Norðurlandasamningur um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 14:17:21 (6427)

1996-05-22 14:17:21# 120. lþ. 144.10 fundur 493. mál: #A Norðurlandasamningur um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu# frv. 66/1996, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur

[14:17]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er kannski ástæðulaust að orðlengja það en vegna þess að hv. þm. Geir Haarde nefndi að þetta væri ekki versta dæmið er hins vegar ástæða til þess að vekja athygli á því sérstaklega að þessi samningur, án þess að ég sé að fara í neinn samjöfnuð í því sambandi, tekur til fjölmargra íslenskra einstaklinga. Þeir eru ófáir sem þurfa nánast daglega að leita réttar síns á grundvelli samkomulags af þessum toga.

Nú veit ég vel að kerfið hefur verið býsna liðlegt. Enda þótt Alþingi hafi ekki staðfest þetta nýja fyrirkomulag og við byggjum á gömlum samningum sem eru ábót eru engu að síður ákvæði á þessum nýja samningi sem eru umtalsverð réttarbót í ljósi þess að hér er um að ræða samkomulag sem íslenskir þegnar í útlöndum og norrænir þegnar heima á Íslandi þurfa að hafa gagn af, nánast á daglegum grundvelli. Þess vegna er málið kannski sýnu alvarlegra.

Ég ætla ekki að orðlengja það, virðulegi forseti. Ég skil hv. þm. Geir H. Haarde, formann utanrmn., þannig að það sé vilji nefndarinnar og væntanlega framkvæmdarvaldsins að gera bragarbót á.