Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 17:07:21 (6377)

1996-05-21 17:07:21# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[17:07]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í mínum huga eru það hótanir þegar látið er að því liggja að menn eigi nú bara að vera ánægðir með það sem þeir fá vegna þess að þeir hefðu getað fengið miklu verra. Það fylgir jafnan þessum orðum hæstv. ráðherra eitthvað sem snýst um skyldugreiðslur, neikvætt félagafrelsi og um forgangsréttarákvæði kjarasamninga. Það vita allir að hverju er verið að ýja með þessum orðum, herra forseti.

Ég er ekki hörundsár, herra forseti, það er langt því frá. Það eru hins vegar takmörk fyrir því undir hverju er hægt að sitja hér þegjandi. Mér þykir tónninn í ræðu hæstv. ráðherrans hér áðan sem og kannski oft áður og jafnvel meir nú en oft áður, vera þannig að ég tel fyllilega vera ástæðu til að svara því og það á ekkert skylt við það að vera hörundsár.

Ég vil enn og aftur ítreka að hæstv. félmrh. talaði um að það yrði orðið við því að greiða undir fulltrúa launafólks á Alþjóðavinnumálaþingið. Það er ekkert að verða við, það er skylda. Þessi fulltrúi launafólks og samtaka þeirra er þar af leiðandi ekki að þiggja neina ölmusu af hæstv. ráðherranum.