Almannatryggingar

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 14:55:35 (6435)

1996-05-22 14:55:35# 120. lþ. 145.3 fundur 510. mál: #A almannatryggingar# (sérfæði) frv. 100/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[14:55]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í hv. heilbr.- og trn. sem flytur þetta frv. hefur legið um nokkurra mánaða skeið frv. um það að heimilt verði við sérstakar aðstæður að fjármagna kaup á farsímum í öryrkjabíla. Farsímar eru orðinn sjálfsagður og viðurkenndur hluti af öryggisbúnaði þess fólks sem fær stuðning til að kaupa þessa bíla. Nokkrir aðilar sem hafa sótt um þessi lán til Tryggingastofnunar ríkisins hafa greint mér frá því að þeir hafi fengið synjun á beiðni við þessum stuðningi þar sem ekki sé til þess lagaheimild. Þess vegna flutti ég þetta frv. fyrir nokkrum mánuðum og það hefur legið lengi fyrir nefndinni. Mér finnst það nokkuð athyglisvert að nefndin skuli afgreiða þennan hluta málsins án þess að geta þess hvernig þessi þáttur hefur verið afgreiddur í nefndinni sem ég nefni hér sérstaklega. Ég vil spyrja hv. talsmann nefndarinnar frá því áðan, sem ég hygg að hafi verið hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, hverju það sætir að þetta mál hefur ekki verið afgreitt og hvort um það er ágreiningur vegna þess að ég hlýt að áskilja mér rétt til að flytja breytingartillögu við frv. við 3. umr. og láta á það reyna hvort hægt er að koma jafnsjálfsögðum og einföldum hlut í gegnum þingið eins og þessu litla máli sem ég lagði fyrir í frumvarpsformi fyrir nokkrum mánuðum.