Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 17:02:01 (6373)

1996-05-21 17:02:01# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[17:02]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað verður að spyrja að leikslokum. En það er samt harmsefni þegar menn lenda í stöðu eins og hæstv. félmrh. í þessu alvarlega máli sem hér er uppi. Það er eins og hann sé sleginn blindu. Þar sem eru þúsundir þar sér hann tvo eða þrjá menn. Þar sem verið er að beita fólk kúgunarbrögðum, segir hann: ,,Það er verið að auka lýðræðið.`` Þegar hann leggur spurningar fyrir skoðanakönnunarstofnanir þá eru spurningarnar: ,,Er ekki fólk ánægt með mig af því að ég er svo góður?`` Á alþýðusambandsþinginu í dag var frv. hæstv. félmrh. ekki kallað aukið lýðræði heldur sérkennileg tegund af lýðræði, gangnakofalýðræði, og sagt að hér væri verið að innleiða þá tegund af lýðræði sem ríkti í gangnakofum. Ég þekki það ekki en ég er fullviss um það, hæstv. forseti, og ég harma það, að hæstv. félmrh. er á rangri leið. Hann er að villast inni á þessum heiðum inn í þessa gangnakofa sem hann virðist vilja fara í um þessar mundir. Spurningin er: Er hann með öllu þessu, hæstv. forseti, þegar upp er staðið, að borga fyrir ráðherrastólinn?