Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 23:12:10 (6409)

1996-05-21 23:12:10# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[23:12]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ýmislegt í orðum hæstv. félmrh. sem ástæða er til að taka fyrir en tíminn er naumur. Þó er ein setning sem hæstv. ráðherra lét út úr sér sem ég er yfir mig gáttuð á og er þó ýmislegt sem manni hefur verið boðið upp á að hlusta á undanfarna daga. Hæstv. ráðherra sagði að kjarabaráttan eins og hún hefur verið rekin hingað til hefði ekki skilað nægjanlegum árangri. Og þá eru ráðin helst að fara að skipta sér af innri málum verkalýðshreyfingarinnar.

Hvað er það sem hæstv. ráðherra á við þegar hann segir: Hefur ekki skilað nægjanlegum árangri? Fyrir hvern? Þjóðarsáttarsamningarnir hafa aldeilis skilað árangri. Hér hefur hæstv. ríkisstjórn raupað af því aftur og aftur að hafa náð stöðugleika í efnahagslífi landsins. Hverjum er það að þakka? Fórnum hæstv. ráðherra eða mínum fórnum? Nei, verkalýðshreyfingarinnar. Á 20 árum hafa laun hækkað um 24.000%. En stjórnvaldsaðgerðir hafa hirt þennan ágóða af launamönnum jafnóðum. Og frv. til fjárlaga og fjáraukalaga fyrir árið 1996 og lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum skertu kjör fólks í landinu enn frekar en var.