýsjálenskri fyrirmynd leiði því miður til aukins launamunar. Ég tek undir það.