Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 15:13:18 (6441)

1996-05-22 15:13:18# 120. lþ. 145.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, KPál
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[15:13]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að veita andsvar við ræðu Hjörleifs Guttormssonar, hv. 4. þm. Austurl., en það fór fram hjá forseta þannig að ég ætla í fáum orðum að fjalla lítillega um það sem hv. þm. ræddi um eftir mína stuttu ræðu. Eins og hv. þm. sagði þá telur hann reyndar eins og ég og ég held allir aðrir, að öryggi íbúanna í viðkomandi byggðarlögum þurfi ávallt að vera tryggt. Ég taldi mig nú hafa tekið það fram, en að sjálfsögðu er það efst í huga allra þegar um slíkar varnir og aðgerðir er að ræða.

Mjög margt kemur upp í hugann þegar verið er að tala um svæði sem sumir hafa talið hættulaus. Þeir sem lengra muna, muna að þarna var einhvern tímann hætta en heimamenn hafa því miður ekki reynst óbrigðulir hvað þetta varðar. Þeir hafa teygt byggðir inn á hættusvæði þrátt fyrir að ritaðar heimildir hafi verið til um þau. Ég veit að slíkt hefur gerst því miður. Eigi að síður þá er samt núna að mér sýnist varðandi það byggðarlag sem ég talaði sérstaklega um, þ.e. Hnífsdal, verið að setja byggð svæði undir hættusvæði sem sannanlega hafa aldrei verið talin í hættu fyrir snjóflóðum. Þennan veg milli öryggis íbúanna og verndar byggðanna verður náttúrlega að reyna að feta þannig að sæmileg sátt ríki. En það er ljóst að í mörgum tilfellum eftir því sem mér sýnist varðandi það dæmi sem ég hef tekið hafa tilfinningarnar verið látnar ráða því hvernig farið var með þessi öryggismál. Það hef ég eftir íbúum sem búnir eru að eiga heima þarna áratugum saman. Ég tel því að í þessu tilfelli sé full ástæða til að skoða málið frekar.

[15:13]

Ég vil ítreka að varðandi margt af því sem hefur gerst hjá okkur og valdið hefur stóralvarlegum slysum og tjóni hafa verið til heimildir sem hefðu átt að vera mönnum til viðvörunar. Ég skora á menn að skoða enn frekar ritaðar heimildir sem varða snjóflóð í aldagömlum byggðarlögum. Með því að skoða þessar rituðu heimildir komast menn að hinu sanna. Í þessu tilfelli tel ég að það sé nauðsynlegt og þegar kemur að byggðasvæðum sem sannanlega eru í snjóflóðahættu eins og gildir um ákveðin byggðasvæði í Hnífsdal þá er hægt að beita vörnum sem gætu dugað. Þar hefur ekki verið farið inn á neinar aðrar aðgerðir en að kaupa upp hús. Þau svæði sem ekki eru keypt upp eru síðan undir snjóflóðasvæði eða hættusvæði II eins og kallað er. Önnur hús sem eru þar fyrir utan, restin af húsunum, eru innan hættusvæðis III. Ég held að því miður sé búið að sá í þessu tilfelli gríðarlega miklum ótta sem er ástæðulaus að mati þeirra heimamanna sem lengst hafa búið þar.

Með alls konar leiðigörðum sem hafa nú verið skoðaðir og reyndir víða um heim er hægt að beina snjóflóðum frá sannanlegum hættusvæðum þannig að þau beinist lengra frá byggðinni en í dag. Það er þá spurning með þau svæði sem þegar hafa verið keypt upp hvort gera megi tilraunir í hlíðunum þannig að einhvern tíma síðar gætu menn sagt með vissu að búið sé að verja svæðið og þar megi byggja aftur.