Vegáætlun 1995--1998

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 17:13:14 (6465)

1996-05-22 17:13:14# 120. lþ. 145.9 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[17:13]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. sem flutt er af okkur þremur þingmönnum Alþb. og óháðra í Reykjavík og er á þskj. 995. Tillagan byggist á því að vegna aukinna tekna af almennu vörugjaldi af bensíni eigi að vera unnt að verja nokkru meira fé til vegamála á þessu ári en gert hafði verið ráð fyrir. Hér er sett upp talan 350 millj. kr. sem hugsanlegur möguleiki í þeim efnum og síðan er miðað við að þessum fjármunum verði varið til þess að standa við þau kosningaloforð sem gefin voru fyrir síðustu kosningar í vegamálum, sérstaklega af Sjálfstfl. og alveg sérstaklega á Reykjavíkursvæðinu, þéttbýlissvæðinu, varðandi framkvæmdaátak í vegamálum.

Hv. þingmenn muna sjálfsagt að í tengslum við kjarasamninga fyrir nokkrum árum gaf þáv. ríkisstjórn út yfirlýsingu um að varið skyldi tilteknum fjármunum, mig minnir samtals um 3 milljörðum kr., til sérstaks framkvæmdaátaks í vegamálum, m.a. vegna þeirra erfiðleika sem þá voru uppi í atvinnulifinu. Það varð fljótlega ljóst að hluti af þessum fjármunum eða talsverður hluti af þessum fjármunum mundi renna í verkefni á höfuðborgarsvæðinu og á þeim forsendum byggðu menn áætlanir sínar. Vegagerðin byggði áætlanir sínar á því, borgarstjórn Reykjavíkur byggði áætlanir sínar á því og bæjarfélögin í kring byggðu sínar áætlanir á því að það yrðu tilteknir fjármunir í þessi verkefni. Þegar hins vegar skipt var um ríkisstjórn varð niðurstaðan sú að skera vegáætlunina verulega mikið niður og sérstaklega þetta framkvæmdaátak sem þýðir að framlög til vegamála og vegaframkvæmda í Reykjavík eru skorin meira niður hlutfallslega en víða annars staðar af því að Reykjavík hafði auðvitað haft meira hlutfallslega út úr framkvæmdaátaksupphæðinni af því að henni er deilt út eftir höfðatölu en ekki hinni almennu reglu vegáætlunarinnar.

[17:15]

Nú getur það alltaf gerst að ríkisstjórnir taki ákvörðun um það að skera niður framlög til vegamála eða framlög til einhverra verkefna og það er yfirleitt erfitt. Það er sársaukafullt fyrir alla sem að því standa og á því bera ábyrgð. Hins vegar þegar um er að ræða tiltekin stór verkefni getur slíkur niðurskurður verið afbrigðilega erfiður og flókinn og það á við um það verkefni sem hefur verið nefnt í þessari umræðu og byrjað var á í Reykjavík snemma á þessu ári og seint á því síðasta, þ.e. Ártúnsbrekkubreytingarnar. Þar er um að ræða gríðarlega mikla og dýra framkvæmd. Allir sem þekkja eitthvað til þessara mála eru þakklátir fyrir að landsbyggðin yfirleitt og landsbyggðarþingmenn hafi stutt þær framkvæmdir myndarlega sem hefur verið farið í samkvæmt vegáætlun í Reykjavík. Við drögum ekkert af okkur í þeim efnum. Við teljum að það sé mikilvægt framlag allra landsbyggðarmanna til sátta um vegamálin hvernig á þessu máli hefur verið haldið en þá biðjum við um leið fólk um að skoða þann veruleika að það að fresta þessari framkvæmd eða að helminga hana eins og menn eru að gera er mjög vont mál vegna þess að framkvæmdin kemur ekki að þeim notum sem gert var ráð fyrir. Sérstaklega er þessi framkvæmd mikilvæg af því að hún er mikilvægur öryggisþáttur í umferðinni. Hún er ekki aðallega mikilvæg vegna þess að menn komist miklu hraðar ofan úr Grafarvogi og vestur í bæ. Það er út af fyrir sig eitt atriði en það skiptir engu máli í mínum huga í þessu samhengi. Aðalatriðið er það að slysahættan, sem menn ætluðu sér að reyna að fyrirbyggja með þessari framkvæmd, minnkar ekki eins og menn höfðu gert ráð fyrir. En slysin sem þarna er verið að tala um að draga úr eru ekki fyrst og fremst á Ártúnsbrekkunni sjálfri, heldur eru þau vegna keyrslu inn á Ártúnsbrekkuna af hliðargötum eða út af henni inn á hliðargötu. Þess vegna höfum við þingmenn Reykjavíkur lagt gríðarlega mikla áherslu á þetta og ég er sannfærður um að það á við um þingmenn allra flokka.

Það er líka rétt að nefna það að þingmenn Reyknesinga hafa átt mjög gott samstarf við Reykvíkinga í þessum málum. Það er svo merkilegt og það er ástæða til þess að halda því sérstaklega til haga úr þessum virðulega ræðustól að þingmenn Reykvíkinga og Reyknesinga hafa fulla samstöðu um úthlutun á þessu framkvæmdafé til vegamála á höfuðborgarsvæðinu. Hv. þingmenn Reyknesinga líta þeir þannig á að þeir beri nokkra ábyrgð á því hvernig fjármunum er ráðstafað í einstakar framkvæmdir í Reykjavík eins og í göngubrýr svo að ég nefni dæmi. Eins teljum við að við berum nokkra ábyrgð á því hvernig fjármunum er ráðstafað í einstakar framkvæmdir í Reykjaneskjördæmi og á höfuðborgarsvæðinu eins og þær miklu framkvæmdir sem óhjákvæmilegar eru á allra næstu árum og missirum í Mosfellsbæ en hefur orðið að fresta vegna þess að peningar hafa verið of litlir.

Þannig hefur tekist góð sátt um þessa hluti og auðvitað er það þannig að það hlaut að vera nokkurt álitamál fyrir Vegagerðina og alla aðila og m.a. borgaryfirvöld hvort það væri í sjálfu sér rétt að byrja framkvæmdina í Ártúnsbrekku, hvort það væri ekki skynsamlegra að taka hana seinna í einni lotu þegar fjármunir væru til. En því miður var enginn kostur á því að setja málið upp þannig heldur urðum við að taka ákvörðun um að fara í þessa framkvæmd og það er ljóst að þrátt fyrir allt er hún til bóta. Hún er ekki til bölvunar þó að hitt hefði verið til miklu meiri bóta á vegakerfinu og aðallega umferðaröryggismálum ef framkvæmdinni hefði verið lokið. Þess vegna tel ég að tillaga hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og fleiri þingmanna Reykjavíkur og Reykjaness sé ekki á neinn hátt óeðlileg. Hún er flutt vegna þess samhengis sem málið er í og hv. þm. gat þess áðan að það þyrfti sérstaka lagabreytingu í þessu sambandi til að tryggja fjármunina. Það er rétt, fjármunir til Vegasjóðs eru ákveðnir í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum nú orðið, áður í lánsfjárlögum, og sjálfsagt þarf að breyta því. Ef svo vel vildi til að þessi tillaga yrði samþykkt þá breytti maður náttúrlega lögunum undir eins en tillagan frá þeim hv. þingmönnum er allra góðra gjalda verð. Þar er gerð tillaga um sérstaka fjármuni um framkvæmdir í Ártúnsbrekkunni.

Við hins vegar kusum að fara dálítið aðra leið þar sem við segjum að við tökum þessa heildarupphæð og segjum sem svo að þessum fjármunum eigi að skipta eftir sömu reglum og hlutföllum og fjárveitingum var skipt til framkvæmdaátaksins áður. Þetta þýðir það ef okkar tillaga yrði samþykkt þá færu þessir fjármunir nokkuð mikið í Ártúnsbrekkuna en líka í ýmis önnur verkefni, bæði t.d. í Reykjaneskjördæmi og ég hygg jafnvel í Norðurl. e. og e.t.v. fleiri kjördæmi en ég hef ekki gáð að því því mér finnst kannski að það sé ekki hlutverk okkar í einstaka atriðum að streða um það í því samhengi sem þetta mál er sett fram. Þess vegna finnst okkur, sem flytjum tillöguna, að það ætti a.m.k. að vera útlátalaust fyrir þingmenn stjórnarandstöðunnar úr dreifbýlinu að styðja tillögu af þessu tagi því að hér er verið að tryggja að staðið sé við framkvæmdaátak sem ákveðið hafði verið fyrir löngu. Ég geri mér grein fyrir því að það er flóknara fyrir þingmenn stjórnarflokkana að styðja þessa tillögu. Það mundi sæta meiri tíðindum ef hv. þm. Egill Jónsson, stórvinur minn, mundi styðja þessa tillögu eða Jón Kristjánsson. En það breytir ekki því að ég höfða til skynsemi þeirra eins og annarra þingmanna og bið þá um að hugleiða málið með mér í þeirri stöðu sem nú er uppi og vænti þess að við fáum góðar undirtektir við þessa tillögu. Ég lít ekki þannig á að við Reykvíkingarnir séum að taka á þessu máli sem afmörkuðu Reykjavíkurmáli. Ég tel að það sé landsmál hvernig þetta er. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr er svo óheyrileg umferð sem fer í gegn sem tilheyrir landsmönnum öllum og þess vegna er það sem ríkissjóður, landssjóðurinn, hefur ákveðið að standa að framkvæmdum á þessu svæði. Við metum hins vegar mikils þann stuðning sem við höfum fengið úr öðrum byggðarlögum við þarfir okkar Reykvíkinga sérstaklega í þessu efni en bendum á að það eru jafnframt að miklu leyti þarfir landsmanna allra og þess vegna er þessi tillaga flutt, hæstv. forseti.