Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 15:21:14 (6443)

1996-05-22 15:21:14# 120. lþ. 145.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[15:21]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fellst á það með hv. þm. að ritaðar heimildir eru að sjálfsögðu ekki svo fullnægjandi að það hægt sé að treysta einvörðungu á þær. En auðvitað þarf að skrá niður þá reynslu sem elstu íbúar á viðkomandi svæðum muna eða annarra sem vel til þekkja. Slíkt má ekki glatast.

En það sem ég hafði kannski frekar í huga var að t.d. eru til ritaðar heimildir í Jarðabók Árna Magnússonar sem m.a. komu fram í umræðu um hið hörmulega slys í Súðavík. Þar er sagt frá því að snjóflóð hafi fallið á svipuðum slóðum á fjárhús en þar er um mjög gamla ritaða heimild að ræða sem ég veit ekki hvort menn hafa gert sér grein fyrir að er til.

Ég geri mér líka grein fyrir því, herra forseti, að þótt ekki séu til heimildir fyrir einhverjum ákveðnum aðstæðum sem gætu kannski skapast á 500 ára fresti eða jafnvel fleiri þúsund ára fresti verður aldrei hægt að tryggja slíkt. Og á meðan við eigum heima á landi sem Íslandi verðum við aldrei svo tryggðir að við getum sagt fyrir um alla hluti eða þær náttúruhamfarir sem menn hafa þurft að lifa við í þessu landi frá upphafi byggðar. En í grófum dráttum held ég að við hv. þm. séum sammála um þetta mál, herra forseti. Ég vona bara að það verði farið ítarlegar yfir þetta og hv. umhvrh. taki tillit til þessarar umræðu.