Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 15:10:13 (6440)

1996-05-22 15:10:13# 120. lþ. 145.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[15:10]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hlýtur að vekja athygli þegar sjónarmið af þeim toga koma fram sem hér voru túlkuð, m.a. þegar um stuðningsmann ríkisstjórnar er að ræða, en það er ríkisstjórnin sem ber málið fram. Ég hef auðvitað margt við þennan málflutning að athuga. Mér finnst að það skorti þá samkennd og þann samhjálparanda sem þarf að vera þegar aðstæður skapast eins og þær sem nú blasa við. Við getum auðvitað litið til baka og kennt okkur um að hafa ekki vaknað fyrr til vitundar um þá vá sem snjóflóðin eru sérstaklega. Ekki ætla ég að hafa á móti því að menn leiti leiða til sparnaðar á öðrum sviðum ef það eru skynsamlegar tillögur. En ég vil andmæla nokkrum staðhæfingum hjá hv. síðasta ræðumanni. Hann lét að því liggja að framkvæmdir til snjóflóðavarna gætu orðið meiri en þörf væri á vegna þess að sveitarfélögin fyndu sérstakan hvata vegna aukinna tekna. Þetta er alger fjarstæða. Það er alger fjarstæða að ímynda sér að menn fari að gera það nánast í fjáröflunarskyni að byggja snjóflóðavarnir. Auk þess verður í mörgum tilvikum um útboð að ræða og sjálfsagt í flestum tilvikum um að ræða sérhæfða vinnu sem reynir á útboð og það eru aðilar utan sveitarfélags. Eins það viðhorf að ætla eigendum viðkomandi fasteigna sem hafa verið svo óheppnir að fá úthlutað lóðum á svæðum sem síðan kemur í ljós að eru hættusvæði, hafa byggt í góðri trú samkvæmt skipulagi, að ætla þeim að bera viðbótariðgjöld finnst mér satt að segja ósanngjarnt og það er mjög langt seilst í röksemdafærslu af þessu tagi. Ég tel að hér sé brugðist eðlilega við í öllum aðalatriðum. Auðvitað þurfa menn að meta þetta í ljósi reynslu og fylgjast glöggt með framvindu mála og draga að fyllstu þekkingu í þessum málum. En ég tel skynsamlegt að reyna þá leið sem víðast að reisa varnarvirki til að verja byggð áður en farið er í að kaupa upp fasteignir í stórum stíl og ég met þá stefnu sem fram hefur komið af ríkisstjórnarinnar hálfu í þessum málum og sem góð samstaða hefur verið um í þinginu.