Stéttarfélög og vinnudeilur

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 10:45:34 (6416)

1996-05-22 10:45:34# 120. lþ. 144.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur

[10:45]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ráð nú á lokaspretti þessarar 2. umr. um það vægast sagt umdeilda frv. sem hæstv. félmrh. og hans fylgifiskar í röðum stjórnarliða eru hér að knýja í gegnum þingið, að fara til upphafsins og rifja upp þær tilraunir sem gerðar voru þann 4. okt. 1994. Þá sat sá sem hér stendur í sæti félmrh. og vildi freista þess að kalla aðila vinnumarkaðarins að viðræðuborði og freista þess þannig að þessir hópar tækju tal saman. Og eins og segir í skipunarbréfi þeirrar nefndar sem þá var skipuð: ,,... kynna sér þróun samskiptareglna samtaka atvinnurekenda og launafólks í öðrum löndum og bera þróunina saman við stöðuna hérlendis.`` Einnig var ráð fyrir því gert að þessi hópur tæki saman skýrslu um niðurstöðuna af þessum athugunum sínum og ef í ljós kæmi að breyta þyrfti íslenskri löggjöf var hópnum falið að setja fram tillögur um það efni. Þetta voru markmiðin í upphafi, virðulegi forseti. Undir lá sá sannarlega almenni vilji að ég hygg allra þeirra aðila sem þarna komu að máli til þess að yfirfara þessi mál, til að freista þess að ná gagnkvæmu trúnaðartrausti um meðferð mála í viðkvæmum vinnudeilum. Ég rifjaði það hins vegar upp við 1. umr. þessa máls að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar voru að sumu leyti tregir til. Það þurfti að eiga við þá orðastað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Hver var ástæðan? Hún var ekki sú að þeir vildu ekki ræða þessi mál. Nei, hún var sú að þeir höfðu ótta af því að ríkisvaldið á einhverju stigi málsins mundi rjúka til með liðstyrk vinnuveitenda, nýta einhvern hluta af þeirri vinnu sem viðræðuhópurinn hefði þá unnið og fara af stað með málið inn í löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Ég átti af þeim sökum sem félmrh. orðastað við núv. og þáv. formann BSRB, núv. og þáv. formann Alþýðusambands Íslands til að fullvissa þá um að ríkisstjórnin og félmrh. mundi ekki undir nokkrum kringumstæðum taka einn punkt eða prik út úr þessu nefndarstarfi nema í fullri sátt og í fullu samráði og samkomulagi við alla aðila í þessum hópi. Enda var það grundvöllur þessarar vinnu að efla skilning milli þessara aðila en ekki stefna til ófriðar. Það var einmitt á þessum grundvelli sem aðilar alþýðusamtakanna hér á landi gengu til þessa leiks. Er það furða, virðulegi forseti, að þeim þyki komið í bak sér. Sá sem hér stendur neitar því ekki að hann hefur eilítið samviskubit yfir því að hafa kallað þessa aðila að þessu borði. En hann átti satt að segja ekki von á því að við fengjum annað eins í hið æruverðuga ráðuneyti og hæstv. félmrh. og í slíkum ham sem hann hefur verið frá því að hann settist þar inn. Það átti satt að segja enginn von á því. Enda hefur hann með sínum vinnubrögðum og með fulltingi stjórnarliðsins gjörsamlega snúið á hvolf upphaflegum markmiðum þeirrar vinnu sem ég lýsti áðan.

Virðulegi forseti. Það er meira í þessu sem ástæða er til að vekja sérstaka athygli á því hópurinn sjálfur, allur þessi hópur, þar með taldir fulltrúar Alþýðusambandsins og sérlegra vina hæstv. ráðherra í Vinnumálasambandinu, komst að þeirri niðurstöðu í sinni áfangaskýrslu sem hér hefur verið umrædd að það væri mikilvægt að breytingar á samskiptareglum væru gerðar í sem mestri sátt. Orðrétt segir í þessari áfangaskýrslu, með leyfi forseta:

,,Með þessari áfangaskýrslu vill vinnuhópurinn greina ráðherra frá umfjöllun hópsins og athugunum fram til dagsetningar þessarar áfangaskýrslu. Engar endanlegar niðurstöður liggja fyrir en stefnt er að því að kynna málið á vettvangi þeirra samtaka sem að málinu koma.`` Og svo þetta: ,,Hópurinn telur mikilvægt að breytingar á samskiptareglum séu gerðar í sem mestri sátt.``

Annaðhvort hefur hæstv. ráðherra ekki lesið niðurstöður hópsins eða verið staðráðinn í því allt frá byrjun að láta þær sig engu varða og fara sínu fram. En auðvitað er ráðherrann með þessu ekki síður að ganga á skítugum skónum yfir fulltrúa sína í þessari nefnd, t.d. ágætan starfsmann félmrn. og formann þessarar nefndar, Gylfa Kristinsson. Ég þekki það vel til innviða þessa ráðuneytis að ég veit að það hefur ekki verið að tillögu hæfra og góðra manna sem þekkja til vinnumarkaðsmála að svona skuli farið fram og allra síst formanns nefndarinnar. Ábyrgðin er ein og sér í upphafinu á hendi ráðherra og síðar með liðstyrk Framsfl. og Sjálfstfl.

Það er líka rétt að undirstrika að í þessari áfangaskýrslu sem hæstv. ráðherra hefur tínt úr eftir hendinni eins og honum hefur sýnst, eins og krækiber á hausti, er sagt að lyktum:

,,Það er áréttað að hugmyndir í áfangaskýrslu vinnuhópsins þarf að ræða frekar áður en þær eru útfærðar nánar enda þarf víðtæk umræða að eiga sér stað um þetta efni. Ýmis atriði sem tengjast þessum hugmyndum hafa auk þess enn ekki verið rædd til hlítar og má þar nefna miðlun sáttasemjara og fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um hana, boðun verkfalls og verkbanns, hlutverk ríkissáttasemjara í vinnudeilum og vinnustaðafyrirkomulag.``

Getur þetta verið sagt nokkuð skýrar? Er þetta ekki eins kristaltært og frekast getur verið? En hvernig í veröldinni getur hæstv. ráðherra í fararbroddi hæstv. ríkisstjórnar dregið þær ályktanir af andanum í upphafinu í vinnu hópsins sem verða til þess að hann kemur hér askvaðandi og æðandi liggur mér við að segja með það frv. sem við í þinginu höfum verið að fjalla um á umliðnum vikum og mánuðum? Mér er spurn og það eru fleiri sem spyrja. Svörin eru mörg en vafalaust ekkert þeirra alveg hárrétt. Menn hafa haldið því fram að hæstv. ráðherra hafi talið það mjög brýnt og mikilvægt að setja mark sitt á pólitíkina strax á fyrstu mánuðum ráðherratíðar sinnar. Það kann að vera ein skýringin. Önnur tilgáta er að hann hafi ekki viljað vera minni maður en hæstv. fjmrh. í því að láta til sín taka í vinnumarkaðsmálum. Auðvitað hefur hann fylgst gaumgæfilega með því hvernig hæstv. fjmrh. ætlaði fram með sín mál gagnvart opinberum starfsmönnum með skerðingu á lífeyrisréttindum þeirra, með skerðingu á réttindum þeirra sem við höfum einnig verið að fjalla um í þinginu á umliðnum dögum, vikum og mánuðum. Það hefur kannski verið eins konar minnimáttarkennd af þessum toga, að litli stjórnarflokkurinn vildi ekki verða minni en sá stóri þegar kæmi að því að ráðast að verkalýðshreyfingunni. Ekki skal ég fullyrða um það. En það er hins vegar algjörlega ljóst að hæstv. ráðherra hefur náð því markmiði sínu að láta taka eftir sér í hinu háa ráðuneyti. Það fer enginn í grafgötur með hver situr þar á bekk. Það er hæstv. félmrh. Páll Pétursson sem þar lætur til sín taka. Það er sami hæstv. ráðherra og þingmaður sem gjarnan hefur farið hér mikinn í ræðustóli, þá oftast í stjórnarandstöðu og talað hátt og stundum snjallt um mikilvægi lýðræðisins og mikilvægi sterkrar verkalýðsforustu og þar með talið bændasamtakanna.

Stundum hefur þessi sami þingmaður einnig haft áhyggjur af friði í heiminum. Það er að vísu ekki hluti af þessari umræðu hér en hluti af þessari heildarmynd, þessari umpólun á ráðherranum sem nauðsynlegt er að nefna hér í framhjáhlaupi. Þessi sérstaki áhugi hans á friðarmálunum sem hefur verið mjög áberandi á umliðnum árum hefur nú skyndilega fölnað og dvínað svo um munar. Þá er ég auðvitað að vísa til þess að með nýjum foringja Framsfl., Halldóri Ásgrímssyni eru friðarmálin eitthvert rassvasadæmi. Hæstv. ráðherra, Páll Pétursson, þá hv. þm. var flutningsmaður að tillögu um kjarnorkuafvopnun fyrir örfáum árum í tíð síðustu ríkisstjórnar situr nú undir því þegjandi að Halldór Ásgrímsson, nýi foringinn komi og rasskelli nánast þá aðila sem láta sér til hugar koma þann barnaskap sem hæstv. félmrh. varð uppvís að fyrir tveimur árum, þ.e. að hægt sé að kjarnorkuafvopna heimsálfuna. Þetta stríðir hreinlega gegn tilgangi og markmiðum Atlantshafsbandalagsins og undir þessu situr hinn vaski ráðherra, hinn kraftmikli ráðherra sem æðir áfram og lætur ekkert koma sér úr jafnvægi þegar verkalýðshreyfingin er annars vegar, en situr kyrr og prúður sem fermingardrengur undir þessum lestri foringja síns.

Umpólunin á sér því stað á ýmsum sviðum, virðulegi forseti. Það er ekki eingöngu í þessu máli hér. Það er líka eftirtektarvert að fylgjast með því sérstaklega hvernig stuðningsmenn hans í þingmannaliði Framsfl. fara fram í þessu máli. Það rifjast upp fyrir mér, virðulegi forseti, að hv. varaformaður félmn. sem hefur farið fram með þetta mál í 2. umr., þetta vinnulöggjafarfrv. --- ég er auðvitað að ræða um hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem vann glæstan sigur fyrir réttu ári síðan í sínu kjördæmi þá á grundvelli nýrra hugmynda og nýrra loforða jafnvel --- ég hins vegar minnist þess ekki eitt andartak, virðulegi forseti, að þessi sami þingmaður hafi sérstaklega lofað þingmönnum Reykjaneskjördæmis því að hún ætlaði sér að vera í fararbroddi fyrir því að rústa innviði verkalýðshreyfingarinnar, að það þyrfti nú eitthvað að taka á þessu liði í verkalýðshreyfingunni. Ég hef farið í gegn um plögg í mínum huga og einnig ýmsar yfirlýsingar hennar sem voru býsna margar þannig að það kann að vera að þær hafi farið fram hjá mér í öllum vaðlinum. En ég man það ekki. Ég bið hv. þm. að leiðrétta mig þá og að hún rifji það upp með mér á hvaða fundi það var eða í hvaða blaði það var eða í hvaða sjónvarpsþætti það var sem hún lofaði því sérstaklega að vera í fararbroddi um það að rústa innviði verkalýðshreyfingarinnar, að gjörbreyta vinnulöggjöfinni í þessu landi. Á hvaða loforðalista var það og númer hvað var það loforð? Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir ætlar að rifja það upp með mér hér á eftir.

[11:00]

Framsfl. er skrýtinn flokkur og hefur verið það lengi. Hann er gjarnan talinn opinn í báða enda. Það varð opnun aldeilis skyndilega í annan endann í gær. Hún birtist í ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar. Margir höfðu beðið eftir þeirri ræðu. Þá opnaðist nefnilega hinn endinn, þessi endi sem segir nei. Það er þessi já, já, nei, nei, flokkur. Guðni Ágústsson lýsti því nefnilega yfir að honum fyndist hér óskynsamlega staðið að verki. Með mildilegum hætti eins og honum einum er lagið rassskellti hann ráðherra sinn. Hann sagði hér eins og honum er einum lagið og ekki er hægt að hafa eftir að auðvitað hefðu menn átt að standa öðruvísi að þessu verki. Auðvitað væri það þannig að fjölmargt efnislegt í þessu frv. væri fullkomlega óásættanlegt. Síðan kom framsóknarmennskan upp í honum, já, já, nei, nei. Þrátt fyrir það ætla ég nú að styðja þetta. Hann varð nefnilega undir að hans eigin sögn í atkvæðagreiðslu innan þingflokks Framsfl. Þegar hann var þaulspurður rifjaði hann upp að hér ætti hann við samvisku sína í þessum sal en ekki við flokksræði félaga síns hæstv. ráðherra, Páls Péturssonar. Hann svaraði því til að hann ætti hér við sína samvisku. Við bíðum spennt eftir því hér á morgun hvort ræður, svört samviska hæstv. ráðherra eða hrein og tær samviska hv. þm. Guðna Ágústssonar sem ætlar að láta eigin sannfæringu ráða ferð en ekki meint flokksræði. Það er hins vegar í þessu sambandi mjög mikilvægt að fá það upplýst og ég kalla hér eftir því sérstaklega hverjir aðrir voru í liðsveit Guðna Ágústssonar í þingflokki Framsfl. Hann orðaði það einhvern veginn þannig efnislega að hann hefði orðið undir og hans sjónarmið. Mér fannst það gefa til kynna að það hefði verið einhver sveit í þessum 14 eða 16 manna þingflokki Framsfl. sem hefði fylgt honum að máli. Ég kalla sérstaklega eftir þeim þingmönnum Framsfl. sem eru með óbragð í munninum eins og hv. þm. Guðni Ágústsson þegar þessi mál ber á góma. Hefur hann einn efasemdir um ágæti verka hæstv. ráðherra og framgang hans í þessu máli? Er hann aleinn eða á hann sér hugsanlega einhverja stuðningsmenn sem hafa skilning á hans viðhorfum? Ég trúi að svo sé. En á meðan það kemur ekki fram hlýt ég að ætla að hann sé einríðandi í þessu máli, hann vaði þennan elg aleinn gegn öllum hinum sem vilja ganga í björg með íhaldinu og rústa innviðum verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Að minnsta kosti er það alveg kýrskýrt að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur gengið í björg með ráðherranum. Um það þarf ekki að deila. Aðrir hv. þm. Framsfl. hafa látið sig málið tiltölulega lítið varða hér. Kannski er það vegna þess að þeir hafa sama óbragðið í munninum og hv. þm. Guðni Ágústsson en vilja ekki láta á því bera neitt sérstaklega hér að þeir séu aðilar að þessu máli og ætla hér í kyrrþey að ýta á græna takkann þegar kemur að endanlegri afgreiðslu þessa máls. Ég skal ekkert um það fullyrða en mér býður í grun að svo sé. (KÁ: Það verður fylgst með því.) Það verður fylgst mjög gaumgæfilega með því, virðulegi forseti, hverjir verða í liðssveit hv. þm. Guðna Ágústssonar og hverjir í liðssveit hæstv. ráðherra, Páls Péturssonar. Svo verður fylgst með samviskunni mjög gaumgæfilega. (Gripið fram í: Guðni verður farinn.) Hv. þm. Guðni Ágústsson fer auðvitað ekki hænufet fyrr en búið er að ganga frá þessu máli. Það veit hann sjálfur. Hans samviska er svo hrein og tær í þeim efnum að hann hleypur ekki frá þessu stóra verkefni sínu.

Virðulegi forseti. Ég hef af eðlilegum orsökum staldrað örlítið við þessar flokkspólitísku kringumstæður og velt dálítið vöngum yfir því hvað hér sé í raun á ferð og hvaða skýringar kunni að vera á þessum sinnaskiptum hæstv. ráðherra og Framsfl. Ég hef ekki nennu til þess hér á þessum vettvangi og ekki tíma til að fara yfir allar þær umpólanir sem átt hafa sér stað í þessum flokki, já, já, nei, nei, flokki opnum í báða enda í hverju málinu á fætur öðru. Verkin sýna merkin í þeim efnum og óþarfi að vera að rekja það. En hér eru þeir í fararbroddi, hér eru þeir ekki taglhnýtingar íhaldsins eins og í árásinni gegn opinberum starfsmönnum. Hér eru þeir í fararbroddi, hér ryðja þeir brautina og íhaldið tifar léttstígt á eftir og lætur sér vel líka, brosir út að báðum eyrum og draumurinn gamli hefur hér ræst. Hæstv. ráðherra Páll Pétursson leiðir liðið.

Virðulegi forseti. Ég fór orðum um það í upphafi hver tilgangurinn var með því að setja af stað þá vinnu sem hófst á haustdögum 1994. Hér hefur því verið haldið fram að ekki hefði verið unnt að bíða lengur og ljóst hafi verið eftir 35 eða 40 fundi að þessi viðræðuhópur hefði ekki komist að niðurstöðu. Það er búið að afsanna hér margsinnis og yfirlýsingar einstaklinga í þessum sama hópi segja einfaldlega hið gagnstæða. Hópurinn var langt í frá kominn á leiðarenda og tilraun var langt í frá ólokið með að ná einhvers konar niðurstöðu um einstök atriði í þessum efnum sem til gagns mættu verða í framtíðarsamskiptum aðila vinnumarkaðarins. Ég spyr og hlýt að ganga eftir því: Hvers vegna lá svona lífið á, hæstv. ráðherra? Hvað var það í tímanum nákvæmlega sem gerði það að verkum að ekki seinna en nú þurfti að rífa þetta mál úr höndum þessa vinnuhóps og fara með það fram með þeim hætti sem hér um ræðir? Hvað er það nákvæmlega í augnablikinu sem kallar á að það þurfi að rífa upp alla vinnulöggjöfina frá 1938, rúmlega 50 ára gamla löggjöf? Það hafa engin svör fengist við þessu. Ekki af neinum toga. Það er auðvitað ekkert í augnablikinu sem gerir það að verkum að það þurfi að fara fram með þeim hætti sem hér um ræðir. En mér er til efs að hæstv. ráðherra, hvað þá hans lið í Framsfl., átti sig í raun á því hvaða verk hér er verið að vinna. Hér er ekki um neitt venjubundið löggjafarstarf að ræða. Það er engin tilviljun að við búum við vinnulöggjöf frá 1938. Það er vegna þess að hér er um eins konar gullið plagg að ræða fyrir verkalýðshreyfinguna í þessu landi, fyrir þessi samskipti sem eru jafnmikilvæg og þau eru viðkvæm. Menn hafa áttað sig á því allar götur síðan 1938 að menn vaða ekkert í verk af þessum toga. Menn ráðast ekkert fram með ofboðslegum látum. Auðvitað hafa ýmsir ráðherrar látið sér það til hugar koma að gera gangskör að því og fara fram í þá veruna. Ég hef rifjað það upp að fyrrv. félmrh., Gunnar heitinn Thoroddsen, bar fram hugmyndir af þeim toga árið 1975, ef ég man rétt. Hann hvarf frá því ráði og áttaði sig á því mjög fljótlega að svona gengju menn ekki um dyr í jafnmikilvægu og viðkvæmu máli og hér um ræðir. Mikil lifandis skelfing held ég að það hefði verið hyggilegt fyrir Framsfl. að lesa sér til um sögu þessara mála. Ekki síst held ég að það sé þörf á því að hæstv. ráðherra geri það því hér hefur hann ítrekað í þessum sama ræðustóli farið fram með ósannindi eða a.m.k. misskilning. Hann hefur haldið því fram að vinnulöggjöfin frá 1938, sem stundum með rangnefni hefur verið nefnd þrælalög, hafi verði samin á nákvæmlega sama hátt og hér. Það er bara alrangt. Vinnulöggjöfin frá 1938 var nefnilega samin í fullu samráði við verkalýðshreyfinguna í landinu. Raunar var það sérstök nefnd tveggja flokka, þáv. stjórnarflokka, flokka vinnandi stétta, míns flokks og flokks hæstv. ráðherra sem samdi það frv. Og fékk það raunar frá kommúnistum þeirrar tíðar þá einkunn að það væru þrælalög. En Alþýðusamband Íslands, við skulum bara hafa það eins og það var, lýsti yfir sérstakri ánægju sinni með það frv. í kjölfarið. (Gripið fram í: Og meiri hluti verkalýðsfélaganna í landinu.) Og meiri hluti verkalýðsfélaganna í landinu. Haldi menn því hér fram eitt andartak að eitthvað sé líkt með gangi mála nú og þá er það fráleitt, fullkomlega fráleitt. Nema ráðherrann hafi ekki orðið var við mótmælin sem átt hafa sér stað. Að minnsta kosti tók hann á móti skjali í gær og átti orðastað við fulltrúa á alþýðusambandsþingi hér fyrir utan þetta hús. Hvílík lítilsvirðing. Kæru félagar! Það væri nú gott og gaman að eiga við ykkur samráð en ef það gengur ekki þá verður bara að hafa það. Kæru félagar! Ég vildi hins vegar gjarnan eiga við ykkur gott samstarf í framtíðinni, en bara ekki núna. Hvílík lítilsvirðing, og þetta er vinnumálaráðherrann okkar hæstv.

Nei, virðulegi forseti, þetta er ekki eingöngu mikilvæg löggjöf fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu þetta er líka mikilvæg löggjöf sem lýtur að rótum okkar samfélagskerfis, lýðræðinu í þessu landi. Halda menn til að mynda að deilurnar í Póllandi á sínum tíma, frelsi verkalýðshreyfingarinnar, Solidarnost, hafi eingöngu snúist um einhver tæknileg atriði? Nei, þau snerust um grundvöll mannréttinda og urðu til þess að hægt var að koma bévítans kommunum af höndum pólskrar alþýðu. Halda menn að það sé einhver tilviljun að lýðræðisbarátta flestra þjóða sem hafa orðið að búa við ofríki hvort heldur er frá ... Ég skil ósköp vel, virðulegi forseti, að ráðherra skuli rjúka á dyr. Það er erfitt að sitja undir þessari lýsingu en ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt að hann heyri hana engu að síður. Telur ráðherrann það virkilega hafa verið einhverja tilviljun að frelsisbarátta þjóða á sér gjarnan stað einmitt í gegnum þennan kanal? Þurfi þær að koma af höndum sér ofríki hvort heldur er til vinstri frá kommúnistum eða slíkum eða frá hægri, frá fasistum eða herstjórnum þá fer það í gegnum alþýðusamtök viðkomandi ríkja. Þar er grasrótin í viðkomandi ríkjum, sú lýðræðisást sem þar er er hið mikilvæga hreyfiafl. Mér er snarlega til efs að nokkrar ríkisstjórnir aðrar en þær sem hafa þessi öfgasjónarmið í heiðri til vinstri eða hægri láti sér til hugar koma að fara fram með ámóta hætti og hér er gert. Að ráðast hér fram með heildstæða löggjöf sem er meira en 50 ára gömul, umpóla henni og gjörbreyta eftir eigin geðþótta gegn vilja 60 þús. vinnandi fólks í þessu landi. Ég veit ekki hvar þetta mundi gerast nema einhvers staðar í Suður-Ameríku hjá herstjórnunum þar. Eða í einhverjum kommúnistaríkjum sem eru nú flest liðin undir lok. Það yrði nú tímanna tákn hér á árinu 1996 ef verkalýðshreyfingin í landinu þyrfti að stofna hér Solidarnost, frjálsa verkalýðshreyfingu á Íslandi, til að verjast ofríki þessarar ríkisstjórnar sem við búum við. Það yrði aldeilis sending frá lýðræðisríkinu Íslandi út til Evrópu og út um heim allan. Það er auðvitað það í grófum dráttum, virðulegi forseti, sem hér blasir við. Það er ekkert minna en það. Og ég held að það sé nauðsynlegt og mikilvægt að menn átti sig á því hvers konar fjöregg við erum hér með í höndum.

Ég nefndi hér áðan einhvers konar leyniatkvæðagreiðslur í Framsfl. Mér kom til hugar hvort það sé ekki mikilvægara verk fyrir þessa löggjafarsamkundu að setja lög á Framsfl. og setja einhverjar reglur um það hvernig hann hagar sinni atkvæðagreiðslu innan þings eða utan. Að minnsta kosti þannig að við fáum að vita hvernig þessi kaup gerast á eyrinni hér á neðri hæðinni í þingflokksherbergi Framsfl. Ég held að það væri brýnna og mikilvægara mál að setja einhverjar leikreglur lýðræðis um það. Ég er handviss um að þessar tugþúsundir kjósenda sem létu ginnast til að kjósa Framsfl. í apríl sl. og eru bara býsna margir í hópi þeirra 66 þúsunda sem eru innan verkalýðssamtaka hefðu ekki greitt atkvæði með því að fara svona fram í þingflokksherbergi Framsfl. Þeir hefðu hugsanlega verið í liði með hv. þm. Guðna Ágústsyni. En öndvert við hann munu þeir ekki láta plata sig tvisvar. Þeir munu láta samviskuna ráða en ekki flokksræðið.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja ræðu mína mikið meira. Forseti hefur kannski tekið eftir því að ég hef hér með vilja varla vikið aukateknu orði að innihaldi þessa frv. Það er vegna þess að ég ætla ekki að láta hafa mig til þeirra verka hér að ræða efnislega það mál sem kemur inn með þeim hætti sem hér liggur fyrir. Þetta frv. á ekki að vera á borðum okkar þingmanna. Málið er ekki flóknara en það. Þetta frv. átti aldrei að koma inn í þing og enn þá er möguleiki til þess að hæstv. ráðherra, með liðstyrk hv. þm. Guðna Ágústssonar, stefni til nýs fundar í þingflokksherbergi Framsfl. og sjái að sér og hætti við allt saman, setjist aftur að þessu samningaborði sem er enn til staðar og taki upp þráðinn, ekki frá núverandi frv. eða breyttu frv. heldur frá þeim stað sem hópurinn lauk einhvern tíma í upphafi þessa árs. Það er enn þá möguleiki en tíminn líður.

[11:15]

Auðvitað er undarlegt í ljósi pólitískrar umræðu hér á landi og sérstaklega er það undarlegt þegar horft er á hæstv. ráðherra Pál Pétursson sem hefur farið mikinn í þessum ræðustóli gegn aðild okkar að hverjum alþjóðasamtökunum á fætur öðrum. Allir þekkja baráttu hans gegn ESB, EES. Hann vill bara ekkert útlönd, í mesta lagi kannski Norðurlönd. Nú skuli það vera einasta bjargráðið gegn þessum sama manni að við höfum skuldbindingar gagnvart þessum alþjóðlegu stofnunum, EES, Alþjóðavinnumálastofnuninni og fleiri aðilum. Og guði sé lof. Hvar stæðum við annars ef hæstv. ráðherra hefði lausan tauminn og við værum ekki bundin af þessum samningum? En hann greiddi vissulega atkvæði gegn þeim sumum hverjum. En nú eru einustu böndin sem lýðræðiselskandi Íslendingar hafa til þess að stöðva hæstv. ráðherra í frumhlaupi hans í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki vilja til þess að fara efnislega í umræðuna. Hér er búið að gera það mjög rækilega. Ég segi það eitt að það segir í raun alla sögu um það hversu þessi mál eru illa ígrunduð og hugsuð, bæði formlega og efnislega, að hér skuli vera á ferðinni til 2. umr. allt annað frv. en ráðherra kom glaðhlakkalegur inn með í upphafi og er enn þá býsna glaður að því er sýnist vegna þess eins að alþjóðlegir samningar stöðvuðu það, vegna þess eins að lögfræðilegir ráðunautar bentu á að svona gerðu menn ekki. Hæstv. ráðherra hefur sagt oftar en einu sinni að hann tæki mark á lögfræðilegum ráðunautum en hann tekur ekkert mark á fólkinu í landinu, tekur ekkert mark á þeim efnislegu og siðferðilegu viðhorfum sem fólkið í landinu vill koma á framfæri við hann en hann tekur mark á lögfræðingum. Hann verður að taka mark á EES og hann verður að taka mark á vinnumálalöggjöfinni í alþjóðlegum samningum sem við höfum undirgengist þannig að það er ekki alveg sama hver á í hlut þegar hæstv. ráðherra tekur mark á sjónarmiðum og viðhorfum manna og samtaka.

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka ræðu minni. Það er ekki undarlegt að íhaldið brosi breitt, Garðastrætið brosir breitt og Framsókn setur undir sig hausinn og vinnur skítverkin. Ég er hins vegar sannfærður um það að þessir aðilar eiga eftir að komast að því fullkeyptu áður en varir að hér er verið að vinna vond verk og vond verk koma í bakið á mönnum fyrr en síðar. Ég held að það líði ekki margir mánuðir þar til hæstv. ráðherra félagsmála og hæstv. ríkisstjórn átti sig á því hvers konar frumhlaup hér er á ferð og hvers konar arfavitleysa það er í raun sem menn eru að fremja verði þetta skelfilega frv. nokkru sinni að lögum.