Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 18:33:31 (6395)

1996-05-21 18:33:31# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[18:33]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast nú ekki við að hafa verið með neinar ásakanir á hendur verkalýðshreyfingunni. Ég einfaldlega upplýsti, eins og margoft hefur komið hér fram, að þetta hófst með því að hæstv. þáv. félmrh., Guðmundur Árni Stefánsson, skipaði nefnd sem átti að fara yfir vinnureglur markaðarins. Þar að borði komu þessir þrír aðilar í svonefndum þríhliða viðræðum. Þær viðræður höfðu staðið yfir í tvö ár þangað til verkalýðshreyfingin hætti að taka þátt í viðræðunum. Ég ætla ekkert að segja nákvæmlega hvers vegna þeir hættu, en þetta er samt sem áður staðreynd.

Ég sagði jafnframt að ég harmaði að það skyldi hafa þurft að fara svo. Ég hefði talið mun æskilegra að það hefði orðið samráð um þessi mál heldur en að það hefði þurft að fara í einhvern hnút. En eins og hv. þm. kom inn á er það auðvitað markmið aðila vinnumarkaðarins að halda jafnvægi og stöðugleika þannig að hægt sé að halda uppi kaupmætti launa. Ég lít á það sem eitt af hlutverkum verkalýðshreyfingarinnar að reyna það. Það hefur verkalýðshreyfingin gert með hóflegum launakröfum þegar á þurfti að halda. En að sjálfsögðu er það síðan meginmarkmið verkalýðshreyfingarinnar að halda uppi launum og góðum kaupmætti sem helst náttúrlega í hendur.