Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 23:14:58 (6411)

1996-05-21 23:14:58# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[23:14]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hafði tækifæri til þess í haust að sýna þennan vilja sinn við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1996 og við afgreiðslu á frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það gerði hæstv. ráðherra ekki. Þvert á móti voru kjör fólks í landinu skert verulega, launamunurinn jókst og frumvörpin sem hæstv. ráðherra stendur að, því við þetta bætist frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, munu aldeilis ekki hafa það í för með sér að launamunur í landinu minnki. Það má vera á meðan fólk hefur fulla starfsorku að þá verði launamunurinn eitthvað minni svona á ákveðnu tímabili ævinnar á meðan það fær að njóta þess að hafa starf. En þessi frumvörp eru ekki til þess, það er ekki tilgangurinn með þeim. Ef hæstv. ráðherra og ef þessi hæstv. ríkisstjórn hefði haft vilja til að jafna kjörin í landinu hefðuð þið getað sýnt það í verkum ykkar allt frá því að þið tókuð við. En það hafið þið ekki gert. Þið hafið svikið öll loforð um fólk í fyrirrúmi. Öll.