Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 21:28:06 (6398)

1996-05-21 21:28:06# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[21:28]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem liggur fyrir er hluti af heildarstefnu hæstv. ríkisstjórnar gagnvart samtökum launafólks í landinu. Eimitt þessa stundina var að ljúka fundi í efh.- og viðskn. þar sem þrjú lögfræðiálit um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna lágu fyrir og það átti að taka málið út úr nefndinni án þess að mönnum gæfist tóm til að lesa þau. Þessu mótmælti stjórnarandstaðan og þess vegna var fundinum frestað í klukkutíma. Þetta sýnir betur en margt annað við hvaða aðstæður stjórnarandstaðan býr í þessari virðulegu stofnun að það var ekki fyrr en við gerðum kröfu um veruleg fundarhöld að menn féllust á að halda málinu áfram í viðkomandi nefnd. Þannig hafa málin verið rekin í þinginu af stjórnarmeirihlutanum og alveg sérstaklega í efh.- og viðskn., reyndar af ótrúlegu offorsi. Ég tek reyndar fram að ég tel eftir því sem mér sýnist að þessi nefnd sé verri en aðrar nefndir vegna þess að maður heyrir ekki svipaða sagnfræði úr öðrum þingnefndum eins og um er að ræða í hv. efh.- og viðskn. undir forustu hv. 5. þm. Norðurl. v. Vilhjálms Egilssonar.

Þetta mál hefur reyndar verið á döfinni um nokkurt skeið. Það eru tveir mánuðir síðan við fórum að ræða þetta í þessari stofnun. Það er tveir mánuðir síðan umræður hófust um það að kannski væri þetta mál að koma. Miklar umræður voru um fundarstjórn forseta, utandagskrárumræður og fleira um að þessi mál væru að fara af stað. Það var ekki fyrr en í febrúar eða mars sem ríkisstjórnin áttaði sig á því að hún yrði að taka þessi mál í gegnum þingið. Það var ekki fyrr en þá að hún sá ljósið. Þá var ákveðið að kýla þessi mál í gegnum þingið með góðu eða illu, illu alveg eins og góðu. Þá var náttúrlega byrjað á því eins og venjulega hjá hæstv. ríkisstjórn að leggja málið ekki fyrir þessa virðulegu stofnun sem þó er löggjafarþing þjóðarinnar heldur fyrir blaðamannafund. Hæstv. félmrh. lagði málið fyrir blaðamannafund. Það gerðist 19. mars sl. þar sem hann gerði grein fyrir þeim mikla fögnuði sem væri nú búinn verkalýðshreyfingunni í landinu. Í framhaldi af því og kynningu hans af málinu í hæstv. ríkisstjórn tókum við málið upp í hv. Alþingi. Á fundi Alþingis 20. mars sl. kvöddum við okkur hljóðs utan dagskrár í umræðum um störf þingsins, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og fleiri þingmenn. Þar komst ég þannig að orði að með því að það ætti að taka þetta mál í gegnum þingið þá væri verið að segja í sundur friðinn á Alþingi. Segja í sundur friðinn í þjóðfélaginu með þessum málum. Ég tók eftir því að margir mætir menn höfðu nákvæmlega sömu setningu fljótlega upp úr því þannig að mjög kvað þarna við einn róm af hálfu stjórnarandstöðunnar eins og hefur reyndar jafnan verið í málinu. Kannski er rétt að rifja það upp að þegar umræðurnar um þessi mál hófust sagði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson: Ja, hann er mikill afreksmaður, hann hæstv. félmrh., hann Páll Pétursson, sá ágæti bóndi og þingmaður. Þetta þótti fyndið og satt að segja hefur Sighvatur verið með allra skemmtilegustu mönnum í seinni tíð en þó aðallega eftir að hann hætti að vera ráðherra í síðustu ríkisstjórn. Sighvatur sagði: Hæstv. ráðherra, Páli Péturssyni, hefur tekist að sameina stjórnarandstöðuna og sameina verkalýðshreyfinguna. Þetta fannst mönnum fyndið. Þetta er nefnilega veruleikinn. Staðreyndin er auðvitað sú að andspænis þessum árásum á kjör alþýðunnar í landinu sem hafa birst frá hæstv. ríkisstjórn á undanförnum vikum og mánuðum hefur verið betri samstaða í stjórnarandstöðuliðinu en áður hefur verið. Það er út af fyrir sig athyglisvert því að þetta eru ólíkir stjórnmálaflokkar. Það hefur líka verið betri samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar. Það kveður svo rammt að því að við setningu alþýðusambandsþingsins í gærkvöldi sögðu bæði forseti ASÍ og BSRB að nú væri sennilega skynsamlegast að láta þessar hreyfingar einhvern tímann í fyllingu tímans renna saman. Hefðu satt best að segja fáir látið sér detta það í hug að það yrði nefnt í upphafi þings Alþýðusambands Íslands fyrir nokkrum árum svo ég tiltaki enga nákvæma tölu í þeim efnum. Það er því tilfellið að menn hafa brugðist við af mikilli hörku og mjög sterkri samstöðu. Verkalýðshreyfingin í landinu og stjórnarandstaðan líka.

Þegar stéttarfélagsfrv. var vísað til nefndar urðu heldur betur söguleg tíðindi í þessari stofnun vegna þess að þá var því vísað til nefndar með öllum atkvæðum viðstaddra hér gegn einu. Það var hv. þm. Ögmundur Jónasson. Hann var skilinn eftir á vakt til að tryggja að menn fylgdu almennilega þingsköpum og réttum reglum í þessari stofnun. Stjórnarandstæðingar gengu á dyr og sögðu sem svo: Það er best að stjórnarliðið beri ábyrgð á þessari ófreskju, dragi sinn skratta sjálft. Niðurstaðan varð með öðrum orðum sú að strax í upphafi, bæði þegar málið var kynnt á blaðamannafundi og þegar málið var kynnt í ríkisstjórn og þegar málið var tekið fyrir hér mættu þessu máli óvenjulega harðar viðtökur. Ég er nokkurn veginn viss um það, hæstv. forseti, að hæstv. félmrh. og hæstv. ríkisstjórn veltu því fyrir sér hvort þessar viðtökur væru með þeim hætti að ástæða væri til að hlusta á þær að einhverju leyti. Niðurstaða þeirra var sú að gera það ekki. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar var sú þrátt fyrir skýrar viðvaranir okkar að taka ekki mark á stjórnarandstöðunni. Niðurstaða hæstv. félmrh. hefur verið sú að taka ekki mark á verkalýðshreyfingunni. Hann talar með lítilsvirðingu um verkalýðsforkólfana sem máli sig út í horn og þar sem eru þúsundir manna saman komnar á Lækjatorgi segir hann að tveir, þrír menn séu að umla á Lækjartorgi. Það er ótrúlegt hvað hæstv. núv. félmrh. hefur sýnt verkalýðshreyfingunni mikið virðingarleysi sem er örugglega vegna þess að hann metur hana lítils. Hann gerir sér að vísu grein fyrir því eins og góðum bónda sæmir að vinnufólk er til einhvers, það þarf að vera til í heyskapinn, í slátrunina í sauðburðinn, í hirðinguna að vetrinum. En það á hins vegar ekki að ráða mjög miklu, þar er það bóndinn sjálfur sem ræður. Þar er það bóndinn sjálfur sem ræður því hvernig háttað er einstökum atriðum í rekstri búskaparins. Mér finnst satt að segja að það komi mjög greinilega fram hjá hæstv. félmrh. skortur á skilningi á þýðingu og mér liggur við að segja á tilfinningum verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Það er að vísu ekki nýtt þegar Framsfl. og Sjálfstfl. hittast. Það hefur reyndar alltaf verið þannig að þegar þeir hafa runnið saman hafa einlægt farið af stað illindi gagnvart verkalýðshreyfingunni á Íslandi.

Ég hélt að hæstv. ráðherra Páll Pétursson væri ekki búinn að gleyma útreiðinni sem Framsfl. fékk vorið 1978. En þar var fyrst og fremst um það að ræða að Framsfl. var að súpa seyðið af árásum og atlögu að verkalýðshreyfingunni í landinu mjög hörðum árásum á verkalýðshreyfinguna í landinu og Framsfl. varð þá minni en hann hefur nokkurn tímann áður orðið eftir að hann komst á blað að einhverju marki í íslenskum stjórnmálum. En það virðist vera þannig að hæstv. félmrh. og hæstv. utanrrh., sem ræður sennilega þessari för því ég vil ekki ætla hæstv. félmrh. að móta þessi ósköp, þennan hroða, hafi algjörlega gleymt þessum tíma. Framsfl. var svo að segja afskrifaður í íslenskum stjórnmálum vorið 1978 eftir það hvernig hann hagaði sér ásamt íhaldinu gagnvart verkalýðshreyfingunni í landinu. Það er fróðlegt til umhugsunar að staðan skuli vera þannig að menn skuli aftur vera lagðir af stað inn á þessa braut á móti samtökum launafólks. Ég átti á árunum 1978 til 1983 mjög gott samstarf og ágætar viðræður við ýmsa forustumenn Framsfl. sem ég mat og met mikils. Þeir voru allir sammála um það að það hefði orðið Framsfl. fyrst og fremst fjötur um fót í kosningunum 1978 að menn hefðu ekki sýnt verkalýðshreyfingunni nægilega ræktarsemi. Ég bendi á það, hæstv. forseti, að í lögunum, Ólafslögum sem voru kennd við formann Framsfl. og voru sett 1979, er einstæður kafli um samráð og samvinnu við samtök launafólks í landinu. Hver ætli hafi beitt sér fyrir því að sá kafli kom inn í þessi lög um efnahagslög? Hver ætli hafi beitt sér fyrir því nema Ólafur Jóhannesson, þáverandi formaður Framsfl.? Það er því augljóst mál að þáverandi forustumenn Framsfl. töldu að þarna hefði flokknum orðið á, þeim sjálfum. Nú er kominn hópur af nýjum þingmönnum Framsfl. inn í þessa stofnun. Þeir voru ekki með í stríðinu á þeim tíma og þekkja það sjálfsagt ekki. Þó er einn og einn maður eins og hæstv. félmrh. og hæstv. forseti, Guðni Ágústsson sem þekkja þessa hörmungarsögu og eru örugglega innst inni í vandræðum með að samsama veruleikann, sem þeir standa í í dag, við eigin tilfinningar. Örugglega hvað sem þeir segja þá er það þannig. Ég segi það af því að ég þekki þessa menn báða að góðu.

Þegar núv. ríkisstjórn var mynduð man ég eftir því að forustumenn flokkanna voru allir beðnir um að segja hvað þeir segðu um þessa stjórn. Ég man vel eftir því hvað menn sögðu. Menn sögðu hluti sem lágu flestir eiginlega í augum uppi. Flestir forustumenn Alþfl. sögðu nánast að þeir væru spældir yfir að hafa tapað ráðherrastólum. En ég man þó eftir að varaformaður Alþfl., Guðmundur Árni Stefánsson, hv. þm., fyrrv. hæstv. ráðherra, sagði að það hættulega við þessa stjórn væri það að hún mundi lenda upp á kant við verkalýðshreyfinguna mjög fljótt. Ég man þegar hann sagði þetta vegna þess að mér fannst að þetta væri eins og hljómur aftan úr liðnum tíma sem kæmi kannski ekki aftur og að Framsfl. hefði væntanlega lært eitthvað á hruninu 1978. En þessi setning hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar hefur aftur og aftur rifjast upp fyrir mér á undanförnum dögum þegar það er að koma í ljós að Framsfl. og Sjálfstfl. lenda í nákvæmlega sömu hremmingunum gagnvart verkalýðshreyfingunni á Íslandi og þeir gerðu 1978. Nákvæmlega sömu hremmingunum. Í ummælum þeirra um verkalýðsforustuna kemur fram nákvæmlega sama skilningsleysið. Verkalýðsforkólfarnir mála sig út í horn. Tveir, þrír á Lækjartorgi.

[21:45]

Það var táknrænn og eftirminnilegur viðburður sem átti sér stað í dag. Það var ákveðið að þing Alþýðusamband Íslands kæmi saman á Austurvelli. (Gripið fram í.) (SF: Ég var einmitt að hugsa um að sleppa þessu.) Hv. þm. áttar sig greinilega ekki á því til hvers þessi gleraugu eru notuð. Hélt fund, alþýðusambandsþing, hér út á Austurvelli. Það hefur aldrei verið gert áður. Mér verður þessi atburður örugglega mjög lengi í minni. Það var mjög sterk samstaðan í fulltrúaliði alþýðusambandsþingsins. Þar var einróma gerð samþykkt sem var komið með hingað og forseti Alþýðusambandsins, Benedikt Davíðsson, sagði hér við útidyrnar að það yrði meiri háttar slys ef þetta yrði samþykkt. Hann, eins og allir forustumenn verkalýðshreyfingarinnar að undanförnu, bauð upp á hvorki meira né minna en það að farið yrði í viðræður um þessi mál. Eins og hv. 2. þm. Suðurl. vill að verði gert en má sig hvergi hræra fyrir ofureflinu í þingflokki Framsfl. Forseti Alþýðusambandsins, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og aðrir forustumenn í stéttarfélögunum hafa boðið upp á viðræður um starfsrammann. Þeir segja: Lögin eru gölluð og þau má skoða. Formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja gengur meira að segja svo langt að segja það þurfi að fara í þá vinnu að samræma þann lagaramma sem gildir um opinbera vinnumarkaðinn og einkavinnumarkaðinn. Ég tel að þarna sé um að ræða rausnarlegt tilboð af hálfu leiðtoga þessara fjölmennu samtaka. Þegar við sendum frá okkur viðvaranir var ákveðið að hlusta ekki á okkur. Alveg eins er það núna, það er ákveðið að hlusta ekki á verkalýðsforustuna, hlusta ekki á verkalýðshreyfinguna og taka ekki mark á því sem hún er að segja. Forseti Alþýðusambandsins sagði reyndar hér í dag að ef þessi frv. yrðu samþykkt væri það meiri háttar móðgun við þjóðina í heild ef Alþingi tæki ekki mark á þeim ákvörðunum og áskorunum sem komu frá Alþýðusambandinu. Ég er því miður nokkurn veginn sannfærður um að hæstv. félmrh. hyggst ekki taka mark á þessu heldur í verki, a.m.k. ekki strax. Þó verð ég að viðurkenna að hann sýndi lit í dag þegar hann sagði að hann ætlaði sér að vera félmrh. í þrjú ár í viðbót til að geta lagað frv. sem á að fara að samþykkja núna. Mér finnst það vera mikil viðurkenning á því að honum sé bersýnilega að fatast og hann þurfi þrjú ár í viðbót til að laga vitleysurnar sem þeir ætla að samþykkja nú í vor. Það finnst mér höfðinglegt af hæstv. félmrh. að viðurkenna að það sé þriggja ára starf að laga það sem þeir ætla að samþykkja núna. Þó væri hitt mikið skemmtilegra ef menn færu í viðræður um málin með skipulegum hætti í samræmi við óskir stéttarfélaganna í landinu. Og í samræmi við óskir og stefnu Framsfl. 23. flokksþing Framsfl. sagði orðrétt, með leyfi forseta: ,,Framsóknarflokkurinn mun leita samstarfs við aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun allra laga og reglugerða sem um vinnumarkaðinn gilda. Halda menn að kjósendur Framsfl. fyrir síðustu kosningar hafi skilið þetta þannig að það ætti að samþykkja lög um stéttarfélög og vinnudeilur og réttindi og skyldur opinberra starfsmanna í blóra við alla verkalýðshreyfinguna í landinu, öll stéttarfélög í landinu, eins og er að gerast núna? Andstaðan við þessar breytingar núna er miklu meiri en var 1938. Það er nefnilega misskilningur sem ég tek eftir t.d. í áliti minni hluta félmn. um þetta mál þar sem segir að verkalýðshreyfingin hafi verið á móti lögunum 1938. Það er ekki rétt. Alþýðusambandið var í raun og veru meira og minna fylgjandi lögunum 1938. Það voru hins vegar allmörg verkalýðsfélög á móti þeim. En Alþýðusambandið sem slíkt studdi þau lög og stefnur laganna frá 1938. Ég segi það fyrir mitt leyti að það tel ég að hafi verið skynsamleg afstaða. Af hverju var það skynsamleg afstaða að setja lögin 1938? Það var skynsamleg afstaða vegna þess að það var búið að reyna að halda þannig á málum að verkafólkið í landinu gæti ekki stofnað félög til að semja um kaup og kjör. Öll stéttabarátta á árunum 1925--1935 snerist um það að verkalýðsfélögin vildu fá sig viðurkennd. Deilurnar miklu á Akureyri, Borðeyrardeilan, Nóvudeilan, Torfunesslagurinn, allt snerist þetta um það að verkalýðsfélögin vildu fá að semja um kaupið fyrir fólkið sitt. Þess vegna var skynsamlegt að setja þessi lög á sínum tíma að mínu mati. En nú er það ekki einn, það er enginn. Það er ekki eitt einasta stéttarfélag á Íslandi sem styður ríkisstjórnina í þessu máli. Nú er ég ekkert að segja að í öllum tilvikum þurfi það að vera þannig að slík bylgja sé þannig að menn eigi að hlýða henni í einu og öllu. Ég er ekki að segja það. En ég segi alveg eins og er að ég tel að miðað við allar aðstæður og framtíðina þá væri það skynsamlegra að taka á þessum málum með þeim hætti að fara í samninga við verkalýðshreyfinguna.

Hæstv. félmrh. kom hér í dag og gerði ítarlega grein fyrir sínum sjónarmiðum um einstök atriði. Ég vil segja það um hann að ég fagna því að hann hefur tekið myndarlegan þátt í umræðunum hér. Mér finnst hann hafa reynt að gera það af einlægni og ég met hann mikils fyrir það. Mér finnst það skipta miklu máli fyrir þingræðið að hérna fari fram alvarlegar umræður þó svo að menn endi með því að vera lóðrétt ósammála um svo að segja alla hluti. Við umræður um þetta mál hefur margt fróðlegt komið fram bæði hjá honum og öðrum eins og t.d. ýmsum hv. þm. Sjálfstfl. Hvar er hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson? (Gripið fram í: Hann hefur ekki sést hér.) Hvar er hann? (Gripið fram í: ASÍ.) Ætli hann sé á ASÍ-þinginu. (Gripið fram í: Já, já.) Ætli hann hafi samþykkt mótmæli gegn sjálfum sér í dag, hv. 10. þm. Reykv. Hann sagði um daginn að þetta væri vont frv. Hann vildi hafa meira samráð við verkalýðshreyfinguna um þetta mál en verið hafði. Hann hafði hér mikil ræðuhöld við 1. umr. málsins og sagði: Þetta er ólýðræðislegt, þetta gengur ekki, þetta mál þarf að skoða miklu betur. Þó kvað hann nú ekki eins sterkt að orði og hv. þm. Pétur H. Blöndal sem kom öndvert að málinu og sagði að þetta væri fínt mál. Ég get ekki sagt að ég óski hæstv. félmrh., vini mínum, til hamingju með þann meðreiðarsvein, Pétur H. Blöndal. En í frásögn Morgunblaðsins af ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals, segir svo, með leyfi forseta:

,,Pétur sagði að upphlaupið í þjóðfélaginu minnti á baráttu forréttindastétta gegn breytingum á stöðu sinni. Reginmunur væri á verkalýðnum og verkalýðsfélögum sem notuðu verkalýðinn sem eins konar verkalýðsiðnað. Þá hefðu þessir aðilar ægivald gegnum lífeyrisstjóði.`` --- Síðan eru þessi snjöllu orð höfð eftir hv. þm. sem ég hygg að séu einstök í sögunni: ,,Ólýðræðisleysi í verkalýðshreyfingunni kallaði á sams konar ólýðræðisleysi hjá atvinnurekendum og saman færu þessi samtök með fjöregg þjóðarinnar, lífeyrissjóðina, sem í væru 260 milljarðar kr.`` Hv. þingmenn geta svo velt því fyrir sér hvað ólýðræðisleysi er en samkvæmt gömlum reikningsformúlum er það þannig að tveir mínusar gera plús. En þetta ólýðræðisleysi var mikið vandamál og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði að upphlaupið minnti á baráttu forréttindastéttanna. ,,Talsmenn verkalýðsfélaga, sjálfskipaðir fulltrúar almennings, tala um aðför að þessum sama almenningi,`` sagði hv. þm. í ræðu við 1. umr. þessa máls. ,,Og fólkið er gjörsamlega varnarlaust. Svo er tekinn orlofsheimilasjóður, félagsheimilasjóður og sjúkrasjóður og allt rennur þetta til þessarar verkalýðshreyfingar, til verkalýðsrekendanna og fjármagnar verkalýðsiðnaðinn.`` Jafnvel í hinum prentaða þurra texta Alþingistíðinda leynir fyrirlitningin sér ekki. Og allt þetta fer til að fjármagna verkalýðsiðnaðinn! Þetta er einn af helstu máttarstólpum hæstv. félmrh. Þetta er undirstaðan, einn hugmyndafræðilegur máttarstólpi undir þessu frv. (Gripið fram í: Er þetta ekki skjaldsveinninn?) Þetta er skjaldsveinninn sem fremstur fer. Hæstv. félmrh. hlustar ekki á stjórnarandstöðuna, það er rétt. Hann hlustar ekki á verkalýðsforustuna, það er rétt. Hann hlustar ekki á alþýðusambandsþingin, það er rétt. Og ekki á mótmælin 1. maí. En hann ætti að vara sig þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal fer að hæla honum. Þá ætti hann að vara sig og velta því fyrir sér hvort hann er ekki örugglega á vitlausri leið. Þegar í þokkabót kemur leiðari í Viðskiptablaðinu sem hvetur hann til dáða finnst mér að hæstv. ráðherra ætti að vara sig og skoða málin betur því þessi selskapur er ekki skemmtilegur. Það hefði enginn spáð því um þetta pláss sem við erum í og enn síður Blöndudal að það ætti nokkurn tímann fyrir þessum góða manni að liggja að vera með aðra eins skjaldsveina í verkunum fyrir sig.

Hæstv. félmrh. hefur síðan tekið nokkurn þátt sjálfur í umræðum um þetta mál og ég ætla aðeins að víkja að því sem hann nefndi hér í dag. Hann sagði aftur og aftur: Þetta frv. hefur breyst, það er verra en það var. Ég vildi sjá í þessu frv. fastari tök á hálaunahópum. Hann sagði þetta oft. Út af fyrir sig get ég alveg ímyndað mér hvað hann er að fara. Ég hugsa að hann eigi við að sumir hálaunahópar sem hafa haft mjög sterka markaðsstöðu, t.d. flugumferðarstjórar og flugmenn, hafi getað keyrt upp sín laun. Ákveðinn hluti læknastéttarinnar hefur iðulega getað gert þetta. Tannlæknar hafa getað gert þetta. Hann saknar þess að hafa ekki í þessu frv. ákvæði til að taka á þessu fólki. Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig ættu þau ákvæði að vera? Ég get vel deilt þeim áhyggjum með honum að þessir aðilar sprengi sig upp úr öllu og veki úlfúð og erfiðleika í samfélaginu. Vandinn er hins vegar sá að samningsaðilar þessa fólks á Íslandi eru, fyrir utan flugmenn, í nær öllum tilvikum ríkið sjálft. Með öðrum orðum, til að semja við tannlækna og til að semja við sjúkrahúslækna og til að semja við flugumferðarstjóra þarf ríkið að taka á sér og fara yfir sína eigin framkvæmd launastefnunnar m.a. í gegnum Tryggingastofnun ríkisins og fleiri slíka aðila. Mér liggur við að segja að það sé hreinn barnaskapur að ímynda sér að hægt sé að setja lagaákvæði inn í lög af þessu tagi sem leysi þann vanda sem hæstv. félmrh. er að tala um.

Hann lagði á það mikla áherslu í ræðu sinni í dag að það hefði margt breyst í þessu frv. eins og t.d. það að vinnustaðarfélögin væru úti, að tengireglan væri veikari og óbreytt frá gildandi lögum o.s.frv. Út af fyrir sig er ekki nokkur leið að mótmæla þessu. Gallinn við málið felst hins vegar ekki bara í þessu. Það er svo ótrúlegt að það er eins og hæstv. ráðherra geri sér ekki grein fyrir því að aðalatriði málsins liggur ekki þarna. Það liggur fyrst og fremst í því hvernig að málinu er staðið. Ríkisstjórnin ákveður að hlutast til um innri mál verkalýðsfélaganna án þess að gera tilraun til að ljúka samningum við þau. Þess vegna er vonlaust, a.m.k. fyrir mig, að líta þannig á að þessi frv. séu margfalt betri en þau voru af því að margt hefur verið tekið út úr þeim. Hinn stóri veruleiki er sá að þau eru í umfangi sínu og formi storkun við tilveru verkalýðshreyfingarinnar. Af hverju? Vegna þess að ef menn halda áfram á þessari braut og ef þetta verður samþykkt er verið að opna fyrir fleiri atlögur, fleiri skref, öflugri árásir á verkalýðshreyfinguna á næstu árum. Menn skulu ekki ímynda sér að þetta yrði síðasta lotan. Eða hvað? Og ég spyr hæstv. félmrh.: Er þetta síðasta lotan? Er það þannig að hann vilji gefa yfirlýsingu um að hann muni ekki sem félmrh., sitjandi út kjörtímabilið að öðru óbreyttu, beita sér fyrir nýjum breytingum á vinnulöggjöfinni? Það er mjög mikilvægt að fá upplýsingar um það. Eða er hann sömu skoðunar og hv. þm. Pétur H. Blöndal um að það þurfi að breyta þessu enn þá meira? Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fá um þetta upplýsingar frá hæstv. ráðherra. Það verður að segja eins og er, hæstv. forseti, að margt af því sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra í þessu máli hefur verið óljóst. Hann hefur ekki svarað því af hverju hann er að þessu. Hefur hann svarað því? Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. Ögmundur Jónasson væri aftur og aftur í dag að reyna að slíta það út úr ráðherranum af hverju verið er að flytja þetta frv. Hver er ástæðan? Hvert er markmiðið með þessu? Hvað er það? Ekki er það til að minnka launamuninn. Það er alveg ljóst og var mjög skýrt rakið í ræðu hv. 17. þm. Reykv. í dag. Ekki er það til að stuðla að betri sátt á vinnumarkaðnum. Það sjá allir að það geta orðið mikil átök í haust út af þessu frv. Það er ekki út af því. Af hverju er þetta? Ekki er það vegna þess að hæstv. ráðherra sé annt um Framsfl. því það er greinilegt að hann fer hraðminnkandi á meðan þetta er hér til meðferðar. Hvað veldur því að ráðherrann leggur þessar sjálfspyndingar á sig og Framsfl. og mér liggur við að segja þjóðina með því að taka þetta mál í gegn á þennan hátt? Hvaða hugmyndafræði og hvaða hugsun er á bak við þetta mál allt saman?

[22:00]

Ég held að við verðum, hæstv. forseti, að gera okkur grein fyrir því að þessi tvö mál eru hugmyndafræðilegur fáni frjálshyggjunnar og markaðshyggjunnar. Það er nokkuð hart fyrir hæstv. félmrh. að bera uppi þennan fána thatcherismans á Íslandi en það er það sem er að gerast. Á síðasta kjörtímabili var það þannig að menn voru að klóra talsvert í velferðarkerfið eins og kunnugt er. Á þessu kjörtímabili er verið að breyta vinnulöggjöfinni og breyta lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Til hvers? Til að auka svigrúm þeirra sem eiga fjármagn. Til þess að gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri svo það sé hægt að beita fólki í þá vinnu sem mestan arð gefur á hverjum tíma burt séð frá því hvernig það hentar fólkinu sem um er að ræða. Þannig er það og hæstv. félmrh. getur auðvitað alveg haldið því fram að ekki sé um það að ræða í þessu frv. að menn séu að innleiða hér thatcherisma á öllum sviðum. En ég segi: Hér er verið að stíga nákvæmlega sömu skrefin á móti verkalýðshreyfingunni og Margrét Thatcher steig gegn verkalýðshreyfingunni í Bretlandi á sínum tíma, nákvæmlega sömu skrefin. Þetta sést á öllum sviðum, t.d. í 47. gr. laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og í fleiri málum af því tagi. Margrét Thatcher er endurborin upp á Íslandi og birtist okkur í þessum frv. Það er býsna dapurlegt að ekki sé meira sagt, hæstv. forseti. Eða hvaða framtíðarsýn er í þessu? Hvaða framtíðarsýn er verið að draga upp fyrir íslensku þjóðina? Að losa um þessa hluti alla eins og hægt er, að hafa hlutina þannig að það sé sem mest frelsi fyrir markaðinn. Það er alveg rétt sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði fyrr í dag í umræðunni að í Evrópu er stefnt að því að sundra, að búa til margar einingar og sundra. Það er rétt. Það liggur í eðli markaðarins að sundra, að stuðla að samkeppni á öllum sviðum milli allra um allt, eins og svarta bókin frá hæstv. fjmrh. segir, samkeppnisbókin um skólakerfið sem hv. þm. hafa vonandi lesið. Gegn þessari framtíðarsýn hefur verið teflt framtíðarsýn félagshyggjunnar sem er sú að fólk reyni að standa saman, að þeir sem eiga ekkert að selja nema vinnuafl sitt læsi sér saman í krafti samstöðunnar í þágu þeirra sem minnst hafa í þjóðfélaginu vegna þess að það er vitað að þeir sem minnst hafa og veikastir eru, tryggja ekki kjör sín öðruvísi en með samstöðunni. Þarna skilur á milli félagshyggjunnar og fjármagnshyggjunnar. Það er leiðinlegt ef það er þannig að Framsókn ætlar, með leyfi forseta, að asnast til að fara með íhaldinu þessa braut. Það er leiðinlegt til þess að vita.

Ég vil í framhaldi af þessu, hæstv. forseti, nota þetta tækifæri sem ég hef hér við 2. umr. til að flytja úr þessum ræðustól sérstakar þakkir til allra þeirra sem hafa sent umsagnir um þessi mál. Ég vil einnig festa það í þingtíðindi af minni hálfu að ég vil þakka þessu fólki fyrir þá miklu vinnu sem fjöldinn allur af stéttarsamtökum, verkalýðsfélögum í landinu, hefur lagt í það að fara yfir þessi mál og gera athugasemdir í einstökum atriðum. Það kom nú í ljós, hæstv. forseti, að það var ekki vanþörf á því að fara yfir þetta.

Í inngangi að almennum athugasemdum Alþýðusambands Íslands um alþjóðlegar skuldbindingar um félagafrelsi og starfsemi stéttarfélaga er bent á sex megingögn, meginskjöl, sem við erum aðilar að, sem talið er að hafi verið brotin með frv. eins og það var í upphafi og sem hæstv. félmrh. hefur reyndar viðurkennt að nokkru að hafi verið brotin. Hvaða sneplar eru það nú? Það er nú fyrst stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 74. gr. nr. 33/1944, með áorðnum breytingum, varðandi rétt stéttarfélaganna. Það eru sérstaklega þær breytingar sem voru gerðar í febrúar 1995 og við samþykktum á Þingvöllum það ár. Sumir sem eru hér í þessum sal greiddu því atkvæði á Þingvöllum. Einn sem er hér í þessum sal hélt fína ræðu á Þingvöllum. Í öðru lagi er það mannréttindasáttmáli Evrópu. Í þriðja lagi félagsmálasáttmáli Evrópu. Í fjórða lagi er það alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem fullgiltur var af Íslands hálfu 22. ágúst 1979. Í fimmta lagi er það 2. gr. ILO-samþykktar nr. 98, þar sem segir að félög atvinnurekenda og verkamenn skuli njóta nægilegrar verndar vegna afskipta hverra af öðrum hvort sem þau afskipti eru bein eða framkvæmd af umboðsmönnum eða meðlimum slíkra félaga. Í sjötta lagi er það 3. gr. samþykktar ILO nr. 87, um félagafrelsi, þar sem segir að félög verkamanna og atvinnurekenda skuli eiga rétt á að setja sér lög og reglur og vera algerlega óháð í vali á fyrirsvarsmönnum sínum og við að skipuleggja stjórn sína og starfsemi og setja sér stefnuskrá. Það var skoðun lögfræðinga Alþýðusambands Íslands, sem þekkja þessi mál held ég allvel, að þarna væri um það að ræða að ef þetta yrði samþykkt eins og það var þá væri það brot á öllum þessum lögum og öllum þessum sáttmálum.

Alþýðusamband Íslands sendi síðan frá sér mjög ítarlega greinargerð. Því miður hef ég ekki tök á því að fara yfir hana í einstökum atriðum. En ég vil nefna hana því hún er vönduð þessi greinargerð. Ég vil einnig í þessu sambandi, hæstv. forseti, vekja athygli þingheims á umsögn Þjóðhagsstofnunar. Getur verið að hún hafi farið fram hjá mönnum til þessa eða hefur verið sagt frá henni hér í ræðustól, þar sem sagt er til dæmis, með leyfi forseta:

,,Með frv. er miðstýrð kjarasamningagerð fest í sessi og lögfest útfærsla á samningsformi sem lengst af hefur einkennt íslenskan vinnumarkað.``

Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Er hann sammála umsögn Þjóðhagsstofnunar um að það sé verið að festa í sessi miðstýrða kjarasamningagerð með þessum tillögum eins og þær eru?

Ég vil einnig, hæstv. forseti, tímans vegna bara láta mér nægja rétt að benda á ítarlegar umsagnir einstakra félaga um hina almennu stefnu þessa frv. Það koma afar fróðlegir hlutir fram en ég hef ekki tök á að fara yfir þá í einstökum atriðum. En ég ætla aðeins hins vegar að fara hér yfir breytingartillögur meiri hluta félmn. Ég verð að segja það í fyrsta lagi að ég tel þær ekki duga mér til að fagna þessu frv. Mér finnst að sumt af þessu sé harla lítilsiglt og breyti alveg ótrúlega litlu. Í sjálfu sér er ástæðulaust að rekja það hér nánar. En ég sé ekki betur en að það sé villa í þessum breytingartillögum sem verður að skoða betur, þ.e. brtt. við 4. gr. þar sem segir í a.-lið: ,,Í stað orðsins ,,helmingur`` í síðari málslið 2. efnismgr. komi: fimmtungur.`` Síðan segir í d-lið: ,,Í stað síðari málsliðar 4. efnismgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi:`` Ég sé ekki betur en að menn séu í tveimur breytingartillögum að breyta sama málsliðnum með mismunandi hætti. Ég vil fara fram á það ef menn ætla að afgreiða þessi ósköp, ég vil nú helst að þessu verði bara hafnað og hent í ruslakörfuna, að þá sé þetta skoðað því nóg er nú vitleysan samt. Ég sé ekki betur en þarna sé um það að ræða að menn þurfi að skoða málið talsvert betur. Ég vil einnig, hæstv. forseti, endurtaka að ég tel að það sé ekki um það að ræða að þessar breytingartillögur breyti neinu í grundvallaratriðum um málið. Málið er þannig háttað að það er í raun og veru ekki hægt að gera neitt annað en að hafna þessu frv. eins og það liggur fyrir.

Ég vil þá ljúka máli mínu, herra forseti, með því að segja að ég tel einboðið að eðlilegast væri að hæstv. félmrh. tæki sér far með sinni góðu ráðherrabifreið í Kópavog, í íþróttahús Digranesskóla og lýsti því þar yfir að frumvarpssnepill þessi yrði dreginn til baka og yrði ekki til frekari meðferðar á þessu þingi. Jafnframt að hann óskaði eftir því að það hæfust viðræður við Alþýðusamband Íslands um leikreglur á vinnumarkaði og um kjarasamninga til næstu ára, m.a. með hliðsjón af þeim ályktunum sem koma fram á alþýðusambandsþinginu þar sem gert er ráð fyrir að stefnt verði að því að Íslendingar verði með svipað kaup og gerist í Danmörku eftir tiltekinn árafjölda. Og að við færum saman í þetta verk, þjóðin öll og hæstv. félmrh. væri með í þeirri för eftir að hann hefði dregið þetta til baka og tilkynnt það í íþróttahúsi Digranesskóla núna á eftir.

Við alþýðubandalagsmenn höfum lagt á það áherslu í okkar málflutningi á undanförnum árum. m.a, á miðstjórnarfundi fyrir nokkru, að þessa stefnu ættum við að hafa. Nú væri það þannig að við hefðum á undanförnum árum verið að gera margt til þess að samræma aðstæður fyrirtækjanna því sem gerist í grannlöndum okkar, alls konar gjöld sem verið er að létta hér af fyrirtækjunum til að gera þau samkeppnisfær eins og það heitir við fyrirtæki í öðrum löndum. Aðstöðugjaldið var fellt niður t.d. hér í Reykjavík af forríkum fyrirtækjum sem borga síðan enga skatta, því miður, eða sama og enga. Ég sé eftir þeim peningum frá samneyslunni, ég segi alveg eins og er. En látum það vera. Það er verið að samræma þessa hluti og menn hafa staðið saman um það, verkalýðshreyfingin, ætli meira að segja BSRB hafi ekki verið með í því að samræma þessi starfsskilyrði atvinnufyrirtækjanna í landinu. Ég man ekki betur. Allir hafa tekið undir þann söng. En nú er komið að því að samræma starfsskilyrði heimilanna í landinu. Það er komið að því. Nú er komið að því að samræma starfsskilyrði fjölskyldnanna á Íslandi þannig að þeir sem búa við venjulega vinnu og venjulegar aðstæður í þessu landi geti búist við svipuðum kjörum í meginatriðum og gerist í grannlöndum okkar. Það er náttúrlega sjálfsagt mál af ýmsum ástæðum. Það er líka mannúðarmál og það er líka sjálfstæðismál. Það er sjálfstæðismál til þess að koma í veg fyrir að fólk flýi Ísland í stórum stíl. Það er m.a. til að koma í veg fyrir að fólk fari með búslóðirnar sínar í gámum á Jótlandsheiðar í stórum stíl og að menn sjái enga aðra lausn en að vinna í fiski í Danmörku.

Einhver hótfyndinn maður sagði það um daginn þegar Eimskipafélagið fékk útflutningsverðlaunin: ,,Ætli það sé fyrir að flytja út gámana með búslóðunum.`` Staðreyndin er sú að það hafa aldrei fleiri farið út með búslóðirnar sínar en á undanförnum missirum, aldrei fleiri. Og við alþýðubandalagsmenn höfum mótað þá stefnu að við eigum að setja okkur það meginverkefni á næstu árum að samræma starfsskilyrði heimilanna hér og annars staðar. M.a. af þeirri ástæðu höfum við óskað eftir því að hæstv. forsrh. gefi Alþingi skýrslu um muninn á lífskjörum á Íslandi og í grannlöndum okkar, einkum í Danmörku, því það er margt missagt í þeim fræðum eins og kunnugt er og menn þekkja sem hafa skoðað þessa hluti. Því er skynsamlegt að fá um það skýrslu til þess að byggja á henni áætlanagerð um betri lífskjör fyrir þjóðina í framtíðinni þar sem menn standa saman. Og hæstv. félmrh. gæti opnað fyrir þá för ef hann drægi þessa marglyttu út af borðinu, tæki hana héðan út, færi í íþróttahús Digranesskóla og segði: Er ekki kominn tími til þess að fólkið í landinu með félagslegar hugsjónir og félagsleg viðhorf snúi bökum saman? Er ekki kominn tími til þess að við hættum að leyfa íhaldinu að skemmta skrattanum og hættum að láta íhaldið fitna á skítverkunum sem aðrir eru að vinna fyrir það? Eins og hefur gerst í t.d. síðustu ríkisstjórn og aftur og aftur hjá þeim flokkum sem hafa verið í stjórn með Sjálfstfl. Er ekki kominn tími til að staldra við, hæstv. félmrh. og hæstv. forseti? Ég skora á hæstv. félmrh. að draga þetta frv. til baka.