Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 17:09:41 (6379)

1996-05-21 17:09:41# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GÁ
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[17:09]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil leggja nokkur orð í belg um þetta stóra mál. Ég tel að við séum að ræða hér eitt af stærstu málum þessa þings, stéttarfélög og vinnudeilur. Við höfum verið með annað stórt mál sem snýr að verkalýðshreyfingunni fyrir þinginu í vetur um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Hvort tveggja eru þetta viðamikil mál og viðkvæm og þess vegna vandmeðfarin að mínu viti í þinginu.

Þetta mál sem við ræðum í dag hefur haft lengri aðdraganda og búið er að sitja yfir því lengur með þeim aðilum sem málið varðar þó því miður væri höggvið á þær viðræður. Stéttarfélög launafólks eru í mínum huga mikilvægustu félög í landinu, svona á eftir stjórnmálaflokkunum, og þau eiga stærstan þátt í því jafnræðis- og velmegunarþjóðfélagi sem hér hefur verið byggt upp á lýðveldistímanum. Ég virði verkalýðshreyfinguna mikils og tel reyndar að hún megi ekki vera veik eða vanmáttug. Hún þarf að hafa fullan styrk á við atvinnurekendavaldið í landinu, annars er hætta á ferðum. Því miður ríkir nú um sinn nokkur sundrung innan verkalýðshreyfingarinnar sem vonandi heyrir skjótt sögunni til. Verkalýðshreyfingin á stærstan þátt í þeim stöðugleika sem ríkt hefur hér á landi síðustu fimm til sex ár. Þjóðarsáttarsamningarnir hefðu aldrei verið gerðir nema af því að þá tókst að mynda það mikilvæga samstarf sem allir aðilar komu að, þ.e. ríkisvaldið, verkalýðshreyfingin og atvinnurekendasamtökin svo og forustumenn bænda. Ég tel að hér verði erfitt að stjórna ef þessir stóru aðilar ekki eiga með sér gott samstarf og trúnaður ríki. Ég óttast t.d. að VSÍ megi gæta sín og að sú ákvörðun aðalfundar á dögunum að fara allt öðruvísi með ágreiningsatriði við lok kjarasamninga en gert hefur verið hingað til, boði ekki gott, eins og farið hefur verið með það í sátt eftir að kjarasamningum hefur verið lokið á undanförnum, ja ég vil segja, áratugum. Mér heyri þarna harðnandi tón sem ég óttast og svo hitt að þeir boða enn fremur að þeir muni safna peningum í sjóði. Það er eins og menn séu hér að boða það að verkföll séu fram undan sem ég teldi að væri stórslys fyrir íslenska þjóð miðað við þær aðstæður sem nú ríkja í landinu. Ég er sannfærður um að út úr slíkum átökum mundi enginn fara verr en láglaunamaðurinn á Íslandi. Ég tel brýnna en fyrr að sátt ríki og nýir þjóðarsáttarsamningar náist og þá um kjarabætur þeim til handa sem við lökustu kjörin búa. Ég vildi sannarlega að þau orð hæstv. félmrh. rættust að þetta frv. hefði það í för með sér að það næðust fram kjarabætur handa lægst launaða fólkinu.

Hér eru lægstu laun allt of lág og langt undir framfærslu. Því verður ríkisvaldið og aðilar vinnumarkaðarins að vera í góðu samstarfi um þetta mikla verkefni. Ég tel þær hugmyndir sem nú heyrast frá ASÍ um fimm ára áætlun þar sem íslenskir launþegar næðu kjörum starfssystkina í nálægum löndum mjög skynsamlegar. Sannleikurinn er sá að íslensk verkalýðshreyfing er þannig stödd að hún á erfitt með að beita verkfallsvopninu. Fáir hafa efni á vinnutapi. Þar eiga skuldir heimilanna hlut að máli sem eru eitt mesta áhyggjuefni seinni tíma. Svo má segja, og það er mín skoðun, að með tilkomu kreditkortanna þar sem menn skuldsetja meira og meira inn á framtíðina hafi verkalýðshreyfingin á vissan hátt fórnað verkfallsvopninu. Hún á erfiðara með að beita því eftir að þetta kom til hér í landinu.

Þetta mál sem við ræðum í dag hefur því miður valdið róti og boðar deilur milli ríkisvaldsins og verkalýðshreyfingarinnar. Þó er það ljóst að þegar menn settust yfir þetta stóra mál haustið 1994 þá voru aðilar sammála um að það þyrfti að endurskoða vinnulöggjöfina. Eins og hér hefur margkomið fram hafa verið haldnir margir fundir um þetta mál. En ég vil samt sem áður harma málsmeðferðina og hvernig þetta mál hefur þróast á síðustu mánuðum. Ég ætla ekki að kenna einum aðila um það. Stjórnarandstaðan á sinn hlut að því máli því hún vill deilur og átök. Hún vill pólitískt fjör í landinu. Ég veit að hæstv. félmrh. og ríkisstjórnin eiga sinn hlut að þessu máli. En ég tel líka að verkalýðshreyfingin eigi sinn hlut að því hvernig þetta mál þróaðist. Allir aðilar bera þar því nokkra ábyrgð.

Ég fagna því að hæstv. félmrh. lýsti því strax yfir þegar hann sýndi þetta frv. að hann væri tilbúinn bæði til viðræðna og að hlusta á rök um breytingar. Ég heyrði ekki betur en hv. 5. þm. Vesturl. hafi verið að segja frá því hér í dag að margar góðar breytingartillögur væru komnar fram við frv., alla vega að verstu eiturbroddarnir væru farnir úr frv. eins og hv. þm. orðaði það. Mér heyrðist að hv. þm. berði sjálfum sér á brjóst og þakkaði sér og stjórnarandstöðunni það. (Gripið fram í: Er það þér að þakka?) Já, ég á minn hluta af því. Við gagnrýndum þetta mál eðlilega í Framsfl. við hæstv. félmrh. Ég tel að þær breytingartillögur sem komnar eru fram við málið geri það betra, a.m.k. styð ég þessar breytingartillögur sem eru komnar fram. Ég vil nefna t.d. um vinnustaðarfélögin að í stað þeirra er nú kveðið á um vinnustaðarsamninga. Ég óttaðist vinnustaðarfélögin. Ég óttaðist að verkalýðshreyfingin á Íslandi yrði veikt ef þessi leið yrði farin þannig að þetta tel ég til bóta. Eins er búið að fara yfir lækkun þátttökulágmarks, þröskuldana svonefndu. Ég tel það einnig til bóta. Ég vil líka taka fram að ég óttaðist það mikla vald sem ríkissáttasemjara var gefið í upphaflegu frv. Nú hefur verið horfið til fyrra fyrirkomulags. Þetta tel ég einnig til bóta. Eigi að síður var ég talsmaður þess í Framsfl. að menn reyndu til þrautar að ná samkomulagi um málið, t.d. í sumar með aðilum vinnumarkaðarins því mig grunar að það sé nú svo að það sé fyrst og fremst málsmeðferðin, hraðinn, sem skilur okkur að í þessu máli.

[17:15]

Örfá atriði til viðbótar, hv. þm., enda er ég sannfærður um að ef menn hefðu ekki lokað sig af hver í sínu horni og viljað ræða þetta mál áfram hefði það verið lagað meira til. Ef hæstv. félmrh. hefði fengið verkalýðshreyfinguna til samstarfs við sig áfram til loka þessa máls, er ég viss um að það hefði enn batnað og ýmsir þeir hnökrar sem menn eru ósáttir við horfið úr frv.

Ég vil nefna eitt atriði sem mína skoðun. Ég er ekki sannfærður um að það atriði sem snýr að verkfallsboðun og trúnaðarmannaráðunum, að veikja þau, sé rétt leið. Ég hefði talið rétt að kanna eða gera samanburð á þeirri leið að halda áfram valdi trúnaðarmannaráða og þau færu með verkfallsréttinn eftir að þau hefðu fengið hann, að bera það saman við hina leiðina þar sem menn fá samþykktan verkfallsdag og ganga svo hiklaust til verkfalls. Ég held að það hefði verið skynsamlegra að halda trúnaðarmannaráðunum áfram inni.

Ég ætla ekki að lengja mitt mál meira. Ég lýsi því yfir að mér finnst málið hafi batnað í meðförum þingsins. Ég harma að menn skyldu fælast með þessum hætti í allar áttir í svo mikilvægu máli. Ég óttast að þetta mundi hafa einhverjar afleiðingar í för með sér. Það tel ég skaða því að sannleikurinn er sá að við núverandi aðstæður í íslensku þjóðfélagi blasa við nýir og betri tímar. Við sjáum að atvinnuauglýsingarnar sjást orðið í blöðunum á ný og mig minnir að ég hafi séð eitt Morgunblað á dögunum með 140 auglýsingum í einu blaði. Hagvöxtur er kominn og fyrirtækin eru að byrja að fjárfesta þannig að ég tel að við eigum möguleika um næstu áramót ef friður ríkir á Íslandi að ganga ekki síst til þess að bæta kjör þess fólks sem hér býr við óafsakanleg kjör. Þetta skulu vera mín lokaorð, hæstv. forseti.