Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 17:32:42 (6388)

1996-05-21 17:32:42# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[17:32]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Guðna Ágústssyni að það sé hlutverk stjórnarandstöðu að standa fyrir deilum á Alþingi eins og skilja mátti á hans máli og reyndar er það svo að hér er verið að samþykkja hvert frv. á fætur öðru án þess að um það ríki nokkrar illdeilur. Við deildum að vísu um það við 2. umr. hvort það ætti að meina landsmönnum að setja tóbakskorn í vörina og ég held að við höfum verið á sama máli þar, ég og hv. þm. Guðni Ágústsson.

Ég kem upp til að lýsa því yfir að ég er mjög sáttur við þann tón sem var í hans ræðu. Hins vegar er það rangt sem fram kom í máli hans að í þessu atriði varðandi frv. um stéttarfélög og vinnudeilur hafi menn fælst í allar áttir. Menn vildu fara í tvær ólíkar áttir. Annars vegar var það verkalýðshreyfingin sem var sammála hv. þm. Guðna Ágústssyni um að taka bæri frv. út af borðinu og ræða það í sumar og freista þess að ná sáttum um málið. Hins vegar voru það samtök atvinnurekenda sem kröfðust þess að ríkisstjórnin keyrði frv. í gegn. Hv. þm. Guðni Ágústsson harmaði það að menn hefðu rokið upp frá þessu borði. Hver var það sem rauk upp frá þessu borði? Það var hæstv. félmrh., Páll Pétursson, sem stóð upp frá viðræðuborðinu og er að reyna að þröngva frv. í gegnum þingið að boði atvinnurekenda. Þetta er staðreynd málsins.