Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 16:53:10 (6367)

1996-05-21 16:53:10# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[16:53]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Tillögur ríkisstjórnarinnar eru ekki samkvæmt forskrift úr Garðastrætinu. Ég leyfi mér að fullyrða það. Ég veit líka að hv. þm. þekkir þá það vel í Garðastrætinu og þeirra hugmyndir að hann sér að þetta er ekki rétt. Hins vegar eru ýmsir hlutir í frv. sem þeir eru ánægðir með. Þess vegna hafa þeir tekið þá afstöðu að vera ekkert að andskotast á mér enda er nú nóg að hafa ASÍ-hliðina. Ég tel að ríkisstjórnin sé ekkert að klúðra þessu máli. Við erum að leiða þetta mál til farsælla lykta. Það er ekki verið að þvinga fólk. Ég ansa því ekki að það sé verið að þvinga fólk til að taka þátt í atkvæðagreiðslu. Mér finnst það eðlilegur réttur fólks að því gefist kostur á að taka þátt í meginákvörðunum um kjaramál. Mér finnst það ekkert ofboðslegur þröskuldur fyrir stjórn og trúnaðarmannaráð sem vill koma á verkfalli eða vill fara í verkfall þótt 10,1% af félagsmönnum þurfi að samþykkja að fara í verkfall. Svona mætti lengi telja.

Varðandi fundina í Austurbæjarbíói er það út af fyrir sig myndarlegt að hafa stemmningarfundi og baráttufundi í Austurbæjarbíói. Stundum hafa verið þar jafnvel 600--800 manns. En það eru fáir fundir svo fjölsóttir. (Gripið fram í.) Hv. þm., þegar við hv. 3. þm. Norðurl. v. keppum í prófkjöri er það gert með lýðræðislegum hætti og mikilli þátttöku. (Forseti hringir.) Herra forseti. Á ég að skilja það svo að tími minn sé búinn?

(Forseti (ÓE): Tíminn er búinn.)