Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 22:51:49 (6400)

1996-05-21 22:51:49# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[22:51]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og minn er vandi er ég hófstilltur í ræðustól og vonast eftir að verða það, ætla ekki að bregða út af þeirri venju. En það hafa komið fram nokkur atriði í ræðum þeirra tveggja hv. þingmanna sem hér hafa talað í kvöld sem mig langar til að fjalla ofurlítið um og spurningum hefur verið beint til mín sem ég ætla að reyna að svara.

Hv. þm. Svavar Gestsson, 9. þm. Reykv., deildi á það að þetta mál væri seint fram komið. Af hverju er það seint komið fyrir þingið? Jú, það er vegna þess að ég beið í tvo mánuði eftir að Alþýðusambandið sleit viðræðum við mig eða félmrn. Ég beið í tvo mánuði samkvæmt þeirra beiðni meðan þeir væru að reyna að koma sér saman um samskiptareglur á vinnumarkaði við vinnuveitendur. Það bar engan árangur. (ÖJ: Alþýðusambandið sleit ekki viðræðum. Alþýðusambandið óskaði eftir viðræðum.) Alþýðusambandið heimtaði frv. út af borðinu. (ÖJ: Alþýðusambandið heimtaði ...) Hv. þm. fær orðið á eftir og getur tjáð sig þá. Það var ekki félmrn. sem sleit þessum viðræðum, það er fjarri lagi. Ég gerði ekkert sem sprengdi þessar viðræður í loft upp. Það var Alþýðusambandið sem neitaði að ræða lagasetningu. Og af hverju neitaði Alþýðusambandið að ræða lagasetningu? Það var vegna þess að Alþýðusambandið vissi um sinn innri veikleika og þeir gætu ekki komið sér saman um hvernig lagasetningu ætti að hátta.

Hv. þm. spurði hvort þetta væri í síðasta skipti sem ég bæri fram frv. um breytingu á vinnulöggjöfinni. Þessa ræðu eða spretti úr þessari ræðu hv. þm. Svavar Gestssonar las ég reyndar í gömlum Alþingistíðindum. Sömu röksemdirnar komu fram hjá þáv. hv. þm. Ísleifi Högnasyni. Eitt af því sem hann hafði á móti þrælalögunum var það að ef þrælalögin væru einu sinni komin á mundi vera hægt að breyta þeim. Það liðu að vísu 58 ár þangað til tilraun var gerð til þess eða þangað til það var gert, en marga sömu orðaleppana notaði hv. þm. Svavar Gestsson.

Ég hef ekki uppi, svo að ég reyni að svara spurningunni, áform um að bera fram annað frv. eða önnur frumvörp um breytingar á vinnulöggjöfinni. Ég tel að með þeirri endurskoðun á vinnulöggjöfinni sem nú fer fram hafi ég staðið við það ákvæði stjórnarsáttmálans sem fjallar um þetta efni.

Hv. þm. spurði af hverju ég flytti þetta mál. Það er af því að ég held að þetta sé gott mál. Menn hafa, og þá sérstaklega hv. síðasti ræðumaður, 4. þm. Norðurl. e., haft uppi digrar fullyrðingar. Það var erfitt að fylgja honum reyndar á fluginu því að stundum var hann að tala um dagskrármálið og stundum var hann að tala um mál sem var á dagskrá í hv. efh.- og viðskn. Ég er að tala um dagskrármálið og ætla að einbeita mér að því að tala um það. (SJS: Skilur ráðherrann ekki samhengi málanna?) Ég er að tala um það mál sem hér er á dagskrá. Hann vildi meina að það væri brot á alþjóðasamningum og ekki nóg með það, heldur væri um stjórnarskrárbrot að ræða. Þessar fullyrðingar komu fram strax við 1. umr. Lagastofnun sem hv. félmn. leitaði til fann ekki að þarna væri um stjórnarskrárbrot að ræða. Ég var reyndar búinn að ganga úr skugga um það með mínum mönnum að svo væri ekki.

Hér er ekki heldur um að ræða brot á alþjóðasamningum sem við erum aðilar að. Lagastofnun taldi vafa geta leikið á um tvö atriði. Bæði var reyndar búið að ákveða að fella út úr frv. og eftir því sem mér skilst hefur hv. félmn. gengið úr skugga um að hin nýju atriði standast prýðilega og þetta frv. er skothelt að þessu leyti. Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hvort ég væri sammála því að hér væri verið að festa í sessi miðstýrða kjarasamningagerð. Hann las þetta upp úr áliti Þjóðhagsstofnunar. Ég tel að hér sé ekki verið að festa í sessi miðstýrða kjarasamningagerð. Hitt er annað mál að ég tel eða ég ímynda mér að Þjóðhagsstofnun hafi verið að hugleiða hin stóru samflot sem ég tel að séu heppilegri og árangursríkari fyrir verkalýðshreyfinguna og þjóðfélagið allt heldur en að hver sé að semja í sínu horni.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. talaði um lífskjörin. Við getum verið sammála um það að lífskjör þeirra sem minna hafa á Íslandi eru of bágborin. Þjóðarkökunni er ekki réttlátlega skipt og við þurfum að reyna að finna aðferðir til þess að skipta henni með réttlátari hætti en gert hefur verið. Þjóðarkökunni hefur verið skipt að hluta til samkvæmt gildandi vinnulöggjöf og einmitt af þeirri ástæðu sýnist mér eðlilegt að breyta vinnulöggjöfinni vegna þess að sú kjarabarátta sem hefur verið rekin samkvæmt þessari vinnulöggjöf, þeirri vinnulöggjöf sem gilt hefur hingað til, hefur ekki skilað nægilegum árangri.

(Forseti (StB): Forseti vildi trufla hæstv. ráðherra og spyrja hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni vegna þess að nú er liðinn sá tími sem gert er ráð fyrir að umræður yrðu hér.)

Herra forseti. Ég gæti talað í alla nótt en ég ætla ekki að gera það. Ég skal reyna að stytta mál mitt eins og ég mögulega get þannig að staðið verði við það samkomulag sem gert var. Ég hygg að ef allt væri reiknað liði kannski hálftími af þeim tíma sem um var samið

(Forseti (StB): Forseti vill taka fram að forseti hafði ekki gert ráð fyrir að það yrði fundað fram yfir ellefu.)

Ég mun ljúka máli mínu á örfáum mínútum til viðbótar, herra forseti.

Ég tel að samstarf og samráð hafi verið reynt til þrautar samkvæmt því sem fyrirheit voru gefin um í kosningastefnuskrá Framsfl.

Hv. þm. spurði hvað væri til bóta í frv. Ég skal svara því í örstuttu máli. Það er viðræðuáætlun, auknar skyldur á sáttasemjara og aukið lýðræði í samtökum atvinnurekenda og launamanna. --- Hv. þm. mætti kannski vera að því að doka við eins og 2--3 mínútur í viðbót. --- Ég sækist ekki eftir lófataki, ég sækist ekki eftir klappi og mér ógnar það ekkert þó að það sé púað á mig öðru hverju. Ef ég tel að ég sé að gera rétt, geri ég það hvort sem öðrum líkar betur eða verr svo framarlega sem ég hef möguleika til þess. Ég vil standa og falla með verkum mínum. Ég hef lent í mörgum orrustum, stundum haft sigur og stundum ekki. Ég er ekki í pólitík til þess að sníkja einhverjar stundarvinsældir ef hv. þm. heldur það. Ég er í pólitík til að fylgja málum sem ég tel vera rétt og marka stefnu sem ég tel að þjóðinni sé til farsældar.