Norðurlandasamningur um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 14:15:58 (6426)

1996-05-22 14:15:58# 120. lþ. 144.10 fundur 493. mál: #A Norðurlandasamningur um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu# frv. 66/1996, Frsm. GHH
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur

[14:15]

Frsm. utanrmn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég tel að þetta sé þörf ábending hjá hv. þm. Reyndar er það svo að við í utanrmn. höfum nokkuð rætt þetta hversu mjög það dregst iðulega að samningar sem hafa verið undirritaðir af Íslands hálfu berist til þingsins. Við gerum okkur grein fyrir því að það er mikið vinnuálag í utanrrn. Eigi að síður er það svo að oft hefur dregist úr hömlu að leita eftir staðfestingu Alþingis og þetta dæmi sem hv. þm. tekur er ekki eina dæmið sem við erum að afgreiða í dag því að fyrr á fundinum lauk umræðu um samning sem var samþykktur 1984 og næsta mál á dagskrá eru samningar frá 1980. Það er því nokkuð vel að verki staðið við það mál sem er einmitt núna til umræðu miðað við ýmislegt annað.

Aðalatriðið er að sjálfsögðu að þingið og framkvæmdarvaldið bæti sig í þessum efnum og ekki séu undirritaðir samningar sem ekki er ætlunin að leggja fyrir þingið en ef þeir eru undirritaðir þá séu þeir lagðir fyrir þingið til umfjöllunar svo fljótt sem verða má þannig að efni þeirra geti komið íslenskum ríkisborgurum að gagni svo fljótt sem hægt er.