Stéttarfélög og vinnudeilur

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 10:03:03 (6414)

1996-05-22 10:03:03# 120. lþ. 144.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, Frsm. minni hluta KÁ
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur

[10:03]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

(SJS: Forseti ætti nú bara að sjá sóma sinn í að fresta þessu.) Hæstv. forseti. Það er kallað utan úr sal að forseti ætti að sjá sóma sinn í að fresta þessu máli og ég tek undir það. En ef forseti tekur ekki þá ákvörðun, þá mun ég að sjálfsögðu halda ræðu mína.

Hér hefur átt sér stað allmikil umræða um þetta mál svo sem við mátti búast, enda er það afar stórt og þó einkum mjög umdeilt. Við urðum vitni að því í efh.- og viðskn. í gærkvöldi að umræðan hvort sem hún á sér stað hér í sölum eða úti í þjóðfélaginu hefur áhrif. Þegar menn fara að skoða hlutina betur og hlusta á það sem sagt er og skoða þær athugasemdir sem koma fram, þá eru gerðar breytingar á þessum stóru frv. En þær breytingar sem voru gerðar á frv. um stéttarfélög og vinnudeilur og jafnframt breytingarnar á frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, hafa vakið hjá mér miklar og stórar spurningar um vinnubrögð og þá ekki síst vinnubrögð í ráðuneytunum. Maður spyr sig hvernig stendur á því að það koma fram frv. sem greinilega brjóta í bága við alþjóðasamninga og jaðra við brot á íslensku stjórnarskránni. Hvernig stendur á því að ráðuneytin senda frá sér svona illa unnin frv.? Þetta kallar á mikla skoðun á þessum málum á Alþingi, en það á að keyra þetta allt í gegn og átti að keyra þetta allt í gegn án þess að skoða nánar. Ég veit ekki hvar ljósið kviknaði og menn áttuðu sig loksins á því að t.d. frv. um réttindi og skyldur var þverbrot á bæði stjórnarskrá og alþjóðasáttmálum, enda er búið að breyta því allverulega þó að sjálf hugamyndafræðin, hugmyndafræði valdsins sé eftir í því máli. (SJS: Það er spurning hvort þetta er fullnægjandi árangur í starfi.) Það þurfa ráðherrarnir að meta þegar og ef þessi lög verða samþykkt þá þurfa embættismenn held ég að fara að vanda sig betur. Það er mjög umhugsunarvert að frumvörp skuli koma með þessum hætti inn á þing og það væri gaman að vita hvort þetta hafi gerst oft á árum áður að frumvörp kæmu svona. Eða hvað er hér eiginlega á ferð?

Hæstv. forseti. Meginástæðan fyrir því að ég kýs að koma aftur í ræðustólinn er að mig langar til þess að beina sjónum aftur og betur að þeirri grunnumræðu sem liggur á bak við þetta frv. og reyndar frv. líka um réttindi og skyldur því að þessi tvö mál eru nátengd og það eru hugmyndir og sú stefna sem menn vilja taka á vinnumarkaði í vinnumarkaðshagfræði, stjórn vinnumarkaðarins, starfsmannamálum og slíku, hver sé stefnan. Hvað eru menn að gera með þessum málum? Eins og ég kom að í andsvari í gær, þá rakst ég á mjög athyglisverða grein í tímaritinu Foreign Affairs, glænýja grein eftir Ethan B. Kapstein sem ég veit nú svo sem engin deili á en það kemur fram að hann er eins og segir hér Director of Studies at the Council on Foreign Relations í Bandaríkjunum. Hann hefur skrifað bækur og er væntanlega þekktur á þessu sviði fyrst það birtist grein eftir hann í þessu tímariti. Í þessari grein er hann að setja ýmis félagsleg vandamál og stöðu á vinnumarkaði í samhengi við pólitíkina á vinnumarkaði. Hann segir svo sem að það sé tvennt sem einkum --- Herra forseti. Mér þykir vera mikill kliður í salnum.

(Forseti (GÁ): Ég bið hv. þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Þessi ágæti hagfræðingur bendir á að það sé einkum tvennt sem einkennir vinnumarkaðinn í hinum vestrænu löndum. Það er annars vegar gífurlegt atvinnuleysi í Evrópu sem fer stöðugt vaxandi og menn virðast alls ekki hafa náð tökum á. Það rifjar upp fyrir mér að í Tímanum í morgun er bent á að þrátt fyrir þann uppgang sem hér virðist kominn í efnahagslífið þá fækkar atvinnulausum ekki. Þarna er verið að benda á að það eru einfaldlega aðrar orsakir fyrir þessu. Það er ekki bara samdráttur í efnahagslífinu sem veldur atvinnuleysinu heldur eru þar ýmsar aðrar skýringar, m.a. miklar tæknibreytingar. Það er annars vegar atvinnuleysið í Evrópu og hins vegar það að launafólk í Bandaríkjunum hefur upplifað mikla lækkun launa og vaxandi launabil. Þessi tvö einkenni sér hann á vinnumarkaðinum.

Hann rifjar upp að eftir síðari heimsstyrjöldina var gerður eins konar félagsmálasáttmáli milli stjórnvalda annars vegar og vinnandi fólks hins vegar. Menn þurftu að taka á alveg gífurlegum félagslegum vandamálum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Menn stóðu uppi með mikinn fjölda ekkna. Hermenn voru margir limlestir og fatlaðir og mikið var af munaðarlausum börnum. Annars vegar voru það þau vandamál. Hins vegar veltu menn því fyrir sér af mikilli alvöru hvernig væri hægt að koma í veg fyrir hugmyndaþróun og pólitíska þróun af því tagi sem menn horfðu upp á á millistríðsárunum þegar milljónir manna gengu fasisma og nasisma á vald. Sem svar við þessu var tekin stefna sem m.a. byggðist á kenningum Bretans Beveridge sem oft hefur verið vitnað til í þessum ræðustóli. Okkar félagslega kerfi byggir að miklu leyti á hans hugmyndum eða byggði áður en byrjað var að hræra í því öllu saman. Menn fóru í það að byggja upp gott félagslegt velferðarkerfi og tryggingakerfi. Þá var reynt að skapa vinnu til þess að koma í veg fyrir það að atvinnuleysi færi aftur af stað og það var komið upp alþjóðastofnunum til þess að tryggja samskipti milli þjóða, til þess að auðvelda viðskipti og til þess að menn hefðu yfirsýn yfir efnahagslíf heimsins. Það má t.d. nefna Alþjóðagjaldeyrisstofnunina, Alþjóðabankann og síðan samkomulagið um GATT. Allt var þetta hluti af því kerfi sem menn byggðu upp eftir síðari heimsstyrjöldina.

Kapstein bendir á að á undanförnum 15--20 árum hefur orðið mikil breyting á þessu. Hann segir: ,,Menn eru að rjúfa félagsmálasáttmálann.`` Það er verið að rjúfa þann sáttmála sem gerður var. Það lýsir sér í því að menn hafa verið að ráðast á félagsleg réttindi. Menn hafa verið að ráðast á verkalýðshreyfinguna. Menn hafa ekki hlustað á verkalýðshreyfinguna og hann segir einfaldlega: ,,Hin pólitíska rödd verkalýðsins eða vinnandi fólks hefur verið þögguð niður.`` Það er ekki hlustað á þennan hluta samfélagsins. Þetta gerist allt samfara því að störfum hefur fækkað gífurlega. Það hefur verið fjárfest geysilega mikið í tækni og tæknin hefur tekið við störfunum og orðið til þess að fækka þeim. Það er ekki tekið á félagslegum vandamálum sem eru alveg gífurleg. Hann bendir m.a. á að 2% vinnandi karlmanna í Bandaríkjunum eru á bak við lás og slá, 2% vinnandi karlmanna. En það er ekki tekið á þessum vandamálum. (Gripið fram í: Þeir eru nú varla vinnandi á meðan.) Þ.e. karlmanna á vinnualdri, þ.e. hluti af því sem menn skilgreina sem vinnuaflið. Ég þakka fyrir leiðréttinguna hjá þingmanninum svo að það sé skiljanlegt.

Hann bendir á að þetta sé allt saman að valda mikilli og vaxandi félagslegri óánægju, félagslegu róti og það sé verið að grafa undan samfélaginu. Menn taka ekki á þessum vandamálum. Hagsmunum vinnandi fólks er ýtt til hliðar og hann telur að ef menn ekki snúa við blaðinu, þá geti orðið mikil hætta á vaxandi einangrunarstefnu. Stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, m.a. Buchanan sem var frambjóðandi repúblikana á tímabili eða ætlaði sér í forsetaframboð, predikaði þessa einangrunarstefnu. Hann bendir á að það sé vaxandi hætta á fasisma og útlendingahatri sem m.a. hefur mikið orðið vart við í Þýskalandi og að hin félagslegu vandamál fari vaxandi og geti orðið þessum þjóðfélögum okkar stórhættuleg ef menn ekki taka á þeim. Hann tengir þetta reyndar líka þeirri þróun sem hefur átt sér stað í efnahagsmálum sem hefur gengið út á það að opna heimsmarkaðinn, að auðvelda flæði milli landa og að menn leggja áherslu á útflutning. En breytingin sem hefur átt sér stað varðandi útflutning er sú að fyrir aðeins nokkrum árum voru Vesturlönd ráðandi í allri framleiðslu en núna er þetta að snúast við. Samkeppnin frá Asíulöndum eykst alveg gífurlega og Vesturlönd hafa brugðist við með því að lækka laun og með því að draga úr áhrifum verkalýðsfélaga. Hann bendir á að fólki sem stendur utan verkalýðsfélaga hefur fjölgað gífurlega. Það er ekki bara Nýja-Sjáland og sú stefna sem þar hefur verið rekin, heldur í Evrópu og jafnvel í Bandaríkjunum þar sem þátttaka fólks í verkalýðsmálum hefur nú aldrei verið mikil. Öll þessi þróun hefur verið að eiga sér stað jafnframt því að félagsleg vandamál hafa vaxið svona gríðarlega. Niðurstaða hans er sú að ætli menn ekki að sigla inn í ástand eða hugsanlega geta lent inni í ástandi líku því sem menn stóðu frammi fyrir á tímabilinu milli 1920--1940, þá verði menn einfaldlega að snúa við blaðinu og að ríki heims verði að gera eins og gert var í lok síðari heimsstyrjaldarinnar, að sameinast um aðgerðir til þess að draga úr félagslegum vandamálum og að bæta stöðu launafólks, það sé algert grundvallaratriði að bæta stöðu launafólks, draga úr launamismun og tryggja réttindi vinnandi fólks.

[10:15]

Ég vildi vekja athygli á þessari grein, þessari umfjöllun hérna og benda þingmönnum á að það er hægt að fá þessa grein úti á bókasafni Alþingis. Mér finnst þetta mjög athyglisvert sjónarmið og þarna er verið að benda á þróun sem hefur átt sér stað. Ég minnist þess að fyrir nokkrum vikum var sagt frá því að ríki Evrópusambandsins væru að reyna að koma sér saman um aðgerðir gegn atvinnuleysi þar vegna þess að menn eru smátt og smátt að gera sér grein fyrir því að þarna er um gífurlegan vanda að ræða. Í Evrópu eru atvinnulausir á milli 30 og 40 millj. Þar af er ungt fólk í meiri hluta. Ríki eins og Spánn eru með atvinnuleysi upp á hátt í 20%. Það er fyrst og fremst ungt fólk á aldrinum 17--25 ára. Við höfum heyrt hrollvekjur frá Finnlandi og fleiri ríkjum sem eru að glíma við þennan gífurlega vanda. Það verður ekki fram hjá því horft að þetta er vandamál sem menn verða að taka á og við stöndum frammi fyrir þessu líka. Hér er atvinnuleysi. Þó að það sé ekki mikið á mælikvarða Evrópusambandsins, þá er það töluvert og 4--5% atvinnuleysi í jafnfámennu landi og okkar verður miklu áþreifanlegra en annars staðar og á þessum málum verður að taka. Þau leysast ekki af sjálfu sér. Það er kannski mergurinn málsins að þessi mál verða ekki leyst af sjálfu sér vegna þess að orsakirnar eru ekki bara samdráttur. Þó að efnahagslífið taki við sér, þá munu þessi vandamál ekki leysast af sjálfu sér.

Ráðin sem menn hafa verið að grípa til jafnt hér sem annars staðar eru fyrst og fremst að reyna að bæta menntun og bjóða upp á starfsþjálfun. En þessi hagfræðingur sem ég hef verið að benda á nefnir leið sem er vel þekkt hér á landi, þ.e. að beita sköttum til jöfnunar. Hann víkur að þeirri miklu umræðu sem hefur átt sér stað í Bandaríkjunum um skatta. Þeir eru með öðruvísi kerfi en við. Hann nefnir líka að það þurfi að bæta stöðu atvinnulífsins. Það er kannski mál sem menn hafa mikið hamrað á hér og það hefur auðvitað verið gert. En það verður að samhæfa þessar aðgerðir. Ef við reynum að horfa til framtíðar og skoða hver er staðan í okkar samfélagi, hver er staðan á vinnumarkaði, þá er ljóst að vandi okkar er af sama toga og í öðrum iðnríkjum. En hvað er verið að gera? Það er verið að feta í þessi spor sem ýmis ríki, England, Nýja-Sjáland og fleiri ríki stigu fyrir 10--15 árum, þ.e. að skerða réttindi, að auka launabilið, að draga úr lýðræði, að draga úr áhrifum verkalýðshreyfingarinnar og hreyfinga launþega yfirleitt. Það er nákvæmlega umfjöllunin sem er í þessu frv. sem við erum að ræða. Hæstv. félmrh. segist aftur og aftur í sínum ræðum vilja draga úr launabilinu og auka lýðræðið, en það er auðvitað verið að gera þvert á móti. Það sem hefur gerst í vinnunni við þetta frv. er að þó að menn hafi tekið þar út þau atriði sem eins og hv. þm. Gísli Einarsson nefndi voru verstu eiturbroddarnir, þá eru samt ýmsar pöddur þarna skríðandi um sem ekki gefa frá sér beinlínis hollnæma safa. Þarna eru mjög alvarleg atriði. Það er verið að draga úr lýðræði. Það er verið að svipta verkalýðsfélögin þeim rétti að fela trúnaðarmannaráðum að fara með umboð fyrir félögin. Það er verið að eyðileggja þetta ágæta tæki sem vinnustaðarsamningar hafa verið. Þeim hefur verið beitt svo áratugum skiptir í ýmsum fyrirtækjum, en það þarf endilega að eyðileggja þá í þessu frv. Það er nákvæmlega það sem er verið að gera.

Eins og hugmyndin var í upphafi --- menn ganga að þessu verki með ákveðnar hugmyndir --- það er sú hugmynd að reyna að ýta undir samflot, reyna að styrkja hina stóru samningsaðila, þá sem hafa verið leiðandi í samningum. Það má auðvitað setja stórt spurningarmerki við þá stefnu. Það var meiningin að styrkja vald sáttasemjara ríkisins þannig að hann gæti tekið minni hópa undir samninga og séð til þess að það mundi draga úr verkföllum. En niðurstaðan verður þveröfug. Hún lendir á allt öðrum enda og upp í loft miðað við það sem upphaflega var hugmyndin. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu alla aftur. Að hæstv. félmrh. skuli geta komið upp í stólinn aftur og aftur og haldið því fram að það sé verið að auka lýðræði í verkalýðshreyfingunni þegar einmitt er verið að setja skorður, það er verið að setja þröskulda og skorður. Hvaða rannsókn gerði hæstv. félmrh. á þátttöku í atkvæðagreiðslum í verkalýðsfélögunum? Hvaða niðurstöður hefur hæstv. félmrh. um það hvernig hefur verið staðið að atkvæðagreiðslum? Hefur félmrh. og ráðuneytið þær upplýsingar að geta fullyrt að það þurfi að setja þröskulda varðandi atkvæðagreiðslur í stéttarfélögum?

Svo að ég nefni það enn og einu sinni sem er svo furðulegt í þessu máli öllu, á hvað er hlustað og á hverjum er tekið mark. Það var margbent á það í umsögnum frá samtökum opinberra starfsmanna að það fyrirkomulag sem þar er við lýði og gerir reyndar ráð fyrir miklu meiri þátttöku í atkvæðagreiðslum en þetta frv. gerir, hefur gefist illa, enda hafa verkföll opinberra starfsmanna verið miklu tíðari en á almennum vinnumarkaði. Þetta er þungt í vöfum, það er erfitt að hætta við verkfall þegar einu sinni er búið að boða það og það kallar á ákveðið ferli að greiða atkvæði um samninga. Þetta er þungt í vöfum og hefur ekki gefið góða raun fyrir utan það að Alþjóðavinnumálastofnunin hefur gert athugasemdir við það hversu þröngar skorður lögin setja opinberum starfsmönnum. Nei, það er ekki hlustað á þetta. Þröskuldar skulu koma.

Það er reyndar rétt að Alþjóðavinnumálastofnunin hefur sagt í sínum yfirlýsingum að hún geri ekki athugasemdir við að það séu atkvæðaþröskuldar í félögum. En að Alþjóðavinnumálastofnunin leggi blessun sína yfir að það séu stjórnvöld sem ákveða hvernig verkalýðsfélög greiða atkvæði um annaðhvort samninga eða verkfallsboðun, ég kannast ekki við slík. Ég kannast ekki við að það sé viðurkennt hlutverk stjórnvalda að setja slíkar reglur þannig að það er afar sérkennilegt í þessu máli til hvaða atriða er tekið tillit. Eins og ég hef margnefnt er þetta náttúrlega orðinn einn allsherjarhrærigrautur í stað þess að það sé einhver stefna í málinu. Ég vil ítreka þá skoðun mína enn og aftur, fyrir nú utan það að málið fari til skoðunar hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni og jafnframt fyrir mannréttindadómstóla, að stóra spurningin alþingismenn þurfa að svara er: Ætla menn að taka þá áhættu að setja þetta frv. hér í gegn, láta það renna í gegn og verða að lögum og taka þar með þá áhættu að hér fari allt í bál og brand á vinnumarkaði næsta vetur? Ætla menn virkilega að taka þá áhættu? Það er alveg ljóst að með þessari lagasetningu er búið að storka samtökum launafólks svo hrikalega að þau geta ekki annað en svarað þessu. Þau hljóta að bregðast við og reyna að verja lýðræðislegan rétt sinn sem hefur verið að mótast í 100 ár, ekki bara í þau 80 ár sem Alþýðusambandið hefur lifað, heldur í 100 ár því að elstu verkalýðsfélög hér á landi eru í þann mund að verða 100 ára gömul. Menn voru ekkert að taka það upp að gamni sínu. Þær reglur sem menn settu sér í upphafi byggðu líka á hefðum, hefðum sem reyndar voru komnar frá bindindishreyfingunni þar sem margir verkalýðsleiðtogar og forkólfar, karlar og konur, fengu sína fyrstu félagslegu þjálfun. Þetta byggir allt á lýðræðislegum hefðum og ákvörðunum sem fólk hefur tekið sjálft og þannig á það að vera. Það á ekki að vera með þeim hætti að stjórnvöld séu að setja reglur um það hvernig frjáls félagasamtök eigi að starfa.

Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér finnst þessi hugsun svo hættuleg sem hér er verið að ganga fram með, bæði í frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og í þessu frv., þ.e. að stjórnvöld skuli líta á það sem sálfsagðan hlut að gripa inn í innra starf frjálsra félagasamtaka, frjálsra stéttarfélaga eða stéttarfélaga sem eiga að vera frjáls, eiga auðvitað að lúta lögmálum lýðræðislegum samfélagsins, stjórnarskránni og öðru slíku. En á hvaða leið eru stjórnvöld? Hvaða hugmyndafræði er þetta, hæstv. félmrh.? Ég veit reyndar að ég fæ lítil svör því að ráðherrann kemur upp aftur og aftur og segist vera að auka lýðræðið og draga úr launamun. Hvað er það í þessum lögum, hvað er það í þessu frv. sem mun verða til þess að draga úr launamun? Það hefði hugsanlega stefnt í þá átt ef frv. hefði verið innan þess ramma að einhvers konar tengiregla hefði staðist alþjóðasáttmála, sem ekki var. Ef menn hefðu komist að samkomulagi, staðið frammi fyrir því að vera með samkomulag um að setja nýjar leikreglur í samskiptum á vinnumarkaði, þá hefði hugsanlega verið hægt að stefna í einhverja slíka átt. En það er ekkert í þessu frv. sem tryggir neina slíka þróun, ekkert. Þó að menn sitji vikum saman og ræði samkvæmt einhverjum viðræðu\-áætlunum, hundruðum eða þúsundum viðræðuáætlana og þó að menn þurfi að standa í miklu stríði hugsanlega til að tryggja þátttöku í atkvæðagreiðslum sem ég hygg að muni yfirleitt ekki þurfa og þó að menn muni hætta við að fara út í vinnustaðarsamninga vegna þess að litlu félögin munu ekki treysta því að þeirra hagsmuna verði gætt og ekki taka þá áhættu, þá er ekkert sem mun stuðla að því að draga úr launamun, ekkert.

Þar kannski tengi ég að lokum, hæstv. forseti, aftur inn á þessa grein sem ég nefndi í upphafi vegna þess að öll þróun í vinnumarkaðsmálum er að breytast. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er að eiga sér stað gífurleg breyting sem felst í því að vinnumarkaðurinn er að verða svo alþjóðlegur. Það er búið að opna vinnumarkaðinn innan Evrópu og við Íslendingar erum hluti af honum. Fyrirtæki eru ekki bara í samkeppni á innanlandsmarkaði. Þau eru í samkeppni við fyrirtæki í öðrum löndum og menn verða að taka mið af þeirri þróun og menn verða að standa sig í samkeppninni.

[10:30]

Eins og ég nefndi áðan hafa fyrirtækin brugðist við með því að lækka laun. Ekki hækka þau, heldur lækka þau. En þau borga líka sérmenntuðu fólki vel. Þeir sem eru virkilega vel menntaðir og standa sig í samkeppninni eru fengur fyrir fyrirtækin í samkeppni við önnur fyrirtæki, þeim er borgað vel. Þróunin virðist því sú að þeir sem hafa minnstu menntunina hafa áfram lægstu launin og þau fara lækkandi miðað við aðra á meðan það sérmenntaða vinnuafl sem fyrirtækin eru að keppa um virðist stöðugt bæta stöðu sína. Þetta er allt spurning um pólitík. Hættan er sú að samfélögin haldi áfram að gliðna og félagsleg vandamál að aukast. Við ræddum eitt þeirra hér fyrir tveimur dögum, vaxandi fíkniefnanotkun sem auðvitað á sér félagslegar skýringar. Ef við tökum ekki á þessum málum heldur þessi gliðnun áfram, launabilið heldur áfram að vaxa og við getum spurt okkur hverjir verða fórnarlömb þeirrar þróunar. Það verða þeir sem hafa minnsta menntun, það verða konurnar sem ekki hafa tækifæri til að afla sér meiri menntunar og sitja eilíflega uppi með margfalda ábyrgð. Þetta, hæstv. forseti, er þróun sem ég vil ekki sjá í okkar samfélagi. Hér þarf að grípa í taumana og það gerist ekki nema um það náist breið samstaða og samvinna. Þar kemur auðvitað enn og aftur að því grundvallaratriði sem snertir þetta frv. að það gengur ekki að ganga fram með þeim hætti sem hér er gert og storka vinnandi fólki, storka þeim samtökum sem vinnandi fólk hefur stofnað og draga úr þeirra valdi. Þetta gengur ekki. Samráð og samvinna eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar hlýtur að vera það sem við stefnum að. Ég skora enn og aftur á hæstv. félmrh. að hleypa nú skynseminni að og hugsa um hagsmuni samfélagsins og það sem fram undan er en víkja til hliðar þeirri bjargföstu sannfæringu sinni að það sé ekkert að þessu frv., hann er því nær einn um þá skoðun þótt hann og Vinnuveitendasambandið séu að vísu saman um þá skoðun. (Gripið fram í: Og stjórnarflokkarnir.) Reyndar ekki allir. Það kom í ljós hér í gær að það líður ýmsum illa yfir þessu frv. (SvG: Hvar er Guðmundur Hallvarðsson?) Já, enn hafa ekki allir tekið þátt í þessari umræðu. En þessu, hæstv. forseti, ber að víkja til hliðar. Það er samfélaginu og framtíðinni fyrir bestu að við stefnum að auknu samráði og það sé ekki verið að traðka á vinnandi fólki og réttindum þess með þeim hætti sem hér er verið að gera. Þetta hlýtur að kalla á átök. Ég vona svo sannarlega að verði þetta að lögum, verði stjórnarflokkarnir látnir gjalda þess síðar meir.