Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 16:26:46 (6455)

1996-05-22 16:26:46# 120. lþ. 145.8 fundur 527. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál. 15/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[16:26]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu meginatriði í þessu máli hvernig reynslan mun dæma þau atriði í samningnum sem hér er verið að gagnrýna. Ég hef aðeins sagt að ég óttast að annars vegar það vinnuferli sem búið er að samþykkja og hins vegar sú ákvörðun að opna íslenska fiskveiðilögsögu fyrir öðrum þjóðum án fullrar gagnkvæmni geti reynst okkur þungt í skauti í framtíðinni vegna þess fordæmis sem gefið er með því að opna íslensku fiskveiðilögsöguna án gagnkvæms veiðiréttar. Það fordæmi fer varla fram hjá þeim þjóðum sem eiga viðskipti og samskipti við Ísland í sjávarútvegsmálum. Og að menn eru búnir að samþykkja vinnuferli sem menn hafa ekki hugmynd um hvort muni leiða til breytinga á hlutfallaskiptingunni eins og hún er á árinu 1996 eða ekki. Við getum að sjálfsögðu vonað hið besta en úr þessu sker reynslan. Ég er ansi hræddur um það miðað við þá reynslu sem við höfum haft af samskiptum við Norðmenn að þessi reynsla geti orðið okkur erfið. En framtíðin verður að skera úr um það.