Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 16:10:01 (6453)

1996-05-22 16:10:01# 120. lþ. 145.8 fundur 527. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál. 15/1996, SighB
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[16:10]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Efnisatriði þessarar þáltill., þ.e. samningurinn sjálfur, hafa áður verið rædd á Alþingi og því ástæðulaust að hafa um málið mörg orð. Ég vil aðeins taka undir orð hv. 4. þm. Norðurl. e. sem kvartaði yfir því að eðlilegt samráð skyldi ekki hafa verið haft við nefndir þingsins, þ.e. utanrmn. og sjútvn. Það var nákvæmlega ekkert samráð haft við sjútvn. Utanrmn. var greint var frá efnisatriðum hugsanlegs samkomulags skömmu áður en samningarnir voru formlega undirritaðir en þótt í ljós hafi komið að efnisatriðin hafi verið kunn um nokkurn tíma áður en undirritunin fór fram var utanrmn. t.d. ekki upplýst um það og er það auðvitað mjög veigamikið mál í þessu sambandi að til stæði að opna íslensku fiskveiðilögsöguna fyrir veiðum Rússa og Norðmanna án þess að fá gagnkvæmnisrétt til veiða í rússneskri og norskri landhelgi. Þetta er að sjálfsögðu stórmál því að þarna er verið að setja fordæmi sem getur orðið okkur Íslendingum mjög hættulegt. Mér finnst satt að segja mjög óeðlilegt að ef vitneskja um að þetta kæmi til greina lá fyrir hafi það ekki verið rætt við utanrmn. því að oft var þörf en þarna virkileg nauðsyn.

Ég vil aðeins í örfáum atriðum og stuttu máli gera efnislegar athugasemdir við þann samning sem hér er gerður. Ég vil taka það skýrt fram að mér finnst ekki vafasamast við þennan samning það samkomulag sem gert var um skipti veiðanna á milli þjóðanna á yfirstandandi veiðitímabili. Út af fyrir sig er hægt að gagnrýna það, en það er ekki það alvarlegasta í samkomulaginu. Það sem mér finnst alvarlegt í samkomulaginu eru einkum fjögur atriði: Í fyrsta lagi er í grein 2.1. í bókuninni samþykkt af hálfu Íslendinga og Norðmanna að opna fyrir veiðar í efnahagslögsögu Rússlands. Með þeirri undirritun er raunverulega verið að fallast á að Rússar geti stundað síldveiðar innan efnahagslögsögu sinnar, en eins og hv. þingmenn vita er þar eingöngu um smásíld að ræða sem hingað til hefur verið lögð mjög mikil áhersla á af hálfu bæði Norðmanna og Íslendinga að Rússar létu óveidda og hafa þeir fallist á það undanfarin ár. Það er rétt að Rússar hyggjast ekki nota þennan rétt sinn á yfirstandandi ári, en engu að síður eru Norðmenn og Íslendingar með þessu samkomulagi búnir að viðurkenna og skrifa undir að Rússar geti stundað slíkar veiðar og það gæti orðið afdrifaríkt upp á framtíðina.

Í öðru lagi finnst mér líka geta verið alvarlegt upp á framtíðina það ákvæði sem er í grein 6.2. í bókuninni, þ.e. þar sem ákveðið er vinnuferli um framtíðarákvörðun heildarsíldveiðikvóta á þessu svæði og skiptingu heildarkvótans á milli samningsþjóðanna þriggja. Ástæðan er sú að þessi bókun er ekki tímabundin eins og skiptingin er á árinu 1996 heldur er þarna um að ræða ótímabundið samkomulag um vinnuferli sem á að vera ákvarðandi um heildaraflakvóta í framtíðinni og skiptingu milli þjóðanna. Þar sem Íslendingar eru búnir að skrifa undir hvernig að þessum ákvörðunum á að standa yrði mjög erfitt, nánast útilokað fyrir Íslendinga, að brjótast undan því vinnuferli jafnvel þó þeir væru mjög ósáttir með niðurstöðuna. Ég hef því vissulega áhyggjur af því að þarna séu menn búnir að fjötra sig meira en ástæða væri til til næstu framtíðar. Það er hins vegar að sjálfsögðu reynslan sem á eftir að skera úr um hvort svo verður eða ekki.

[16:15]

Í þriðja lagi geri ég athugasemdir við nótuskipti milli Íslands og Noregs eins og fram kemur í svarbréfi sjútvrh. Íslands á bls. 7 og 8. Þar eru Íslendingar að opna fiskveiðilögsögu sína fyrir Norðmönnum til veiða á 127 þús. lestum af síld í íslenskri efnahagslögsögu án þess að Norðmenn með sama hætti opni fiskveiðilögsögu sína fyrir íslenskum skipum á gagnkvæmnisgrundvelli því fiskveiðilögsagan við Jan Mayen er ekki norsk fiskveiðilögsaga og loðnuveiðisamningurinn við Norðmenn frá að mig minnir árinu 1980 gerir ráð fyrir að Íslendingar hafi heimild til að veiða í lögsögu Jan Mayen sanngjarnan hlut af deilistofnum takist á annað borð samkomulag um skiptingu veiða á milli ríkjanna. Hin eðlilega gagnkvæmnisregla ef Íslendingar opna fiskveiðilögsögu sína fyrir veiðum Norðmanna væri því að sjálfsögðu sú að Norðmenn opnuðu sína fiskveiðilögsögu, fiskveiðilögsögu Noregs á sama hátt fyrir veiðum íslenskra fiskiskipa. Það er ekki gert þarna.

Fjórða efnisatriðið, virðulegi forseti, sem ég vildi gera athugasemdir við er í samningi milli Íslands og Rússlands um veiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu á árinu 1996 þar sem Íslendingar fallast á að opna fiskveiðilögsögu sína fyrir Rússum án þess að fá nokkur sambærileg veiðihlunnindi eða aðgang að veiðum innan rússnesku fiskveiðilögsögunnar.

Ég held að þessi fjögur atriði séu mun alvarlegri og geti reynst okkur alvarlegri í framtíðinni en endilega sú skipting á heildaraflakvóta sem samkomulag náðist um fyrir árið 1996 eitt og sér. Ég er ansi hræddur um að þarna sé bæði verið að setja vinnureglur sem geti orðið okkur erfiðar í framtíðinni og einnig verið að setja fordæmi varðandi opnun íslensku fiskveiðilögsögunnar sem gæti gert stöðu okkar í framtíðarsamningum bæði við þessar tvær þjóðir, Norðmenn og Rússa og e.t.v. aðrar þjóðir, verri en efni standa til.